Kirkjan

Eftir Jón G. Hauksson
•
26. apríl 2025
Yfir 130 þjóðarleiðtogar voru viðstaddir útför Frans páfa, sem fram fór á Péturstorginu í Róm í morgun. Sky-sjónvarpsstöðin sagði frá því að yfir 250 þúsund manns hefðu verið við útförina þegar sýnt var beint frá henni á stöðinni í morgun en athöfnin hófst klukkan átta að íslenskum tíma, en klukkan tíu í Róm. Um heimsviðburð var að ræða og sjónvarpað var frá útförinni um allan heim - að vísu ekki á RÚV. Smellti nokkrum myndum af skjánum þegar sjónvarpað var frá athöfninni í morgun. - JGH

Eftir Jón G. Hauksson
•
26. apríl 2025
Yfir 130 þjóðarleiðtogar voru viðstaddir útför Frans páfa, sem fram fór á Péturstorginu í Róm í morgun. Sky-sjónvarpsstöðin sagði frá því að yfir 250 þúsund manns hefðu verið við útförina þegar sýnt var beint frá henni á stöðinni í morgun en athöfnin hófst klukkan átta að íslenskum tíma, en klukkan tíu í Róm. Um heimsviðburð var að ræða og sjónvarpað var frá útförinni um allan heim - að vísu ekki á RÚV. Smellti nokkrum myndum af skjánum þegar sjónvarpað var frá athöfninni í morgun. - JGH

Eftir Jón G. Hauksson
•
18. apríl 2025
GETSEMANE-GARÐURINN. Föstudagurinn langi er síðasti föstudagurinn fyrir páska og þá minnast kristnir menn krossfestingar Jesú Krists. Passíusálmar Hallgríms Péturssonar, sem eru um píslarsöguna, pínu og dauða Jesú Krists, hafa um árabil verið lesnir upp í nokkrum kirkjum landsins á þessum degi sem er mesti sorgardagur kirkjuársins. Árið 2019 framleiddi ég heimildarmyndina Á biblíuslóðum þar sem ég dvaldi í Ísrael í fimm daga í mars það ár og ferðaðist um landið og sankaði að mér efni. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá Getsemane-garðinum og Ólífufjallinu. Myndin var síðan sýnd á sjónvarpsstöðinni Hringbraut um jólin það ár. Eftir síðustu kvöldmáltíðina fóru Jesús og lærisveinar hans yfir Kidron-dalinn í aldingarðinn Getsemane undir vesturhlíð Ólífufjallsins. Þetta er aldingarður af fornum ólífutrjám. Jesús eyddi síðustu stundum lífs síns með postulunum í Getsemane-garðinum. Þar upplifði hann angist sína og bjó sig undir það sem koma hlaut en hann vissi hvað var í vændum. Og það var í þessum garði þar sem hann var handtekinn. Trén í garðinum eru þeirrar gerðar að þau verða allt að tvö þúsund ára gömul. Við hlið aldingarðsins er afar falleg kirkja sem nefnd hefur verið ýmist Kirkja allra þjóða eða Kirkja angistarinnar með vísan þá til angistar Jesú. Heimildir herma að Júdas hafi hengt sig í þessum garði fullur iðrunnar eftir að hafa svikið Jesú. Nafnið Getsemane þýðir „ólífupressa“. - JGH

Eftir Jón G. Hauksson
•
13. apríl 2025
VIÐTAL: SVAVA JÓNSDÓTTIR Arna Ýrr Sigurðardóttir , sóknarprestur í Grafarvogskirkju, segir að prestar upplifi bæði gleði og sorg í lífi sóknarbarna sinna og að sú reynsla hafi kennt sér að vera þakklát fyrir sig, sína og lífið. „Það er þroskandi að ganga með fólki bæði í gleði og sorg og maður kemst ekkert ósnortinn eða óbreyttur frá því. Svo kem ég oft heim úr vinnunni og hugsa að ég skuli muna að þakka fyrir hvern einasta dag sem ég fæ af því að maður getur ekki treyst á það. Það veit enginn hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Þannig að starfið hefur kennt mér að vera þakklát fyrir mig, mína og mitt líf.“ STERK SAFNAÐARVITUND Í GRAFARVOGI Arna Ýrr varð prestur í Grafarvogssókn árið 2014 en hún var ekki alveg ókunnug í sókninni því þær Guðrún Karls Helgudóttir höfðu stjórnað saman skilnaðarhópum í tvo vetur áður. Hún var svo skipuð sóknarprestur sl. vor eftir að Guðrún var kjörin biskup Íslands. „Það er sterk safnaðarvitund í Grafarvogi og staða Grafarvogskirkju í hverfinu er mjög sterk. Byggður hefur verið upp öflugur söfnuður með þróttmiklu safnaðarstarfi í gegnum tíðina - og svo er það gleðilegt að áhugi ungs fólks á kristinni trú er að aukast og við finnum fyrir því í Grafarvogi eins og annars staðar,“ segir Arna Ýrr.

