Hluthafaspjallið


Eftir Jón G. Hauksson 3. nóvember 2025
HLUTHAFASPJALL ritstjóranna. Hluthafar í fyrirtækjum eru ekki beint upplitsdjarfir þennan mánudagsmorgun því hægt er nánast að tala um „svartan mánudag“ eða öllu heldur rauðan í Kauphöllinni. Alvotech hefur fallið um 20% í morgun og stafar það af því að fyrirtækið fær ekki að svo stöddu markaðsleyfi í Bandaríkjunum fyrir líftæknilyfið AVT05 sem er hliðstæðulyf við Simponi. Þeim fjölgar stöðugt sem telja að erlendir hlutabréfamarkaðir séu of hátt skráðir en á mörkuðum í Evrópu voru ekki miklar breytingar í morgun. Líklegasta skýringin á rauðu tölunum í morgun er væntanlega að fyrirhugaðar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar séu farnar að hafa áhrif; bjartsýni stjórnenda í fyrirtækjum hefur til dæmis hríðfallið og þá er óvissan í kringum útlán bankanna og stöðuna á fasteignamarkaðnum farin að stigmagnast. Þá má geta þess að hagvaxtartölur frá fjórða ársfjórðungi 2023 hafa ekki verið til að hrópa húrra fyrir. Fréttin hefur verið uppfærð frá því hún birtist fyrst því gengi bréfa í Alcotech féll um 28% í gær, mánudag og hefur lækkað um 4% í dag, þriðjudag. - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 10. desember 2025
Pétur Viðarsson, bóksali í Bókabúðinni í verslunarmiðstöðinni Torginu í Grafarvogi, segir að sala á bókum sé meiri en undanfarin ár og að veruleg aukning sé í sölu á barnabókum. Hann hefur staðið vaktina í litlu bókabúðinni sinni af mikilli eljusemi frá árinu 1994 eða í rúm þrjátíu ár og þjónustað Grafarvogsbúa. Af einstökum höfundum segir hann að Arnaldur, Yrsa og Ólafur Jóhann seljist best og að sér sýnist bók Ólafs, Kvöldsónatan , hafi vinninginn, ef einhver er. Einar Kárason komi þarna stutt á eftir. Bók Arnalds Indriðasonar heitir Tál , Yrsu Sigurðardóttur Syndafall og Einars Kárasonar, Sjá dagar koma. „ Ef til vill segja einhverjir að þetta sé hefðbundið, Arnaldur og Yrsa við toppinn enn eitt árið. Að vísu seldist bókin hans Geirs Haarde vel hjá mér í fyrra, raunar mjög vel,“ segir Pétur. Hann segir ennfremur að það sé mjög ánægjulegt hvað barnabækur seljast vel þetta árið - og hversu mikið er spurt um þær. „Ævar vísindamaður hefur vinninginn í barnabókunum, líkt og undanfarin ár,“ segir Pétur. „Gunni Helga selst líka alltaf vel.“ Bókabúðin í Torginu er opin frá 11 til 18 alla virka daga. „Núna bætum við laugardögunum við og erum með fjóra síðustu laugardagana fyrir jól opna - og svo síðasta sunnudaginn fyrir jól líka. Aðventan er skemmtilegur tími og ánægjulegt að bókin á alltaf sína traustu fylgjendur þegar kemur að jólunum.“ Rétt aðeins í lokin - þú er þekktur sem mikill stuðningsmaður Úlfanna í enska boltanum. „Uss, núna er staðan erfið hjá okkur þar. Búnir að selja mjög marga góða leikmenn á undanförnum árum. En vonandi birtir til hjá okkur á næstunni og við náum að halda okkur uppi.“ - JGH

