Eftir Jón G. Hauksson
•
10. desember 2025
Pétur Viðarsson, bóksali í Bókabúðinni í verslunarmiðstöðinni Torginu í Grafarvogi, segir að sala á bókum sé meiri en undanfarin ár og að veruleg aukning sé í sölu á barnabókum. Hann hefur staðið vaktina í litlu bókabúðinni sinni af mikilli eljusemi frá árinu 1994 eða í rúm þrjátíu ár og þjónustað Grafarvogsbúa. Af einstökum höfundum segir hann að Arnaldur, Yrsa og Ólafur Jóhann seljist best og að sér sýnist bók Ólafs, Kvöldsónatan , hafi vinninginn, ef einhver er. Einar Kárason komi þarna stutt á eftir. Bók Arnalds Indriðasonar heitir Tál , Yrsu Sigurðardóttur Syndafall og Einars Kárasonar, Sjá dagar koma. „ Ef til vill segja einhverjir að þetta sé hefðbundið, Arnaldur og Yrsa við toppinn enn eitt árið. Að vísu seldist bókin hans Geirs Haarde vel hjá mér í fyrra, raunar mjög vel,“ segir Pétur. Hann segir ennfremur að það sé mjög ánægjulegt hvað barnabækur seljast vel þetta árið - og hversu mikið er spurt um þær. „Ævar vísindamaður hefur vinninginn í barnabókunum, líkt og undanfarin ár,“ segir Pétur. „Gunni Helga selst líka alltaf vel.“ Bókabúðin í Torginu er opin frá 11 til 18 alla virka daga. „Núna bætum við laugardögunum við og erum með fjóra síðustu laugardagana fyrir jól opna - og svo síðasta sunnudaginn fyrir jól líka. Aðventan er skemmtilegur tími og ánægjulegt að bókin á alltaf sína traustu fylgjendur þegar kemur að jólunum.“ Rétt aðeins í lokin - þú er þekktur sem mikill stuðningsmaður Úlfanna í enska boltanum. „Uss, núna er staðan erfið hjá okkur þar. Búnir að selja mjög marga góða leikmenn á undanförnum árum. En vonandi birtir til hjá okkur á næstunni og við náum að halda okkur uppi.“ - JGH