Borgin neitaði að slá - íbúar í Rimahverfi risu þá upp og tóku til sinna ráða

Nágrannasamstaða í verki.
Sigrún Ásta Einarsdóttir, sem hefur verið áberandi í baráttunni gegn þéttingu byggðar, sagði á samfélagsmiðlunum: „Þegar borgin neitar að slá túnið þurfa íbúar að taka sig saman og sjá um verkið. 💪🏻 Við erum að slá og tína rusl á útivistarsvæðinu í hjarta Rimahverfis.“
Íbúarnir leigðu sér litla traktors-sláttuvél og Ólafur Haraldsson, íbúi við Sóleyjarima, sá um að slá á vélinni. „Ég vann hjá borginni í gamla daga við að slá á sumrin þannig að þetta er svolítil nostalgía hjá mér,“ sagði hann við Grafarvog.net.
„Okkur leiddist að hafa þetta í svona órækt, það hefur ekki verið það áður. Borgin hefur sett þetta tún í einhvern ruslflokk og lætur þetta vaxa villt - sem þýðir bara að hún nennir ekki að slá. Núna geta börnin leikið sér hér að vild á þessu fína útivistarsvæði í hjarta Rimahverfisins.“
Sigurður Einarsson gekk um með sláttuorf á svæðinu og lét til sín taka. „Það vita það allir hvers vegna borgin slær ekki þetta útivistarsvæði. Hún vill hafa þetta svæði í órækt og leyfa illgresinu að vaxa. Þá getur hún sagt að hér þurfi að byggja því þetta er óhirt.“
Hann bætti við að fróðlegt væri að vita hvaða svæði eigi eiginlega að vera villt og hver ekki í Grafarvogi. „Það hefur verið slegið mjög fallega víða - þó seint hafi verið, en svo eru þekkt útivistarsvæði, eins og þetta, sem eru í algerri órækt. Maður spyr sig hvort það sé tilviljun því við íbúarnir hérna höfum verið mjög duglegir við að mótmæla þéttingu byggðarinnar.“
Fallegt sumarkvöld í Grafarvogi og fín nágrannasamstaða í verki. - JGH

Sigurður Einarsson öflugur með sláttuorfið.

Njólinn kominn í pokana. Margir eru farnir að trúa því að Reykjavíkurborg sé helsti vinur þessarar fjölæru jurtar.

Íbúarnir leigðu sér litla traktorssláttuvél og slógu og hirtu þetta vinsæla útivistarsvæði.

Líf og fjör á þessu þekkta útivistarsvæði - sem borgin áformar að leggja undir fjölda íbúða.

Ólafur Haraldsson öflugur á vélinni og rifjaði upp gamla takta.