Sagan á bak við Tekjublaðið - þegar reynt var að stöðva útgáfu Tekjublaðsins?

25. ágúst 2025
Í meðfylgjandi klippu úr nýjasta hlaðvarpsþætti okkar félaganna, Hluthafaspjalli ritstjóranna, fer ég lauslega yfir sögu Tekjublaðsins og staldra sérstaklega við það þegar reynt var að koma í veg fyrir að Frjáls verslun birti kerfisbundið tekjur einstaklinga unnar upp úr álagningarskrám. Ég var ritstjóri blaðsins í 25 ár og upphaflega var „tekjublaðið“ blaðauki í einni af haustútgáfu Frjálsrar verslunar.

Forsíðan árið 2001.

Það hefur oft gengið á ýmsu við útgáfu Tekjublaðs Frjálsrar verslunar og aðilar úti í bæ reynt að koma í veg fyrir að blaðið birti svo kerfisbundið upplýsingar upp úr álagningarskránum.


Gaukur Jörundsson, þáverandi umboðsmaður Alþingis, lagðist meira að segja yfir málið á sínum tíma eftir umkvartanir nokkurra þekktra manna í viðskiptalífinu og komst að þeirri niðurstöðu að lögin um að leggja fram álagningarskrárnar almenningi til sýnis þýddu að ekki væri hægt að banna fjölmiðlum að flytja fréttir úr skránum. (Ég vissi aldrei hverjir þeir væru en Viðskiptaráð var í forsvari fyrir þá.)


Fjármálaráðuneytið gaf meira að segja út reglugerð um að það væri bannað að reikna upp úr álagningarskrám. Bannað að reikna varð ein helsta frétt þess dags. Þá reyndu Heimdellingar eitt árið að stöðva útgáfu blaðsins með því að hindra aðgengi starfsmanna Frjálsrar verslunar að skránum - en óvænt var ég búinn að semja við Skattinn að við fengjum að vera í aukaherbergi við skráninguna.


Viðskiptablaðið hafði til margra ára horn í síðu Frjálsrar verslunar fyrri að gefa út upplýsingar um tekjur fólks. En svo keypti útgáfa Viðskiptablaðsins Frjálsa verslun og þá heyrðist annað hljóð í horni. Þess má geta að Sigurður Már Jónsson var um tíma ritstjóri Viðskiptablaðsins.


En er rétt að gefa út þessar upplýsingar?


Það er nú það. Það eru a.m.k. tvær hliðar á öllum málum. Við félagarnir förum hér yfir sögu Tekjublaðsins í þessari klippu Hluthafaspjallsins. - JGH