Á förnum vegi

Eftir Jón G. Hauksson
•
12. september 2025
Hann er magnaður áhugi barna og unglinga á skákinni í Grafarvogi enda starfið í skákdeild Fjölnis sérlega gott. Á æfinginni í gær var setið við öll borð en þá mættu tæplega 60 krakkar á skákæfinguna. Það sem meira var; fjöldi nýrra barna mætti á fyrstu æfingu vetrarins í síðustu viku og þau mættu svo öll aftur í gær, sæl og ánægð. Mjög svo ánægjulegt. Að sögn Helga Árnasonar , formanns skákdeildar Fjölnis, hjálpar það mjög við að stýra æfingunum að foreldrar fylgja þeim yngstu á æfingarnar. Hann segir að tveir yngstu hóparnir hafi fyllst strax í síðustu viku og að „opni flokkurinn“ sé að venju fjölmennastur með 32 þátttakendur. Sex efstu stelpurnar og sex efstu strákarnir unnu til verðlauna og það voru nákvæmlega þau tólf efstu; Emilía S., Ómar Jón, Rökkvi, Anh, Sigrún Tara, Helgi Tómas, Tara Líf, Alexander Kári, Elsa Margrét, Alexander Leó, Elma Karen og Karen Birta.

Eftir Jón G. Hauksson
•
11. september 2025
Það var heldur betur fjör í útgáfuhófi Grafarvogsbúans og eins helsta talmeinafræðings landsins, Ásthildar B. Snorradóttur , og Bjarna Þórs Bjarnasonar , myndlistarmanns af Akranesi, í tilefni af nýrri bók í ritröðinni um Bínu. Nýja bókin heitir Bína fer í sveit. Ásthildur er höfundur bókarinnar og Bjarni Þór myndskreytir hana. Útgáfuhófið fjörlega var á veitingastaðnum Mílanó í byrjun vikunnar. Ásthildur býr í Hamrahverfinu í Grafarvogi og var langt viðtal við hana í Grafarvogur.net fyrir nokkrum vikum þegar fyrstu eintökin af bókinni Bína fer í sveit komu úr prentun. Sjá viðtalið hér. Fjölmargir leik- og grunnskólakennarar mættu í útgáfuhófið á Mílanó og var bókinni ákaflega vel tekið. Þær voru ófáar eiginhandaráritanirnar sem Ásthildur skifaði í seldar bækur á staðnum. Þarna var líf og fjör; sungið og leikið - og það var Bjarni Þór sem greip í gítarinn og sá um undirspil. Bjarni Þór hefur myndskreytt allar bækurnar um Bínu. Þau Ásthildur og Bjarni Þór munu meira að segja hafa samið lag og texta sem sungið var í teitinu. - JGH

Eftir Jón G. Hauksson
•
10. september 2025
Ýmsir Grafarvogsbúar hafa núna vaxandi áhyggjur af sinubruna vegna stefnu borgarinnar um að láta gras vaxa „viljandi villt“ í stórauknum mæli og hafa þessar áhyggjur meðal annars komið fram í athugasemdakerfum á FB. Grafarvogur.net hefur heimildir fyrir því að Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hafi núna verið send formleg ábending um að sinubrunahætta sé raunveruleg. Fram hefur komið í samtölum Grafarvogs.net við Grafarvogsbúa að íbúar við Sóleyjatún hafi orðið vitni að sinubruna á gamlárskvöld þegar flugeldar hafa kveikt í óslægðri sinu - en hús með timburklæðningum standa í aðeins 3 metra fjarlægð frá túninu. Óslegið grasið, sem verður að sinuflákum, sé því ekki lengur tilfinningamál heldur öryggismál í hugum íbúanna.

Eftir Jón G. Hauksson
•
4. september 2025
Það vekur furðu allra að önnur beygjuakreinin af tveimur af Höfðabakkanum inn á Bæjarhálsinn hafi verið aflögð. Það sem meira er; núna er græna beygjuljósið inn á Bæjarhálsinn svo stutt að aðeins fjórir til fimm bílar komast þarna yfir í hvert skipti. Fyrir vikið er þarna núna fullkomið „skipulagt kaos“ og orðið mjög erfitt á annatímum að aka upp afleggjarann til hægri við Höfðabakkabrúna á leið í Árbæinn. Það hefði verið leikur einn að hafa beygjuakreinarnar inn á Bæjarhálsinn áfram tvær með því að búa til fjórðu akreinina, sérstaka beygjuakrein inn í Ártúnsholtið og nýta þetta rými sem við sjáum á myndinni - og sem nú hefur verið fyllt upp af mold og möl. Hvers vegna í ósköpunum var það ekki nýtt sem beygjuakrein inn í Ártúnsholtið og nóta bene; höfð þarna áfram biðskylda? Það er svo augljóslega verið að búa til tafir. Á Höfðabakkabrúnni sjálfri - þarna rétt fyrir neðan - er einmitt akreinin lengst til hægri beygjuakrein niður í bæ og hefur gefist vel. Að vísu er hún með ljós en það breytir því ekki að þessi akrein eykur mjög á flæðið í umferðinni yfir brúna. - JGH

