Íþróttir


Eftir Jón G. Hauksson 24. ágúst 2025
SKÁK OG MÁT! Skákáhugi ungmenna í Grafarvogi er löngu þekktur og rómaður. Núna þegar skólabjallan glymur eftir gott sumarfrí þá fara líka drottningar, kóngar, biskupar, riddarar og peð á stjá aftur á skákæfingum Fjölnis. Fyrsta skákæfing vetrarins hjá Fjölni verður fimmtudaginn 4. september næstkomandi. Æfingarnar verða að venju alla fimmtudaga í Rimaskóla frá kl. 16:30 - 18:15. Gengið er inn um íþróttahúsið. Þetta eru líflegar æfingar með skákmóti, skákþjálfun fyrir byrjendur, skúffuköku og verðlaunahátíð í lok hverrar æfingar. Að sögn Helga Árnasonar , formanns skákdeildar Fjölnis, er tilhlökkun í lofti og hann á von á góðri þátttöku í vetur. Æfingarnar séu ókeypis en æskilegt sé að þátttakendur kunni eitthvað fyrir sér í undirstöðuatriðum skáklistarinnar; eins og mannganginn og ef til vill aðeins meira. Það er óhætt að taka undir að skákin sé skemmtileg hjá skákdeild Fjölnis. Skemmtunin byrjar um leið og ýtt verður á skákklukkurnar 4. sept og stendur svo fram í maí á næsta ári. Þetta er lofsvert framtak hjá Fjölni. - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 24. ágúst 2025
SKÁK OG MÁT! Skákáhugi ungmenna í Grafarvogi er löngu þekktur og rómaður. Núna þegar skólabjallan glymur eftir gott sumarfrí þá fara líka drottningar, kóngar, biskupar, riddarar og peð á stjá aftur á skákæfingum Fjölnis. Fyrsta skákæfing vetrarins hjá Fjölni verður fimmtudaginn 4. september næstkomandi. Æfingarnar verða að venju alla fimmtudaga í Rimaskóla frá kl. 16:30 - 18:15. Gengið er inn um íþróttahúsið. Þetta eru líflegar æfingar með skákmóti, skákþjálfun fyrir byrjendur, skúffuköku og verðlaunahátíð í lok hverrar æfingar. Að sögn Helga Árnasonar , formanns skákdeildar Fjölnis, er tilhlökkun í lofti og hann á von á góðri þátttöku í vetur. Æfingarnar séu ókeypis en æskilegt sé að þátttakendur kunni eitthvað fyrir sér í undirstöðuatriðum skáklistarinnar; eins og mannganginn og ef til vill aðeins meira. Það er óhætt að taka undir að skákin sé skemmtileg hjá skákdeild Fjölnis. Skemmtunin byrjar um leið og ýtt verður á skákklukkurnar 4. sept og stendur svo fram í maí á næsta ári. Þetta er lofsvert framtak hjá Fjölni. - JGH

Eftir Jón G. Hauksson 12. september 2025
Hann er magnaður áhugi barna og unglinga á skákinni í Grafarvogi enda starfið í skákdeild Fjölnis sérlega gott. Á æfinginni í gær var setið við öll borð en þá mættu tæplega 60 krakkar á skákæfinguna. Það sem meira var; fjöldi nýrra barna mætti á fyrstu æfingu vetrarins í síðustu viku og þau mættu svo öll aftur í gær, sæl og ánægð. Mjög svo ánægjulegt. Að sögn Helga Árnasonar , formanns skákdeildar Fjölnis, hjálpar það mjög við að stýra æfingunum að foreldrar fylgja þeim yngstu á æfingarnar. Hann segir að tveir yngstu hóparnir hafi fyllst strax í síðustu viku og að „opni flokkurinn“ sé að venju fjölmennastur með 32 þátttakendur. Sex efstu stelpurnar og sex efstu strákarnir unnu til verðlauna og það voru nákvæmlega þau tólf efstu; Emilía S., Ómar Jón, Rökkvi, Anh, Sigrún Tara, Helgi Tómas, Tara Líf, Alexander Kári, Elsa Margrét, Alexander Leó, Elma Karen og Karen Birta.
