Magnaður áhugi á skákinni og fjöldi nýrra barna á skákæfingum hjá Fjölni
Hann er magnaður áhugi barna og unglinga á skákinni í Grafarvogi enda starfið í skákdeild Fjölnis sérlega gott. Á æfinginni í gær var setið við öll borð en þá mættu tæplega 60 krakkar á skákæfinguna. Það sem meira var; fjöldi nýrra barna mætti á fyrstu æfingu vetrarins í síðustu viku og þau mættu svo öll aftur í gær, sæl og ánægð. Mjög svo ánægjulegt.
Að sögn Helga Árnasonar, formanns skákdeildar Fjölnis, hjálpar það mjög við að stýra æfingunum að foreldrar fylgja þeim yngstu á æfingarnar.
Hann segir að tveir yngstu hóparnir hafi fyllst strax í síðustu viku og að „opni flokkurinn“ sé að venju fjölmennastur með 32 þátttakendur.
Sex efstu stelpurnar og sex efstu strákarnir unnu til verðlauna og það voru nákvæmlega þau tólf efstu; Emilía S., Ómar Jón, Rökkvi, Anh, Sigrún Tara, Helgi Tómas, Tara Líf, Alexander Kári, Elsa Margrét, Alexander Leó, Elma Karen og Karen Birta.

Strákaflokkur á bókasafninu á æfingu gærdagsins.
Á bókasafni var keppnin afar jöfn og allir að vinna alla. Bekkjarbræðurnir úr 3ja bekk Rimaskóla, þeir Sævar Svan, Mikael Már og Tómas Breki urðu efstir.
Í byrjendahópi voru það Rimaskólastelpurnar Alexandra, Ásta Sóllilja og Anna Kristín sem náðu bestum árangri.
Eins og sjá má af nöfnum verðlaunahafa þá er Jafnréttisstefna Reykjavíkurborga allsráðandi á æfingum Skákdeildar Fjölnis. Skák er skemmtileg bæði fyrir stráka og stelpur.
Skákæfingarnar eru á fimmtudögum og næsta æfing verður því næsta fimmtudag 18. sept. - JGH

Ungar og stórefnilegar skákkonur.

Teflt við hvert einasta borð.
