Íþróttir

Eftir Jón G. Hauksson
•
25. júlí 2025
BORGARALEG SKYLDA! Það kannast flestir Grafarvogsbúar við hana Pálínu þegar knattspyrnudeild Fjölnis auglýsir heimaleiki sína í Grafarvogi undir formerkjunum Pálína verður á staðnum. Pálína er jú þekkt sjoppa sem Fjölnir rekur og þar er hægt að fá sér hamborgara, pylsur, sælgæti og annað góðgæti fyrir leikina og í hálfleik. Þegar okkur bar að garði í hálfleik á leik Fjölnis og KÞ í annarri deild kvenna á dögunum fórum við auðvitað að Pálínu þar sem grillað var af eldmóði. Sá sem hélt um spaðann í þetta skiptið var Jón Óskar Guðlaugsson en hann er í foreldraráði 4. flokks Fjölnis. Hann virtist fimur með spaðann og spurður um hvaða trikk hann notaði sagðist hann ekki hafa fundið það ennþá - en borgarnir væru hins vegar góðir og nytu vinsælda; það væri fyrir öllu. Sjoppan Pálína er rekin af foreldraráði fjórða flokks karla og kvenna. Ávinningurinn af sölunni fer í foreldrafélagið sem og til þeirra sem taka þátt í að standa vaktirnar. Þetta hefur gefist mjög vel sem fjáröflun fyrir íþróttaferðir fjórða flokks. Það er borgaraleg skylda að líta við hjá Pálínu á leikjum Fjölnis. - JGH

Eftir Jón G. Hauksson
•
25. júlí 2025
BORGARALEG SKYLDA! Það kannast flestir Grafarvogsbúar við hana Pálínu þegar knattspyrnudeild Fjölnis auglýsir heimaleiki sína í Grafarvogi undir formerkjunum Pálína verður á staðnum. Pálína er jú þekkt sjoppa sem Fjölnir rekur og þar er hægt að fá sér hamborgara, pylsur, sælgæti og annað góðgæti fyrir leikina og í hálfleik. Þegar okkur bar að garði í hálfleik á leik Fjölnis og KÞ í annarri deild kvenna á dögunum fórum við auðvitað að Pálínu þar sem grillað var af eldmóði. Sá sem hélt um spaðann í þetta skiptið var Jón Óskar Guðlaugsson en hann er í foreldraráði 4. flokks Fjölnis. Hann virtist fimur með spaðann og spurður um hvaða trikk hann notaði sagðist hann ekki hafa fundið það ennþá - en borgarnir væru hins vegar góðir og nytu vinsælda; það væri fyrir öllu. Sjoppan Pálína er rekin af foreldraráði fjórða flokks karla og kvenna. Ávinningurinn af sölunni fer í foreldrafélagið sem og til þeirra sem taka þátt í að standa vaktirnar. Þetta hefur gefist mjög vel sem fjáröflun fyrir íþróttaferðir fjórða flokks. Það er borgaraleg skylda að líta við hjá Pálínu á leikjum Fjölnis. - JGH

Eftir Jón G. Hauksson
•
23. júlí 2025
AFREKSKONA! Við sögðum frá því á dögunum að Steinunn Sæmundsdóttir hefði sigrað í flokki 65 ára og eldri í nýliðnu meistaramóti Golfklúbbs Reykjavíkur. Ef til vill sakleysisleg frétt fyrir ýmsa en það er hins vegar fyllsta ástæða til að staldra við - hér fer þekkt og mikil afrekskona í golfi og á skíðum sem hefur keppt fyrir hönd Íslands í báðum greinum. Til að mynda keppt á skíðum á tvennum Vetrarólympíuleikum. Þá er hún drjúg í hestamennskunni líka. Á upphafsmyndinni, sem hinn kunni ljósmyndari, Einar Falur Ingólfsson tók, er hún að slá inn á flötina á 18. brautinni í Grafarholti árið 1988 þegar hún varð Íslandsmeistari í golfi eftir harða keppni við Karenu Sævarsdóttur, Golfklúbbi Suðurnesja. Steinunn varð einnig Íslandsmeistari tveimur árum áður, 1986.

