Á förnum vegi


Eftir Jón G. Hauksson 15. desember 2025
Þau eru svo sannarlega afreksfólk í íþróttum Annað árið í röð voru þau Emilía Embla og Dagur valin skákmennn Fjölnis 2025. Á glæsilegri uppskeruhátíð Fjölnis í Keiluhöllinni á dögunum var tilkynnt um val á afreks-íþróttafólki félagsins í öllum deildum. Skákdeildin valdi Emilíu Emblu B. Berglindardóttur skákkonu Fjölnis 2025 og Dag Ragnarsson skákkarl Fjölnis 2025. Til hamingju, þið eruð miklar fyrirmyndir í hinu framúrskarandi skákstarfi Fjölnis. Dagur er einn af lykilmönnum í hinni sigursælu Íslandsmeistarasveit Fjölnis sem sigraði á Íslandsmóti skákfélaga í vor með fullu húsi vinninga. Dagur tefldi með landsliði Íslands á EM landsliða í skák sem fram fór í Georgíu í október sl. Emilía Embla er Íslandsmeistari stúlkna í flokki U14 og einnig stúlknameistari Reykjavíkur, annað árið í röð. Hún er í skáksveit Rimaskóla sem vann Íslandsmót barnaskólasveita og náði 3. sæti á NM barnaskólasveita í Finnlandi nú í haust. Skákdeild Fjölnis óskar þeim Emilíu Emblu og Degi hjartanlega til hamingju með heiðurinn. ( Ljósm: Gunnar Jónatansson ). - JGH

Eftir Jón G. Hauksson 15. desember 2025
Gluggaskrautið fær svolítið annan blæ þegar það gægist út um gluggann og mátar sig við svarthvítu snjómugguna. Höfuðborgarbúar fengu óvænta snjómuggu upp úr hádegi í gær, sunnudaginn 14. mars, og úti varð flughált á augabragði. Veröldin varð svarthvít. Allt hefur þetta sinn sjarma. Jólasnjór á þriðja sunnudegi á aðventu. Kyrrðin, maður minn, hún er fyrir öllu; vetrarstillan. Hljómsveitin Flowers fluttu lagið Gluggann á áttunda áratug síðustu aldar við miklar vinsældir. Enn má heyra það á öldum ljósvakans. „ Ég sit og gægist oft út um gluggann. “ Lagið er eftir Rúnar Gunnarsson en textinn eftir Þorstein Eggertsson . Sjá má textann að fullu hér. - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 14. desember 2025
Það hefur verið flughált í Grafarvogi núna síðdegis og þá er auðvelt að misreikna aðstæður. Ekið hafði verið á þessi umferðarljós á hinum umferðarþungu gatnamótum Gullinbrúar og Hallsvegar eftir hádegi í dag þegar Grafarvogur.net átti þar leið um. Það er aldrei of varlega farið í umferðinni - og hvað þá í mikilli hálku. - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 13. desember 2025
Grafarvogsbúarnir Björgvin Þór Valdimarsson og Roar Aagestad koma að nýju og skemmtilegu tónlistarmyndbandi sem heitir Jólagjöfin í ár . Lag og texti er eftir Björgvin Þór en Roar gerði myndbandið. Flytjendur eru Berglind Magnúsdóttir söngkona ásamt félögum úr Karlakór Reykjavíkur, Karlakór Selfoss og Lúðrasveit Þorlákshafnar. Þegar myndbandið var unnið varð niðurstaðan að taka það upp í nýja miðbænum á Selfossi en þar er afskaplega jólalegt um að litast og þar má finna fallegar gjafavöruverslanir - og verður bara að segjast eins og að það var vel til fundið að velja þann stað þótt Grafarvogurinn okkar sé auðvitað þar sem hjartað slær. HIN FULLKOMNA JÓLAGJÖF Texti lagsins fjallar um jólagjafakaup okkar Íslendinga og leitinni að hinni fullkomnu jólagjöf. Því fylgir að fólk fer mikið á netið og fylgist með auglýsingum því alltaf er eitthvað nýtt að koma á markaðinn og þó að við eigum nánast allt þá þurfum við alltaf að bæta einhverju nýju við. Allt þetta skapar eftirvæntingu og gleði og spennan eykst með hverjum deginum. Þetta er skemmtilegt lag eftir Björgvin og hægt að hlusta á það hér. Þeir sem vilja nálgast það á Spotify þá er það hér. Til hamingju með nýja jólalagið, félagar Björgvin Þór og Roar . - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 12. desember 2025
Fréttin okkar um að Smárarimi 3 væri líklegast besta skreytta húsið í Grafarvoginum fyrir þessi jól fékk verðskuldaða athygli og mikla lesningu á vefnum. Í kjölfarið komu fjölmargar ábendingar um einbýlishús í Hamrahverfinu væri síst síðra og varla væri hægt að horfa fram hjá því þegar rætt væri um best skreytta húsið í Grafarvoginum. Við gerðum okkur ferð og viti menn; við Salthamra 1 er sannkölluð jóladýrð. Eins konar jólaland. Og það er hverju orði sannara að þar sé farið alla leið og ekkert til sparað við að setja upp jólaseríur. Glæsilegt. Þetta er hornhús við Salthamra og Lokinhamra og þessi skreyting fer ekki fram hjá neinum - ekki svo sem frekar en við Smárarima 3. Mjög ólíkar skrreytingar en e infaldlega vel gert í báðum tilvikum! - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 10. desember 2025
Ljósin í bænum, var nafn á hljómsveit hér í denn þar sem sungið var um að fara í ljós þrisvar í viku. Núna þykja sólbekkirnir hættulegir en jólaljósin gleðja svo sannarlega og það er víða vel skreytt í Grafarvoginum. Hann var svo sem ekki víðfeðmur rúnturinn í kvöld. Skottast í Spöngina eftir lítilræði en úr varð litrík heimferð þar sem jólaseríur og jólaskreytingar utandyra á húsum fönguðu hugann um stund. Tók nokkrar myndir þar sem rauðar, hvítar og marglitar séríur komu við sögu. - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 10. desember 2025
Það er ánægjulegt hvað Grafarvogsbúar hafa tekið vel við sér með jólaskreytingar og seríurnar setja svo sannarlega svip sinn á hverfið. Víða er þetta mjög vel gert en mér er til efs að margir toppi jólaljósadýrð íbúanna við Smárarima 3. Þurfti að skottast upp í Spöng og ná í lítilræði. Á leiðinni til baka blasti dýrðin við mér þegar ég kom að hringtorginu við Borgaveginn við Rimahverfið. Það var ekki annað í boði en beygja niður Smárarimann og skoða betur. Þetta er alvöru og tekið alla leið. Glæsilegt. Glugginn nánast sýningargluggi og með mikið aðdráttarafl. - JGH
Skoða fleiri fréttir