Flöskuhálsinn á gatnamótunum í Hálsana í Árbænum - 9 mínútur að fara 300 metra kafla
Grafarvogur.net gerði smá tilraun um þrjúleytið í dag og kannaði hversu lengi það tæki að aka um þrjú hundruð metra kafla frá Höfðabakkabrúnni upp Höfðabakkann og taka vinstri beygju inn á Bæjarhálsinn í Árbænum. Aðeins fjórir til fimm bílar komust yfir í hvert skipti á ljósunum til vinstri inn á Bæjarhálsinn.
Og tíminn! Viti menn; það tók mig um 9 mínútur að fara þessa stuttu leið. Það var allt stíflað. Samt ekki kominn háannatími.
Bílar sem komu frá Ártúnsbrekkunni og beygðu til hægri við Höfðabakkabrúna á leið sinni í Árbæinn eða Breiðholtið áttu nánast engan séns að komast inn á Höfðabakkann.
Þess utan þveruðu bílar í röðinni upp Höfðabakkann fyrir bíla sem komu frá Ártúnsbrekkunni og beygt var til vinstri niður í Grafarvoginn.
Gatnamótin við Höfðabakann og Bæjarhálsins hafa oft verið erfið á annatímum en ekki verður annað séð en þær breytingar sem þarna hafa verið gerðar tefji umferðina frá því sem áður var og stækki á flöskuhálsinn.
Það er í raun algjörlega óskiljanlegt að ekki séu áfram tvær beygjuakreinar í Árbæinn og að fjórðu akreininni við gatnamótin hafi ekki verið bætt við - þ.e. akrein sem hefði verið til hægri inn á Ártúnsholtið. Svona svipuð akrein og sú sem er yst til hægri á brúnni sjálfri - þ.e. akreininin sem liggur niður í bæ. Þarna virðist rými til þess. - JGH

Klukkan 15:06. Þessi sendibíll frá Veitum komst hvorki lönd né strönd á grænu ljósi og þveraði fyrir bíla sem komu upp Ártúnsbrekkuna og beygðu til vinstri á brúnni niður í Grafarvoginn. Bílstjóri sendibílsins brá því á það ráð að færa sig í skyndi yfir á vinstri akreinina þegar komið var gult ljós og hann hafði ekkert hreyfst allan biðtímann. Það gerði ég líka - og var snöggur að því.

Klukkan 15:08. Hér hefur bílstjóri sendibílsins ákveðið að troða bílnum inn í röðina á hægri akreinina.

Algjör ringulreið á þessum þrjú hundruð metra kafla á Höfðabakkanum frá brúnni að gatnamótum Höfðabakka og Bæjarhálsins. Klukkan rúmlega þrjú að degi til en mesta umferðin er þarna þó um fjögurleytið. Segja má að þessi leið sé vart farandi frá kl. 15 til 17:30 á daginn.

Enn standa þarna yfir framkvæmdir og akreinarnar aðeins tvær. Þarna er algjör tappi og fyrirsjáanlegt að breytingarnar þarna munu auka á umferðartafir frá því sem var fyrir framkvæmdirnar.

Hér er búið að setja upp steypta umferðareyju sem leynir svolítið á sér og kanturinn gæti reynst bílstjórum erfiður í snjókomu og vondri færð á veturna.