Hluthafaspjallið: Kaup símafyrirtækjanna á markaðstorgum
HLUTHAFASPJALLIÐ. Það er athyglisvert að símafyrirtækin hafa fest kaup á litlum fyrirtækjum sem hafa hannað bókunarkerfi fyrir ýmis þjónustufyrirtæki.
Segja má að þessi fyrirtæki sé svonefnd markaðstorg.
Við Sigurður Már Jónsson, ræðum þessi mál í nýjasta hlaðvarpsþætti okkar, Hluthafaspjalli ritstjóranna, en í nýjasta uppgjöri Nova kemur t.d. fram að Nova hafi greitt 350 milljónir fyrir 20% hlut í fyrirtækinu Dineout sl. vor og jafnframt veitt því 250 milljóna lán sem hægt er að breyta í hlutafé.
Markaðsvirði Dineout í þessum viðskiptum var því um 1,7 milljarðar króna. Dineout er fyrirtæki þar sem fólk getur pantað sér borð á öllum helstu veitingastöðum landsins.
Í fyrra keypi Síminn bókunarþjónustuna Noona en hún var valin smáforrit ársins 2023 og mældist jafnframt vinsælasta vefþjónusta landsins, skv. könnun Maskínu.
Allt gengur þetta jú út á að bóka þjónustu við hin ýmsu fyrirtæki í gegnum síma í stað þess að hringja - og auðvitað fá bókunarfyrirtækin þjónustugjöld.
Hér má sjá stutta klippu af umræðunni. - JGH

Panta borð á veitingastöðum með símtækinu. Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, og Inga Tinna Sigurðardóttir, stofnandi og forstjóri Dineout, eru hér fyrir miðju. Myndin var tekin við undirritun samnings um fjárfestingu Nova í vor.