Eftir Jón G. Hauksson
•
24. mars 2025
Biskup Íslands, sr. Guðrún Karls Helgudóttir, prédikaði í þéttsetinni Skálholtskirkju í sunnudagsmessu í gær. „Ég tók þátt í dásamlegri messu og fékk það hlutverk að prédika og blessa söfnuðinn - og þjónaði ásamt sr. Kristínu Þórunni sóknarpresti, Bergþóru Ragnarsdóttur djákna og sr. Kristjáni Björnssyni vígslubiskupi. Þá má ekki gleyma organistanum Jóni Bjarnasyni og Kór Skálholtskirkju sem buðu upp á fagra tónlist og leiddu okkur í söng. Að messu lokinni var boðið upp á súpu og heimabakað brauð á veitingastanum Hvönn,“ segir biskup um heimsókn sína í Skálholtskirkju í gær. Dr. Gunnlaugur A. Jónsson , fyrrum prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands í áratugi, sótti messuna og segir í færslu á FB að í áheyrilegri prédikun hafi biskup ekki síst fjallað um hamingjuna. Þá hefur hann orð á því hve altaristaflan í Skálholtskirkju sé stórkostlegt listaverk og honum hugleikin. SYSTURNAR TRÚ OG LIST „Í guðsþjónustunni að þessu sinni naut ég auk helgihaldsins sjálfs þess að horfa á hina mögnuðu altaristöflu Nínu Tryggvadóttur og lifa mig inn í verkið, þar sem Kristur opinberar sig, nánast eins og hann komi í gegnum vegginn. Stórkostlegt listaverk þar sem systurnar trú og list haldast í hendur með áhrifamiklum hætti.“ Við birtum hér myndir sem Gunnlaugur tók af biskupi í prédikunarstólnum í Skálholtskirkju í messunni sem og af hinni tignarlegu Skálhotskirkju í blíðviðrinu í gærmorgun.

Eftir Jón G. Hauksson
•
13. mars 2025
Útför séra Vigfúsar Þórs Árnasonar, fyrrverandi sóknarprests í Grafarvogi, verður kl. 13 í dag frá Grafarvogskirkju. Streymt verður frá útförinni á https://streyma.is/streyma/. Vigfús lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 27. febrúar síðastliðinn. Hann varð sóknarprestur á Siglufirði árið 1976 og síðan í Grafarvogi árið 1989 og þjónaði í sókninni okkar til ársins 2016 þegar hann lét af störfum vegna aldurs. Fjölmargar minningargreinar eru um séra Vigfús í Morgunblaðinu í morgun. Blessuð sé minning Vigfúsar Þórs. Engum manni á söfnuðurinn í Grafarvogi jafnmikið að þakka og séra Vigfúsi sem byggði upp sóknina frá grunni og lét mjög til sín taka við byggingu Grafarvogskirkju ásamt mjög svo duglegu fólki í sókninni.

Eftir Jón G. Hauksson
•
7. febrúar 2025
Grafarvogssöfnuður fékk á dögunum formlega að gjöf verk sem hefur prýtt vegg í kapellu kirkjunnar í nokkur ár. Verkið ber nafnið ,,Móðirin" og er eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur myndlistarkonu. Á myndinni hér að ofan má sjá séra Örnu Ýrr Sigurðardóttur sóknarprest, Kristínu Gunnlaugsdóttur, höfund verksins, og Önnu Guðrúnu Sigurvinsdóttur, formann sóknarnefndar Grafarvogskirkju, við afhendingu gjafarinnar. Á vef kirkjunnar segir að gefendur séu þrjár konur sem ekki vilji láta nafns síns getið en tileinka gjöfina börnunum sínum. „Þetta var hátíðleg stund og góð tilfinning að þetta verk hefur nú fengið öruggan samastað til framtíðar. Guð blessi þessar mætu konur og börnin þeirra öll!“