Skipulagsmál


Eftir Jón G. Hauksson 24. júlí 2025
GEGN ÞÉTTINGU. Hún er fróðleg könnunin sem Prósent gerði dagana 1. til 21. júlí um þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu og Vísir greinir frá . Alls segjast 56% landsmanna vera neikvæð gagnvart þéttingunni. Spurt var: Hversu jákvætt eða neikvætt er viðhorf þitt gagnvart þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu? Út frá búsetu sögðust 64% íbúa nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur neikvæð gagnvart þéttingunni, 56% íbúa Reykjavíkur og 52% íbúa landsbyggðarinnar . Sem kunnugt er hafa íbúar í Grafarvogi mótmælt harðlega áformum meirihlutans í borginni um að þétta byggð með miklu raski í grónum hverfum Grafarvogs og vega bæði að útivistarsvæðum og vegakerfinu. Nokkrir fjölmennir og kröftugir mótmælafundir hafa verið haldnir gegn þéttingarstefnunni en núna styttist í að borgaryfirvöld gangi frá deiliskipulaginu en hátt í tvö þúsund athugasemdir bárust frá Grafarvogsbúum í Skipulagsgáttina í vor. - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 24. júlí 2025
GEGN ÞÉTTINGU. Hún er fróðleg könnunin sem Prósent gerði dagana 1. til 21. júlí um þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu og Vísir greinir frá . Alls segjast 56% landsmanna vera neikvæð gagnvart þéttingunni. Spurt var: Hversu jákvætt eða neikvætt er viðhorf þitt gagnvart þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu? Út frá búsetu sögðust 64% íbúa nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur neikvæð gagnvart þéttingunni, 56% íbúa Reykjavíkur og 52% íbúa landsbyggðarinnar . Sem kunnugt er hafa íbúar í Grafarvogi mótmælt harðlega áformum meirihlutans í borginni um að þétta byggð með miklu raski í grónum hverfum Grafarvogs og vega bæði að útivistarsvæðum og vegakerfinu. Nokkrir fjölmennir og kröftugir mótmælafundir hafa verið haldnir gegn þéttingarstefnunni en núna styttist í að borgaryfirvöld gangi frá deiliskipulaginu en hátt í tvö þúsund athugasemdir bárust frá Grafarvogsbúum í Skipulagsgáttina í vor. - JGH

Eftir Jón G. Hauksson 2. júlí 2025
ENGIN REFSING! Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri borgarlandsins, segir í samtali við Vísi út af frétt Grafarvogs.net í gærkvöldi að borgin hafi ekki verið að refsa Grafarvogsbúum með því að slá ekki túnið við Sóleyjarima. Til hafi staðið að slá túnið síðsumars. Sjá frétt Vísis hér. Hjalti segir við Vísi að þetta sé liður í að draga úr slætti í borginni en undanfarin ár hafi borgin skoðað svæði til að draga úr slætti og að túnið við Sóleyjarima hafi orðið fyrir valinu ásamt öðrum svæðum. „Þetta hefur alltaf verið í slætti hjá okkur undanfarin ár. En þetta tengist verkefni sem heiti Grassláttur í Reykjavík, þar sem við skoðum svæði þar sem draga má úr slætti og önnur sem jafnvel mega bara fá að vaxa villt,“ segir Hjalti við Vísi. ÁTTI AÐ SLÁ SÍÐSUMARS „Það stóð til að slá Sóleyjarima bara einu sinni í sumar, og það átti að vera svona síðsumar,“ segir Hjalti. Hann segir að komi ábendingar um að fólk vilji láta slá þessi tún, þá geti borgin tekið mark á þeim. Það stangast raunar á við frásögn íbúa við Sóleyjarima sem segja að borgin hafi neitað að slá þrátt fyrir beiðni og óskir þar um. Þá segir Hjalti að engin tengsl séu milli fyrirhugaðrar íbúðauppbyggingar á svæðinu og ákvörðunar um að draga úr slætti á túninu. „Nei, nei. Sjónarmiðið á bak við þetta verkefni er að reyna að auka aftur líffræðilegan fjölbreytileika og fá svona fjölbreyttara útlit á svæðið. Hjálpa þessum náttúrulega gróðri í borgarlandinu að vaxa og dafna .“ Athyglisvert! Liður í að h jálpa náttúrulegum gróðri að vaxa og dafna en samt stóð til að slá síðsumars. - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 1. júlí 2025
TÓKU SLÁTTINN Í SÍNAR HENDUR. Það var heldur betur líflegt á túninu við Sóleyarima í Grafarvogi fyrir neðan flugfjarskiptastöð Isavia í kvöld. Íbúarnir höfðu margoft beðið borgina um að slá túnið líkt og hún hefur gert undanfarin ár - en þó ekki þetta sumarið. Þeir sýndu samstöðu í verki og sló túnið sjálfir; ungir sem aldnir mættu og tóku þátt. Þetta er þekkt útivistarsvæði og túnið hefur iðað af börnum að leik á sumrin. Til stendur að reisa þarna fjölda íbúða nái áform borgarinnar um þéttingu byggðar í Grafarvogi fram að ganga.
