Segir borgina ekki refsa Grafarvogsbúum - átti að slá Sóleyjarima síðsumars

2. júlí 2025

ENGIN REFSING!  Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri borgarlandsins, segir í samtali við Vísi út af frétt Grafarvogs.net í gærkvöldi að borgin hafi ekki verið að refsa Grafarvogsbúum með því að slá ekki túnið við Sóleyjarima. Til hafi staðið að slá túnið síðsumars. Sjá frétt Vísis hér.


Hjalti segir við Vísi að þetta sé liður í að draga úr slætti í borginni en undanfarin ár hafi borgin skoðað svæði til að draga úr slætti og að túnið við Sóleyjarima hafi orðið fyrir valinu ásamt öðrum svæðum.


„Þetta hefur alltaf verið í slætti hjá okkur undanfarin ár. En þetta tengist verkefni sem heiti Grassláttur í Reykjavík, þar sem við skoðum svæði þar sem draga má úr slætti og önnur sem jafnvel mega bara fá að vaxa villt,“ segir Hjalti við Vísi.


ÁTTI AÐ SLÁ SÍÐSUMARS


„Það stóð til að slá Sóleyjarima bara einu sinni í sumar, og það átti að vera svona síðsumar,“ segir Hjalti.


Hann segir að komi ábendingar um að fólk vilji láta slá þessi tún, þá geti borgin tekið mark á þeim. Það stangast raunar á við frásögn íbúa við Sóleyjarima sem segja að borgin hafi neitað að slá þrátt fyrir beiðni og óskir þar um.


Þá segir Hjalti að engin tengsl séu milli fyrirhugaðrar íbúðauppbyggingar á svæðinu og ákvörðunar um að draga úr slætti á túninu.


„Nei, nei. Sjónarmiðið á bak við þetta verkefni er að reyna að auka aftur líffræðilegan fjölbreytileika og fá svona fjölbreyttara útlit á svæðið. Hjálpa þessum náttúrulega gróðri í borgarlandinu að vaxa og dafna.“ 


Athyglisvert! Liður í að hjálpa náttúrulegum gróðri að vaxa og dafna en samt stóð til að slá síðsumars.  - JGH

Ólafur Haraldsson var öflugur á vélinni í gærkvöldi. Borgin segir túnið tengjast verkefni um að leyfa náttúrulegum gróðri að vaxa en engu að síður átti að slá túnið síðsumars.