Seðlabankinn haggast ekki með stýrivextina - launaskrið hjá hinu opinbera
26. ágúst 2025
HLUTHAFASPJALLIÐ. Í nýjasta hlaðvarpsþætti okkar Sigurðar Más Jónssonar, Hluthafaspjalli ritstjóranna, ræðum við launaskrið hjá hinu opinbera sem aftur togar upp launin á almennum vinnumarkaði.
Það er erfitt að takast á við verðbólguna þegar laun hækka ár frá ári á vinnumarkaðnum því laun eru það stór hluti af kökunni.
Kakan, þjóðartekjur, skiptast í neyslu og fjárfestingu. Þú borðar annað hvort kökuna eða geymir hana. Hlutfallið er líklegast um 70% neysla á móti 30% fjárfestingu um þessar mundir. Þegar laun eru þetta 50, 60 og 70% af kökunni og hækka án þess að innstæða sé fyrir hækkuninni þá bólgnar kakan óhjákvæmilega.
Þegar húsnæðisverð hækkar vegna þess að framboð af nýjum lóðum og íbúðum er of lítið - þar sem of mikið er lagt upp úr þéttingarstefnu - þá þurfa launþegar sem ætla að kaupa sér íbúð hærri laun til að takast á við kaupverðið - og lánin.
Við Sigurður ræðum launaskrið hins opinbera en sleggja Kristrúnar þarf sjálfsagt að takast á við það vandamál til að ná árangri sem og slá niður óþarfa óarðbær verkefni hjá hinu opinbera.
Til þess þarf þunga sleggju. En er sú sleggja of þung fyrir Kristrúnu? - JGH
Í nýjasta þættinum ræðum við launaskriðið hjá hinu opinbera.