Snillingarnir í Rimaskóla - hvíllík frammistaða á jólaskákmóti grunnskóla Reykjavíkur

16. desember 2025

Krakkarnir í Rimaskóla stóðu sig heldur betur vel á jólaskákmóti grunnskólanna sem var á vegum íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur sl. sunnudag, 14. desember. Skáksveitir skólans lentu allar í efstu sætum og unnu til verðlauna - enda breiddin mikil og enga veika hlekki að finna.


Rimaskóli vann örugglega báða flokkana á barnaskólastigi og voru líka með sterkustu B-sveitirnar. Á unglingastigi varð skólinn í öðru sæti á eftir Réttarholtsskóla en þessir tveir skólar voru með áberandi bestu sveitirnar.


Hver skáksveit er skipuð 4 nemendum auk varamanna. Teflt er í þremur aldursflokkum og sendi Rimaskóli tvær skáksveitir í hvern flokk. Það er auðvitað frábær árangur að taka báða flokkana á barnaskólastigi og heyja harða baráttu við Réttarholtsskóla um efsta sætið í unglingaflokki.


Skákkennari Rimaskóla er Björn Ívar Karlsson, skólastjóri Skákskóla Íslands, en umsjónarmaður með skákstarfi skólans er Helgi Árnason, fyrrverandi skólastjóri skólans og formaður Skákdeildar Fjölnis.


Til hamingju Rimaskóli og þið sem teflið fyrir hönd skólans - og eruð okkur í Grafarvogi til svo mikils sóma. Áfram þið. Takk, takk.  - JGH 

SA-sveit gegn B-sveit í unglingaflokki. Einungis stelpur komast í skáksveitir Rimaskóla á unglingastigi. A-sveit gegn B-sveit. Úrslit 2-2. F.v. Emilía Embla B. Berglindardóttir, Sigrún Tara Sigurðardóttir, Emilía Sigurðardóttir, Tara Líf Ingadóttir, Unnur Ólafsdóttir, Elma Karen Ingimarsdóttir, Silja Rún Jónsdóttir og Elsa Margrét Aðalgeirsdóttir.

A-sveit Rimaskóla í flokki 4.- 7. bekkjar: F.v. Helgi Tómas Jónsson liðsstjóri, Ómar Jón Kjartansson 7. bekk, Anh Hai Tran 7. bekk, Tristan Fannar Jónsson, 7 bekk, (með bikarinn), Alexander Kári Haukdal Bergsson 5. bekk og Þóra Kristín Jónsdóttir 5. bekk.

B-sveit Rimaskóla í flokki 4. til 7. bekkjar. Besta B-sveitin. F.v. Margrét Einarsdóttir, Jakob Jóhann Sigríðarson, Óskar Daníel Aldan Óskarsson, Benedikt Hafsteinsson og Anna Kristín Hauksdóttir 

A-sveit Rimaskóla í flokki 1. til 3 bekkjar ásamt ungum liðsstjóra. F.v. Patrekur Einarsson, Helgi Tómas Jónsson liðsstjóri, Mikael Már Atlason, Kristófer Jökull Sigurðsson og Sævar Svan Valdimarsson.

Forysta frá 1. umferð hjá A-sveit Rimaskóla í flokki 1. - 3. bekkjar. F.v. Sævar Svan Valdimarsson, Mikael Már Atlason, Patrekur Einarsson og Kristófer Jökull Sigurðsson.

B-sveit Rimaskóla í flokki 1. til 3. bekkjar. F.v. Khang Minh Tran, Tómas Breki Jónsson, Adam Elí Óskarsson, Elsa María Bachadóttir og Ásta Sóllilja Marteinsdóttir.