Eftir Jón G. Hauksson
•
16. júlí 2025
MARKASÚPA Í GRAFARVOGI. Fjölniskonur fóru mikinn gegn KÞ á Fjölnisvellinum við Dalhús í gærkvöldi og unnu leikinn 6-0. Vel gert. Grafarvogur.net var á leiknum og taldi sig ágætlega inni í heimi íþróttanna en vissi samt lítið um þetta KÞ-lið. Með eftirgrennslan kom í ljós að KÞ er venslaslið Þróttar í Reykjavík. Það er með sama lögheimili og Þróttur og er undir Þróttarahattinum. KÞ stendur samt ekki fyrir Knattspyrnufélagið Þróttur og er með annars konar merki. Hvað um það - í fallegu veðri léku Fjölniskonur við hvurn sinn fingur og létu netmöskvana finna fyrir því. Vel gert í alla staði. Alvöru súpa, markasúpa. - JGH

Eftir Jón G. Hauksson
•
14. júlí 2025
VEL GERT! Sigurður Bjarki Blumenstein, kylfingur í GR, gerði sér lítið fyrir og lék lokahringinn á Korpunni á 8 höggum undir pari og jafnaði við Harald Franklín Magnús í æsispennandi leik. Sigurður tapaði síðan fyrir Haraldi í bráðabana en það þurfti þrjár holur til að knýja fram úrslit. Þrátt fyrir tapið í bráðabananum verður að segjast eins og er að það er ótrúlega glæsileg spilamennska hjá Sigurði Bjarka að spila Korpuna (Sjóinn/Ána) á 8 höggum undir pari. Hann fékk 8 fugla, 10 pör og þar af leiðandi engan skolla. Ekki er okkur kunnugt um hvort þetta sé vallarmet en altént hlýtur það að vera nálægt því. (Takk GR fyrir myndina.) Hér kemur svo skortaflan hjá Sigurði Bjarka í meistaramótinu en fyrstu tvo dagana var leikið í Grafarholti og seinni tvo á Korpunni. - JGH

Eftir Jón G. Hauksson
•
8. júlí 2025
VERUM STOLT AF ÞEIM! Auðvitað hefur gengi íslenska liðsins á EM í knattspyrnu í Sviss verið undir þeim miklum væntingum sem þjóðin hefur gert til liðsins en stúlkurnar mega ekki láta hugfallast heldur bera höfuðið hátt þrátt fyrir tvo töp. Þær eiga leik gegn Noregi nk. fimmtudag og þá skiptir öllu að þær mæti með sjálfstraust og leikgleðina að vopni. Í þessari stöðu eigum við Íslendingar ekki heldur að detta ofan í þá gryfju að ræða um að liðið sé ómögulegt og tala það niður. Það er heiður fyrir okkur Íslendinga að eiga lið í knattspyrnu á hæsta getustigi á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu. Þannig eigum við að líta á málið. Það er eðlilegt að hafa væntingar um gott gengi. Þær væntingar eru raunhæfar í ljósi þess að í liðinu eru leikmenn sem spila með nokkrum af bestu liðum í Þýskalandi og Ítalíu. En það er samt sem áður engin katastrófa að tapa gegn Finnum 0-1 og gegn Sviss á heimavelli þeirra 0-2. Þetta eru ekki fjögurra, fimm eða sex marka töp þar sem valtað er yfir liðið. Núna er bara að spila um heiðurinn gegn Noregi á fimmtudaginn. Í íþróttum veit aldrei á gott að vera of sigurviss fyrir leiki; það er kannski það eina sem ég vil og get sett út á liðið. Mér finnst þær hafa verið of sigurvissar í viðtölum fyrir leikina. Leikir eru aldrei unnir fyrirfram. Það er gömul lexía og ný! Áfram Ísland á fimmtudaginn! Það er heiður fyrir Ísland að eiga lið á þessu móti sem etur keppi við þær bestu! - JGH

Eftir Jón G. Hauksson
•
2. júlí 2025
FÁNADAGUR. Í dag gerum við daginn að fánadegi enda fyllsta ástæða til að draga íslenska fánann að húni því íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu hefur leik gegn Finnum kl. 16 í dag á EM í Sviss. Leikurinn fer fram á Stockhorn Arena í bænum Thun í Sviss sem er suður af borginni Bern þar sem þingið situr - en engin skildgreind höfuðborg er í Sviss. Búist er við um 1.500 íslenskum stuðningsmönnum á leikinn. ÁFRAM ÍSLAND. - JGH

Eftir Jón G. Hauksson
•
27. júní 2025
ÁFRAM FJÖLNIR! Það verður hörkuspennandi leikur í Grafarvoginum í kvöld kl. 18:00. Þá spila Fjölnismenn við Þórsara frá Akureyri. Það hefur verið á brattann að sækja hjá okkar mönnum í Lengjudeildinni í sumar en þeir unnu hins vegar frábæran sigur á Þrótturum í síðasta leik, 4-1, og nú er bara að fylgja þeim sigri eftir. Þetta verður svo sannarlega baráttuleikur. Þór er í fjórða sæti deildarinnar en Fjölnir í því ellefta. Tveir sigurleikir í röð væri auðvitað frábært - og blési mönnum í brjóst mikið sjálfstraust. - JGH