Fjölnismenn í harðri baráttu við KR-inga í skákinni
Fjölnismenn eiga í harðri baráttu við KR-inga í Úrvalsdeildinni á Íslandsmóti skákfélaga eftir fyrri umferð mótsins sem fram fór í Rimaskóla um síðustu helgi, dagana 13. til 16. nóvember. A-sveit Fjölnis er í öðru sæti og tveimur vinningum á eftir KR og því ljóst að úrslitin munu ekki ráðast fyrr en í blálokin en seinni umferðin fer fram dagana 5. til 8 mars á næsta ári. Fjölnir hefur unnið þetta mót undanfarin tvö ár; 2024 og 2025.
Á bilinu 300 - 400 skákmenn og skákkonur kepptu fyrir taflfélögin sín í 5 deildum. Skákdeild Fjölnis hefur hýst mótið af miklum metnaði undantekningalítið frá árinu 2007 í Rimaskóla eða Egilshöll.
Skákdeild Fjölnis átti 4 skáksveitir af þeim 54 sem skráðar voru til leiks og 38 Fjölnismenn tefldu 1 - 5 skákir fyrir félagið.

Ofursterk A-sveit Fjölnis skipuð frískum íslenskum og erlendum skákmönnum.
Í 1. deild teflir B-sveit Fjölnis og er sveitin nýliði þar. B-sveitin mun berjast fyrir því að halda sæti sínu í deildinni.
C og D-sveitir Fjölnis tefla í 4. deild. Þær eru skipaðar okkar ungu og efnilegu skákkrökkum, drengir í annarri sveitinni og stúlkur í hinni. Þessar skáksveitir eru báðar nokkuð óvænt í efri hluta 4. deildar. Alls tefla 24 skáksveitir í 4. deild.
Hin rómaða veitingasala í Rimaskóla er til fjáröflunar fyrir efnilega skákkrakka Fjölnis. Þar er safnað fyrir utanlandsferð og þátttöku í áhugaverðu skákmóti erlendis.
Skákdeild Fjölnis hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn sl. tvö ár og gefur lítið eftir í vetur. Áfram Fjölnir. -JGH

Fjölnisstelpur á fljúgandi siglingu í 4. deild.

Uppaldir Fjölnis-skákmenn og allir innan við tvítugt.

B-sveitin er að tefla í 1. deild í fyrsta sinn. Stefnan er á að halda sér í deildinni.