Eftir Jón G. Hauksson 23. október 2025
HLUTHAFASPJALL RITSJÓRANNA. Við félagarnir tókum upp öflugan þátt í gær í Hluthafaspjalli ritstjóranna sem hægt er að nálgast á efnisveitunni Brotkast.is . Sífellt fleiri sérfræðingar telja að verð hlutabréfa á erlendum mörkuðum sé orðið allt of hátt og spár um verðlækkun eru orðnar meira áberandi. Þetta og margt fleira fórum við Sigurður Már Jónsson yfir í þættinum. Meðal annars þetta: 1. Hið hrikalega áfall hjá Norðuráli á Grundartanga. Stóriðjan með 40% af útflutningstekjum þjóðarinnar og útflutningstekjur Norðuráls eru um 150 milljarðar á ári. Áætlað tekjutap á mánuði er ógnvekjandi tala eða um 5,4 milljarðar króna. Orkufyrirtækin og Eimskip tapa miklum tekjum. 2. Icelandair. Gengi bréfa lækkar þrátt fyrir að félagið sé núna með 69% af flugframboði um Keflavíkurflugvöll. 3. Gengi bréfa í Eimskip hefur lækkað um 19% frá 8. okt. sl. og félagið finnur heldur betur fyrir áfallinu hjá Norðuráli. 4. Við höfum í eitt ár rætt um það hvernig Jón Ásgeir Jóhannesson hefur búið til nýjan risa á matvörumarkaðnum; Dranga. Svo virðist sem honum hafi tekist að auka verðmæti hinnar nýju einingar um 25% frá því í sumar. Félagið stefnir á markað. 5. Símafyrirtækin. Enn hallar undan fæti hjá Sýn. Afkomuviðvörun. Dramatískar aðgerðir mun líklegri nú en áður. Mikill munur á markaðsvirði símafyrirtækjanna. 6. Fasteignamarkaður. Lítið að gerast og fjöldi nýbyggðra íbúða óseldur. 7. Bankar eru byrjaðir að draga úr útlánum. 8. Bílgreinin horfir fram á hrun í bílasölu á næsta ári vegna stóhækkaðs vörugjalds á bíla. Virðist sem fyrrum eigendur Öskju hafi selt á réttum tíma. 9. Ferðaþjónustan er núna á nálum vegna hugmynda ríkisstjórnarinnar um að bæta við sköttum á hana. Verð bílaleigubíla á eftir að hækka og mun færri farþegaskip koma til landsins með tilheyrandi tekjutapi. 10. Kvennafrídagurinn fyrir 50 árum. Miklar framfarir og sífellt fleiri konur veljast núna í stjórnunarstöður í fyrirtækjum. Fögnum fimmtíu árunum og tölum um framfarirnar frekar en eitthvert bakslag í jafnréttismálum. 11. Sundabrautin og hvað það er sem Grafarvogsbúar óttast helst - sem er að umferð frá austurhluta borgarinnar stóraukist inn í Grafarvoginn til að komast inn á Sundabrautina.  Þetta og talsvert meira í hressilegu spjalli okkar.