Eftir Jón G. Hauksson 3. júní 2025
SKOÐUN eftir Jón G. Hauksson. Dóra Björt Guðjónsdóttir , borgarfulltrúi Pírata og formaður í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur, er býsna brött í grein sinni í Vísi í dag. Hér verða dregnar fram tilvitnanir úr grein hennar og þeim svarað lið fyrir lið. Hún byrjar grein sína á húsnæðisátaki borgarinnar. 1. DÓRA: „Húsnæðisátak borgarinnar sem hófst í Grafarvogi snýst um að flýta húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík vegna þeirrar húsnæðiskrísu sem stendur yfir en það gekk á tímabili hægar að byggja vegna verðbólgu og hárra vaxta.“ Hér er hlutunum snúið á hvolf. Verðbólga og háir vextir eru frekar afleiðing af því að meirihlutinn í borginni hefur árum saman ekki sinnt skyldu sinni við að nema ný lönd og finna ný byggingarhverfi heldur lagt áherslu á að þétta byggð í borginni svo úr hefur orðið húsnæðisskortur! 2. DÓRA: „Svo mætir það vöntun á minni uppbyggingarlóðum í borginni þannig að minni verktakar fái verkefni og fleiri hendur vinnu við húsnæðisuppbyggingu.“ Það var og! Hér virðist þéttingin í Grafarvogi skyndilega vera í þágu verktaka. 3. DÓRA: „Greining á skólum borgarinnar um hvar væri svigrúm til að fjölga nemendum leiddi í ljós að hægt væri að fjölga íbúðum í Grafarvogi án þess að byggja nýja skóla.“ Rangt! Innviðir í Grafarvogi, eins og vegakerfi, skólar og heilsugæsla, eru þegar sprungnir. Þess utan er ástandið í skólamálum Reykjavíkurborgar mjög krítískt vegna stóraukins álags kennara, sérkennara, námsráðgjafa og skólaliða vegna aukins fjölda barna sem hafa flust til landsins og hafið nám í skólum og leikskólum borgarinnar undanfarin ár. Kennarar eru að kikna undan álagi. Skólakerfið og innviðir því tengdu eru sprungnir! 4. DÓRA: „Til að setja þetta aðeins í samhengi eru þetta mun færri íbúðir en eru núna í uppbyggingu í miðborginni þar sem 538 íbúðir eru í uppbyggingu árið 2025.“ Þetta er svolítið sérstakt. Þéttingin í Grafarvogi er réttlætt með því að hún sé minni en yfirstandandi þétting í miðborginni. Hljómar eins og að vitlaus stefna í Grafarvogi sé í lagi því vitleysan í miðboginni sé ennþá meiri. Dóra Björt getur ekki troðið niður íbúðum samhengislaust hér og þar í Grafarvogi við stofnbrautir með þeim rökum að um færri íbúðir sé að ræða en í miðborginni – en þéttingin þar hefur verið harðlega gagnrýnd og þéttingaríbúðirnar dýrari og fyrst og fremst fyrir þá efnameiri. 5. DÓRA: „Eftir að fyrstu uppbyggingarhugmyndir um nýja íbúðabyggð í Grafarvogi voru kynntar fyrir íbúum haustið 2024 voru áform rýnd út frá athugasemdum þar sem gengið var mjög langt í að mæta sjónarmiðum íbúa.“ Rangt! Sjónarmiðum íbúa hefur ekki verið mætt sem neinu nemur. Borgarfulltrúar geta ekki sett fram ýktar tillögur um þéttingu í upphafi til þess eins að geta dregið lítillega í land og sagst í kjölfarið ganga mjög langt í að mæta sjónarmiðum íbúa – og allir eigi þá að vera fegnir og ánægðir. 