Eftir Jón G. Hauksson
•
4. september 2025
Slætti er lokið í Grafarvoginum. Það var slegið þrisvar sinnum í sumar. Sláttuvélarnar og rokkarnir þögnuðu um miðjan ágúst. Ennþá er hins vegar ágæt spretta og finnst ýmsum að sláttuvélunum hafi verið lagt fullsnemma. Grafarvogur.net hafði samband við Hjalta Jóhannes Guðmundsson , skrifstofustjóra borgarlands, sem staðfesti að slætti væri lokið í Grafarvogi og að slegið hefði verið þrisvar í sumar á þeim svæðum sem til stóð að slá. Mjög skiptar skoðanir eru á meðal íbúa Grafarvogs á tilraunaverkefninu „Viljandi villt“ þar sem grasivaxnar hljóðmanar og brekkur hafa viljandi ekki verið slegnar heldur grasið látið vaxa villt. Mörgum finnst þetta fráleitt og ósnyrtilegt, sérstaklega þegar njólinn tekur yfir, á meðan aðrir lofa þessa stefnu.

Eftir Jón G. Hauksson
•
3. september 2025
Grafarvogur.net gerði smá tilraun um þrjúleytið í dag og kannaði hversu lengi það tæki að aka um þrjú hundruð metra kafla frá Höfðabakkabrúnni upp Höfðabakkann og taka vinstri beygju inn á Bæjarhálsinn í Árbænum. Aðeins fjórir til fimm bílar komust yfir í hvert skipti á ljósunum til vinstri inn á Bæjarhálsinn. Og tíminn! Viti menn; það tók mig um 9 mínútur að fara þessa stuttu leið. Það var allt stíflað. Samt ekki kominn háannatími. Bílar sem komu frá Ártúnsbrekkunni og beygðu til hægri við Höfðabakkabrúna á leið sinni í Árbæinn eða Breiðholtið áttu nánast engan séns að komast inn á Höfðabakkann. Þess utan þveruðu bílar í röðinni upp Höfðabakkann fyrir bíla sem komu frá Ártúnsbrekkunni og beygt var til vinstri niður í Grafarvoginn. Gatnamótin við Höfðabakann og Bæjarhálsins hafa oft verið erfið á annatímum en ekki verður annað séð en þær breytingar sem þarna hafa verið gerðar tefji umferðina frá því sem áður var og stækki á flöskuhálsinn. Það er í raun algjörlega óskiljanlegt að ekki séu áfram tvær beygjuakreinar í Árbæinn og að fjórðu akreininni við gatnamótin hafi ekki verið bætt við - þ.e. akrein sem hefði verið til hægri inn á Ártúnsholtið. Svona svipuð akrein og sú sem er yst til hægri á brúnni sjálfri - þ.e. akreininin sem liggur niður í bæ. Þarna virðist rými til þess. - JGH

Eftir Jón G. Hauksson
•
29. ágúst 2025
Framkvæmdir við lögnina sem bilaði sl. nótt voru á fullu þegar Grafarvogur.net leit á svæðið á áttunda tímanum í kvöld. Verið var að skipta um heitavatnsrör. Þetta er kvöld suðumanna og annarra hetja. Að sögn starfsmanna á staðnum voru allar líkur á að þetta hefðist fyrir miðnætti en Veitur gáfu út fréttatilkynningu skömmu fyrir kvöldmat að ólíklegt væri að hægt yrði að hleypa vatni á Grafarvoginn fyrr en nálægt miðnætti í kvöld. Í rauninni er um tvær bilanir að ræða og virðist einfaldlega að tími sé kominn á rörin og skipta þurfi um ný. Vantar viðhald. Viðgerð var lokið við aðra bilunina. Ausandi rigning - veðrið mætti vera betra fyrir svona viðgerð, sögðu suðumenn. Það verður víða farið í sturtu á morgun í Grafarvoginum. - JGH