Slætti lokið í Grafarvogi. Borgin: Fáir íbúar mótmæltu tilrauninni „Viljandi villt“

4. september 2025

Slætti er lokið í Grafarvoginum. Það var slegið þrisvar sinnum í sumar. Sláttuvélarnar og rokkarnir þögnuðu um miðjan ágúst. Ennþá er hins vegar ágæt spretta og finnst ýmsum að sláttuvélunum hafi verið lagt fullsnemma.


Grafarvogur.net hafði samband við Hjalta Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóra borgarlands, sem staðfesti að slætti væri lokið í Grafarvogi og að slegið hefði verið þrisvar í sumar á þeim svæðum sem til stóð að slá.


Mjög skiptar skoðanir eru á meðal íbúa Grafarvogs á tilraunaverkefninu „Viljandi villt“ þar sem grasivaxnar hljóðmanar og brekkur hafa viljandi ekki verið slegnar heldur grasið látið vaxa villt. Mörgum finnst þetta fráleitt og ósnyrtilegt, sérstaklega þegar njólinn tekur yfir, á meðan aðrir lofa þessa stefnu.

„Viljandi villt.“  Hljóðmönin  við Strandveg gegnt Gylfaflötinni. Þetta er einhver fjölfarnasta gatan í Grafarvogi og þessi hljóðmön er hluti af tilraunaverkefninu „Viljandi villt“ sem mjög skiptar skoðanir eru á meðal Grafarvogsbúa.

Um það hvort komið væri mat á árangurinn af tilraunaverkefninu „Viljandi villt“ sagði Hjalti að ekki hefði borist mikið af ábendingum vegna þessa verkefnis af hálfu íbúa í Grafarvogi nema þá vegna svæðis norðan við Rimaskóla - og að þær kvartanir hefðu borist frá um 5 eða 6 aðilum.


Þess má geta að íbúar við Sóleyjarima mótmæltu kröftuglega þegar þeir risu upp í sumar og slógu umrætt svæði sjálfir sem Hjalti ræðir um en Grafarvogur.net fjallaði um málið og komst sú frétt í stóru miðlana og varð Hjalti þá fyrir svörum hjá Vísi.


Raunar finnst Grafarvogsbúum áberandi að þau svæði, sem borgin áformar að þétta byggð á, hafa lítið sem ekkert verið hirt í sumar og þar hafi stefnunni „Vaxandi villt“ verið beitt á mjög svo kerfisbundinn hátt.

Mótmælt í verki.  Sennilega er ekki hægt að mótmæla á kröftugri hátt en íbúar í Sóleyarima gerði í sumar og Grafaravogur.net fjallaði um. Að öðru leyti lítur borgin svo á að íbúar í Grafarvogi hafi ekki komið með ábendingar vegna verkefnisins „Villjandi villt“.

Fyrr í sumar spurði Grafarvogur.net Hjalta að því hvernig það mætti vera að hringtorgin við Víkurveg, skammt frá Egilshöll, væru ennþá ófrágengin og ósnyrt en um tvö ár eru síðan framkvæmdum við þau lauk - og hvort ekki mætti aðeins snyrta óræktina þarna þar til farið yrði að laga þau endanlega.


Hjalti svaraði því þá til að hönnun hefði dregist á langin en hann ætlaði að ýta á eftir því að torgin yrðu snyrt á næstu vikum. Núna er komið fram í september og enn er ekkert að frétta með þessi hringtorg.


Áttu von á því að eitthvað verði snyrt við hringtorgið við Víkuveg-Borgaveg?


Það er verið að ljúka hönnun. Það munu hefjast framkvæmdir vonandi sem fyrst sem miða að því að fegra torgið,“ segir í skriflegu svari Hjalta við fyrirspurn Grafarvogs.net.  - JGH

Gullinbrú. Leiðin yfir Gullinbrú og upp að Höfðabakkanum hefur verið slegin í sumar og er hin snyrtilegasta. Þar hefur verkefninu „Viljandi villt“ ekki verið beitt.

Við Hallsveg. Hér hefur verið slegið í kringum trén en að öðru leyti er svæðið óhirt og stefnan „Viljandi villt“ látin ráða ríkjum.

Við Lokinhamra. Þetta ryðgaða strætróskýli við Lokinhamra er ekki beint bæjarprýði og umhverfis það er stefnan „Viljandi villt“ látin ráða ríkjum.

Njólinn kominn í poka.  Hluti af afrakstrinum þegar íbúar við Sóleyjarima mótmæltu harðlega stefnunni „Viljandi villt“ í sumar og slógu sjálfir þekkt tún fyrir norðan Rimaskóla. Mótmæli sem svo sannarlega var tekið eftir.

Strætóskýlið við Lokinhamra. Gegnt því er snyrtilega slegið á einkalóðum en borgin sló ræmuna meðfram gangstéttinni þrisvar sinnum í sumar. Garðlist sá um verkið.

Sprettan. Allt er vænt sem vel er grænt, segir einhvers staðar. Grasbalar meðfram akreinum eru víða orðnir ansi loðnir því sprettan hefur verið veruleg í því góða tíðarfari sem hefur verið undanfarnar vikur.

Þrenna við Lokinhamra. Snyrtilega slegin einkalóð. Grasbali við akreinina sem borgin sló síðast um miðjan ágúst. Yst er svo villtur gróðurinn samkvæmt stefnunni „Viljandi villt“ en í áratugi hefur borgi slegið hljóðmönina og hefur hún verið fagurgræn á að líta.