6. DÓRA: „Allt tal um að ekki sé hlustað á íbúa stenst heldur ekki skoðun því við höfum sjaldan gengið jafn langt í að leita samtals við íbúa eða í að aðlaga tillögur að athugasemdum þeirra.“ Þetta er allt að því móðgun. Samtal við íbúa hefur verið yfirborðskennt og fráleitt að halda því fram að tillögurnar hafi verið lagaðar að athugasemdum íbúa. Vilji íbúa okkar í Grafarvogi er mjög skýr: Við höfnum þessum áformum í einu og öllu – og höfum komið því áleiðis á mjög fjölmennum íbúafundum og sent á annað þúsund kröftug mótmæli inn í Skipulagsgáttina á undanförnum vikum. 7. DÓRA: „Við höfum sannarlega hlustað vel á íbúa og breytt miklu og þó er samráðsferlinu hvergi lokið. Við erum ekki einu sinni farin af stað með lögformlegt samráð og sá ferill er allur eftir en þó hafa áformin þegar tekið gríðarmiklum breytingum nú þegar.“ Þessi fullyrðing er nánast óskiljanleg; „hlustað vel á íbúa og breytt miklu“ . Dóra Björt og meirihlutinn í borgarstjórn eru þegar byrjuð að úthluta íbúðum með fyrirvara á þéttingarreitum. Lágmarks kurteisi hefði verið að bíða með þær úthlutanir þar til breytt aðalskipulag væri auglýst og staðfest í stað þess að ögra íbúum með því að stíga þetta skref í úthlutunum í miðju ferli. Sannast sagna ekki mjög sannfærandi. En Dóra á inni sterkan leik; að hætta við þéttinguna í hinu „lögformlega samráði“ fyrst sá ferill er allur eftir að hennar sögn. 8. DÓRA: „Það er hægt að byggja vel og illa hvort sem þú ert að þétta eða dreifa byggð svo gæðin snúast ekki um skipulagsstefnuna heldur vinnubrögðin.“ Athyglisvert! Hér er sagt að gæðin snúist ekki um skipulagsstefnuna heldur einhver vinnubrögð. Góðir leiðtogar marka stefnuna og varða leiðina sem unnið er eftir. Auðvitað snýst málið því um stefnuna; skipulagsstefnuna – nýtt deili- og aðalskipulag – þar sem verið er að þétta byggðina. Það eru líka tákn um gæði í vinnubrögðum að borgarfulltrúar, sem eru í vinnu fyrir íbúana, vinni fyrir þá en ekki gegn þeim. 9. DÓRA: „Á íbúafundi í Grafarvogi heyrði ég í samtölum mínum að flestum þótti eðlilegt að byggja meira innan Grafarvogs og þótti margar af þessum tillögum prýðilegar þó eitt og annað mætti athuga og fólu þau samtöl í sér allt önnur skilaboð en yfirlýsingagleði einstaka sjálfskipaðra fulltrúa Grafarvogs sem heyrst hefur á opinberum vettvangi um að allt sé þetta hrikalegt.“ Merkilegt – mjög svo. Dóra kýs að skilja skilaboðin frá fjölmennum íbúafundum (en hún hefur ekki mætt á síðustu tvo þeirra, svo ég viti til) á þá leið að íbúum þyki „eðlilegt að byggja meira innan Grafarvogs“ . Þetta heitir að lesa salinn vitlaust. Svo ræðir hún um „sjálfskipaða fulltrúa Grafarvogs“ og geta sjálfsagt hundruð Grafarvogsbúa tekið þá hæðnisglósu til sín. En hvað varð allt í einu um fallega íbúalýðræðið og að raddir íbúa ættu að heyrast? 