Eftir Jón G. Hauksson 10. september 2025
Fjórar stúlkur eru á meðal fimm keppenda í skáksveit Rimaskóla sem er á leiðinni til Helsinki í Finnlandi til að keppa á Norðurlandamóti barnaskólasveita í skák. Skáksveitin er Íslandsmeistari barnaskólasveita 2025 og hefur Rimaskóli unnið Norðurlandamótið í sex skipti, oftar en nokkur annar skóli á Norðulöndunum. Þetta verður spennandi mót og óskar Grafarvogur.net okkar fólki úr Grafarvoginum alls hins besta á mótinu. Skáksveit Rimaskóla skipa þau Tristan Fannar Jónsson, Emilía Embla B. Berglindardóttir, Sigrún Tara Sigurðardóttir, Emilía Sigurðardóttir og Tara Líf Ingadóttir . Fjórar stúlkur eru í skáksveitinni og er það einsdæmi. Þjálfari krakkanna er Björn Ívar Karlsson, skákkennari skólans, en fararstjóri er Helgi Árnason, formaður Skákdeildar Fjölnis. Þetta mun vera í 17. skipti sem skáksveit Rimaskóla vinnur sér þátttökurétt á Norðurlandamót barna-og grunnskólasveita. Hópurinn flýgur til Finnlands á föstudagsmorgun 12. sept. Mótið verður haldið dagana 12. - 14. september í Helsinki, höfuðborg Finnlands. Forseti Skáksambands Íslands, Jóhanna Björg Jóhannsdótti r, er hér með hinni öflugu skáksveit á meðfylgjandi mynd ásamt Helga Árnasyni fararstjóra. - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 8. ágúst 2025
FÓTBOLTI. Þetta er hörkuleikdagur hjá Fjölni í knattspyrnunni og keppt á tvennum vígstöðvum. Karlarnir mæta toppliði ÍR í Breiðholtinu og konurnar halda austur á Selfoss og etja kappi þar. Leikurinn við ÍR í Breiðholtinu byrjar kl. 19:15 en flautað verður til leiks á Selfossi kl. 19:00. Karlarnir eru í mjög harðri keppni fimm liða í neðri hlutanum í Lengjudeildinni en konurnar eru í fjórða sæti í 2. deildinni. Þetta eru leikirnir sem eftir eru hjá karlaliði Fjölnis fyrir leikinn í dag: ÍR - Fjölnir. Fjölnir - Njarðvík. Selfoss - Fjölnir. Fjölnir - HK Fjölnir - Þróttur Reykjavík Þór - Fjölnir Fjölnir - Leiknir Rvík. Áfram Fjölnir. - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 23. júlí 2025
AFREKSKONA! Við sögðum frá því á dögunum að Steinunn Sæmundsdóttir hefði sigrað í flokki 65 ára og eldri í nýliðnu meistaramóti Golfklúbbs Reykjavíkur. Ef til vill sakleysisleg frétt fyrir ýmsa en það er hins vegar fyllsta ástæða til að staldra við - hér fer þekkt og mikil afrekskona í golfi og á skíðum sem hefur keppt fyrir hönd Íslands í báðum greinum. Til að mynda keppt á skíðum á tvennum Vetrarólympíuleikum. Þá er hún drjúg í hestamennskunni líka. Á upphafsmyndinni, sem hinn kunni ljósmyndari, Einar Falur Ingólfsson tók, er hún að slá inn á flötina á 18. brautinni í Grafarholti árið 1988 þegar hún varð Íslandsmeistari í golfi eftir harða keppni við Karenu Sævarsdóttur, Golfklúbbi Suðurnesja. Steinunn varð einnig Íslandsmeistari tveimur árum áður, 1986.
Eftir Jón G. Hauksson 16. júlí 2025
MARKASÚPA Í GRAFARVOGI. Fjölniskonur fóru mikinn gegn KÞ á Fjölnisvellinum við Dalhús í gærkvöldi og unnu leikinn 6-0. Vel gert. Grafarvogur.net var á leiknum og taldi sig ágætlega inni í heimi íþróttanna en vissi samt lítið um þetta KÞ-lið. Með eftirgrennslan kom í ljós að KÞ er venslaslið Þróttar í Reykjavík. Það er með sama lögheimili og Þróttur og er undir Þróttarahattinum. KÞ stendur samt ekki fyrir Knattspyrnufélagið Þróttur og er með annars konar merki. Hvað um það - í fallegu veðri léku Fjölniskonur við hvurn sinn fingur og létu netmöskvana finna fyrir því. Vel gert í alla staði. Alvöru súpa, markasúpa. - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 14. júlí 2025
VEL GERT! Sigurður Bjarki Blumenstein, kylfingur í GR, gerði sér lítið fyrir og lék lokahringinn á Korpunni á 8 höggum undir pari og jafnaði við Harald Franklín Magnús í æsispennandi leik. Sigurður tapaði síðan fyrir Haraldi í bráðabana en það þurfti þrjár holur til að knýja fram úrslit. Þrátt fyrir tapið í bráðabananum verður að segjast eins og er að það er ótrúlega glæsileg spilamennska hjá Sigurði Bjarka að spila Korpuna (Sjóinn/Ána) á 8 höggum undir pari. Hann fékk 8 fugla, 10 pör og þar af leiðandi engan skolla. Ekki er okkur kunnugt um hvort þetta sé vallarmet en altént hlýtur það að vera nálægt því. (Takk GR fyrir myndina.) Hér kemur svo skortaflan hjá Sigurði Bjarka í meistaramótinu en fyrstu tvo dagana var leikið í Grafarholti og seinni tvo á Korpunni. - JGH
Skoða fleiri fréttir