Eftir Jón G. Hauksson 23. október 2025
HLUTHAFASPJALL RITSTJÓRANNA. Það er athyglisvert að skoða virði símafyrirtækjanna og fórum við félagarnir Sigurður Már Jónsson yfir þau mál í nýjasta þætti Hluthafaspjalls ritstjóranna sem tekinn var upp í gær og er á efnisveitunni Brotkast.is. Síminn er sex sinnum verðmeiri en Sýn, metinn á 32 milljarða meðan markaðsvirði Sýnar er tæpir 5 milljarðar. „Litla“ símafyrirtækið á markaðnum, Nova, hefur hækkað talsvert á árinu og er virði þess um 17 milljarðar kr. Sýn hefur gefið út afkomuviðvörun fyrir þriðja ársfjórðung. Á meðal þess sem við ræðum um er hvort Sýn hafi mistekist að ná áskrifendum til sín með því að yfirbjóða Símann varðandi enska boltann. Drastískar aðgerðir á Sýn eru miklu líklegri en áður. Fyrstu 9 mánuði ársins var hagnaður Símans tæpur 1 milljarður kr. og Nova rúmur hálfur milljarður. Níu mánaða uppgjör Sýnar liggur ekki fyrir en tap var á Sýn upp á rúman hálfan milljarð fyrstu sex mánuðina - og afkomuviðvörun gefin út vegna þriðja ársfjórðungs, sem fyrr segir. - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 9. október 2025
HLUTHAFASPJALL ritstjóranna. Hún er skemmtileg teikningin sem Aðalsteinn Jörgensen bridgesnillingur gaf félaga mínum í Hluthafaspjalli ritstjóranna, Sigurður Má Jónssyni , í afmælisgjöf. Að sjálfsögðu notuðum við þessa mynd þegar við sögðum frá nýjasta þætti okkar á samfélagsmiðlunum. Í seinni hluta þáttarins kom góður gestur í heimsókn, Helgi Vífil Júlíusso n, hlutabréfagreinandi hjá IFS/Reitun. Á meðal þess sem við Siguður Már ræddum um var þetta: 1. Verður hausthækkunin í Kauphöllinni að þessu sinni? 2. Amaroq fær byr í seglinn og félagið er að verða lykill að námagreftri á Grænlandi. 3. Verð á gulli er komið yfir 4 þús. dollara únsan. 4. Óbreyttir stýriextir; 7,5% í 4,2% verðbólgu. 5. Neikvæður hagvöxtur sl. 4 ársfjórðunga af síðustu 7 ársfjórðungum. 6. Ætti frekar að tala um kulnun atvinnulífsins fremur en kólnun því bjartsýni stjórnenda innan atvinnulífsins hefur hrunið frá því ríkisstjórnin tók við? 7. Gengi hlutabréfa Íslandsbanka og Skaga hefur ekkert breyst þótt viðræður um samruna standi yfir. 8. Seðlabanki og Fjármálaráðuneyti hafa ekki gengið í sömu átt að undanförnu en nú er gefið í skyn að leiðir liggi frekar saman. Er það vegna óbreyttra stýrivaxta og aukinnar skattheimtu ríkisstjórnarinnar - og það á meðan nánast enginn hagvöxtur hefur verið frá síðasta ársfjórðungi 2023? Það ríkir stagflation (stöðnun en á sama tíma verðbólga). 9. Oculus er að snarhækka með auknum líkum á milljarða dollara tekjum. Jafnframt aukast líkur á að stórir sjóðir og fjárfestar sýni fyrirtækinu áhuga - meðal annars með yfirtöku. 10. Bandaríski markaðurinn í hæstu hæðum og það vekur athygli að verð á gulli og hlutabréfum eru á sama tíma að toppa. Sífellt fleiri farnir að tala um froðu og að verðfall geti orðið á næstunni. Eru gervigreindin og nýleg vaxtalækkun ofmetin? 11. Það var skrítið að reglugerð Eyjólfs Ármannssonar innviðarráðherra eftir fall Play væri afturvirk. 12. Umræður um tap lífeyrissjóða vegna Play eru að því leyti sérstakar að gengi bréfa í félaginu var löngu fallið og sjóðirnar búnir að afskrifa hluti sína í félaginu. Svo var auðvitað gaman að félagi minn og vinur, Sigurður Már, fengi þessa stórskemmtilegu teikningu í afmælisgjöf þar sem hlaðvarpið okkar kemur ánægjulega við sögu. - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 2. október 2025