10. DÓRA: „Í þessu ljósi er erfitt að skilja skynsemina í því að setja verkefnin í Grafarvogi öll undir sama hatt og gefa í skyn að þau séu öll vond hugmynd eins og þessar sömu gagnrýnisraddir hafa gert. Slíkt er í fullri einlægni erfitt að taka alvarlega fyrir þau okkar sem erum sannarlega að hlusta en ber samt að fjölga íbúðum um alla borg meðal annars vegna þeirrar húsnæðiskrísu sem stendur yfir.“ Ofsögum sagt. Það er ofsögum sagt að Dóra og félagar séu „sannarlega að hlusta“ á sjónarmið íbúa í Grafarvogi. Þess utan „ber“ borginni engin skylda til að rústa aðalskipulaginu og fjölga íbúðum í grónum hverfum um alla borg. Nær væri fyrir Dóru að nema ný lönd annars staðar en á litlum þéttingarreitum við fjölfarnar götur í Grafarvogi standi hugur hennar til að leysa úr lóðaskorti og húsnæðiskrísu. 11. DÓRA: „Til þess að mæta húsnæðiskrísunni verðum við öll að leggja hönd á plóg og það getur varla talist eðlileg krafa að Grafarvogur standi utan þeirrar ábyrgðar.“ Mikið sagt! Grafarvogsbúar leggja svo sannarlega sín lóð á vogarskálarnar með fyrirsjáanlegri stóraukinni umferð um hverfið en gífurleg fjölgun íbúða (allt að 20 þúsund manna byggð) er fyrirhuguð í nærumhverfi Grafarvogs sem verður til þess að umferð um Grafarvog mun stóraukast. Spyrja má á móti hvort það felist í því mikil „ábyrgð“ af hálfu Dóru að hunsa þessa framtíðarsýn og leyfa sér að byggja á litlum blettum alveg upp að öflugum umferðaræðum og þrengja þannig að umferðinni í stað þess að gefa henni aukið rými – og eiga inni fyrir fyrirsjáanlegum umbótum á vegakerfinu í Grafarvogi vegna aukinnar umferðar. Dóra er hins vegar á móti bílum og bílaumferð! Og þetta með plóginn; við leggjum ekki hönd á þann stóra plóg sem hún ætlar að nota í stórfelldan uppgröft í grónum hverfum Grafarvogs á næstu árum. 12. DÓRA: „Á sama tíma bætir það hverfin og eflir að byggja innan þeirra, glæðir almannarýmin enn meira lífi, færir fleirum aðgengi að nærþjónustu og verslun í nærumhverfi og einstaklingar og fjölskyldur sem vantar heimili sem hentar fá tækifæri til að búa innan dásamlegra og fjölskylduvænna hverfa.“ Fallegt ef satt væri! Það bætir hins vegar ekki gróin hverfi að grafa þau upp með miklu jarðraski og gröfum með tilheyrandi þungaflutningum - og troða þar niður einbýlishúsum, raðhúsum, parhúsum og fjölbýlishúsum á örlitlum þéttingarreitum nánast ofan í þegar sprungið vegakerfið – og það í óþökk flestra íbúa. Og hvað þá að það sé „dásamlegt og fjölskylduvænt“ að ganga á græn svæði; hjóla- og göngustíga; byrgja útsýni ökumanna; byrgja útsýni núverandi íbúa á mörgum stöðum og síðast en ekki síst að koma í bakið á íbúum sem hafa keypt og byggt íbúðir í trausti þess að deiliskipulagið stæðist. En ég árétta að Dóra og meirihlutinn í borgarstjórn eiga inn sterkan leik; að hætta við þéttinguna í hinu „lögformlega samráði“ fyrst sá ferill er allur eftir að hennar sögn. Jón G. Hauksson, útgefandi og ritstjóri Grafarvogs.net
Eftir Jón G. Hauksson 1. júní 2025