HLUTHAFASPJALL ritstjóranna. Eldur Ólafsson, forstjóri og stofnandi Amaroq, mætti í Hluthafaspjall ritstjóranna, hlaðvarps okkar Sigurðar Más Jónssonar, að þessu sinni. Námuvinnslufyrirtækið Amaroq hefur nú verið þrjú ár í kauphöllinni og er án efa eitt af mest spennandi og um leið óvenjulegustu félögum kauphallarinnar. Jarðfræðingurinn Eldur fer í þættinum yfir upphaf félagsins og hvað varð til þess að hann fór inn í Grænland en áður átti hann áhugaverðan feril þar sem hann kom að jarðhitauppbyggingu í Kína. Eldur segir í viðtalinu við Sigurð Má að gríðarleg tækifæri á Grænlandi og ef rétt sé haldið á spilum sé þar að finna eitt stærsta tækifæri íslensks viðskiptalífs. Á Grænlandi séu að skapast mörg tækifæri til að taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem er framundan þar. Landið er nú í hringiðu alþjóðlegrar athygli en náttúruauðlindir landsins eru miklar og ónýttar. Eldur fer yfir rekstur og framtíðarsýn félagsins en hann segir það vel fjármagnað og með traustan hluthafahóp. Námugröftur á Grænlandi kallar á mikla innviðauppbyggingu þar í landi og Amaroq er í einstakri stöðu til að stýra því. - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 25. september 2025
HLUTHAFASPJALL ritstjóranna. Ein eftirtektaverðustu fyrirtækjakaup ársins áttu sér stað þegar Brim hf. keypti allt hlutafé Lýsis hf. fyrir samtals 30 milljarða króna. Við félagarnir Sigurður Már Jónsson förum yfir þessi kaup í nýjasta þætti Hluthafaspjalls ritstjóranna, hlaðvarpsþætti okkar á Brotkast.is Við förum yfir kaupin, aðdragandann, sögu félagsins og hvaða áhrif hækkun veiðileyfagjalda hefur á söluna. Kaupverðið mun skiptast jafnt í reiðufé og hlutabréf í Brim hf. Frá heildarverðmæti hlutafjár dragast vaxtaberandi skuldir Lýsis hf. sem námu rúmum 5,2 milljörðum króna þann 30. júní 2025. Fréttir voru af því að um skeið hefðu menn skoðað möguleika á að skrá Lýsi í Kauphöllina en að endingu lagði Brim fram tilboð sem ekki var hafnað. Erlendir aðilar höfðu áhuga en það er fagnaðarefni að félagið verði áfram í íslenskri eigu. Um leið styrkist hluthafahópur Brims og kaupin styrkja hráefnisstöðu Lýsis og færa Brim lengra upp virðiskeðju sjávarafurða. - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 17. september 2025
HLUTHAFASPJALL ritstjóranna. Það er jafnan komið víða við í hlaðvarpi okkar Sigurðar Más Jónssonar á Brotkast.is - Hluthafaspjalli ritstjóranna . Í nýjasta þætinum ræðum við um fjárlagafrumvarpið og hvernig báknið heldur áfram að þenjast út. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir 123 milljarða aukningu ríkisútgjalda á næsta ári - sem og að hækka eigi skatta á fólk og fyrirtæki um 28 milljarða . Vandamálið sem blasir við í efnahagslífinu er að við búum við verðbólgu og háa vexti á sama tíma og það er enginn hagvöxtur. (Stagflation=Stöðnun/verðbólga á sama tíma). Á síðustu sjö ársfjórðungum frá fjórða ársfjórðungi 2023 hefur hagvöxtur verið neikvæður í fimm skipti. Helsta markmið ríkisstjórnarflokkanna í síðustu kosningum var að ná niður verðbólgunni ( nota sleggjuna til þess ) og þar með ná niður vöxtum. Ef það er ennþá helsta markmiðið þá virðast Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið ganga í sitt hvora áttina. Seðlabankinn (peningastefnan) er á bremsunni með háa vexti til að ná niður verðbólgu á meðan ríkisstjórnin (fjárlagastefnan, ríkisfjármálin) er á bensíngjöfinni með stórauknum ríkisútgjöldum og fjárlagahalla sem auka á þensluna. - JGH Hér má sjá örlítið brot af spjalli okkar félaganna um frumvarpið: https://www.youtube.com/watch?v=FFlFKPpkebw
Skoða fleiri fréttir