SMÁNARBLETTIR. Auðvitað er þessi vanhirða borgarinnar til háborinnar skammar og ekkert annað. Í þessari viku verða liðnar þrjár vikur frá því Grafarvogur.net varpaði fram þeirri spurningu hvort ekki væri kominn til að slá gras, fífla og njóla við gangstéttir og vegkanta hér í Grafarvogi. Tæpri viku síðar, 19. maí, var þeirri skoðun slegið fram að þessir óslegnu og vanhirtu grasbalar settu svartan blett á borgina - og nefndi ég þá smánarbletti borgarinnar. Grastopparnir voru þá víða komnir í hálfan metra við vegkanta. Ýmsir brugðust þá að vísu við með því að telja þessa órækt hið besta mál - og aðrir létu að því liggja að gagnrýnin snerist um flokkspólitík. Aðhald og krafa um snyrtimennsku kemur flokkspólitík auðvita ekkert við. Grafarvogur.net skorar á borgaryfirvöld að setja meiri metnað í snyrtimennsku - og að sláttur og almenn umhirða í úthverfum borgarinnar verði framar í forgangsröðinni. Vilji er allt sem þarf! - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 19. maí 2025
SMÁNARBLETTUR Á BORGINNI . Óslegnir grasbalar við gangstéttir og vegkanta í Grafarvogi eru orðnir að smánarblettum borgarinnar. Það sem meira er; grastopparnir við vegkanta eru víða að nálgast 50 cm – hálfan metra. Grafarvogur.net hefur áður vakið athygli á að það virðist borginni algerlega ofvaxið að þjónusta Grafarvogsbúa með sóma og slá ofvaxna grasbala við gangstéttir og vegkanta. Ég gerði mér það að leik í kvöld að mæla hæðina á stærstu stráunum og setti niður hálfs metra skóhorn til viðmiðunar. Það var toppað. ÞAÐ VAR Í ÁGÚST AÐ ÁLIÐNUM SLÆTTI... Með sama áframhaldi endar þetta á því að lagið um Kötu verður sungið um nýju borgarstýrurnar – þær voru að koma af engjunum heim; það var í ágúst að áliðnum slætti... En svona án gríns; þetta hirðuleysi og getuleysi borgarinnar í slættinum er til háborinnar skammar og er því miður birtingarmynd þess að margt annað sé ekki í lagi við stjórn borgarinnar! - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 15. maí 2025
SAMSTAÐA GRAFARVOGSBÚA. Ekki vantaði samstöðuna á fjöldafundi Grafarvogsbúa í Rimaskóla núna síðdegis og fundurinn ályktaði samhljóma að senda harðorða yfirlýsingu til meirihlutans í borginni um að falla frá öllum áformum sínum um þéttingu í hverfinu og meginkrafan var einföld: „Látið Grafarvog í friði“. Niðurstaða fundarins var að hópmálsókn íbúa í Grafarvogi gegn borginni kemur til álita og var reifuð - sem og að krefjast íbúakosningar um þéttingarstefnu borgarinnar í samstarfi við önnur hverfi - en minnst 20% íbúa með kosningarétt þarf til að knýja fram íbúakosningu. Enginn borgarfulltrúi frá meirihlutanum var á staðnum og létu ekki svo lítið sem að sjá sig. Nokkrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru mættir. Þegar komið var að skólanum rétt fyrir fundinn streymdi fólk að og ekki fór á milli mála að eitthvað mikið lá í loftinu; jú, fundarmenn voru komnir til að sjá og sigra; mótmæla, allir sem einn. Grafavogsbúar finna fyrir mótlætinu og upplifa mikla sýndarmennsku af hálfu meirihlutans og að hann valti yfir þá með áformum sínum um þéttingu byggðar í grónum og fullbyggðum Grafarvogi.
Skoða fleiri fréttir