Hvers vegna var þetta rými ekki nýtt fyrir beygjuakrein inn í Ártúnsholtið?
Það vekur furðu allra að önnur beygjuakreinin af tveimur af Höfðabakkanum inn á Bæjarhálsinn hafi verið aflögð. Það sem meira er; núna er græna beygjuljósið inn á Bæjarhálsinn svo stutt að aðeins fjórir til fimm bílar komast þarna yfir í hvert skipti.
Fyrir vikið er þarna núna fullkomið „skipulagt kaos“ og orðið mjög erfitt á annatímum að aka upp afleggjarann til hægri við Höfðabakkabrúna á leið í Árbæinn.
Það hefði verið leikur einn að hafa beygjuakreinarnar inn á Bæjarhálsinn áfram tvær með því að búa til fjórðu akreinina, sérstaka beygjuakrein inn í Ártúnsholtið og nýta þetta rými sem við sjáum á myndinni - og sem nú hefur verið fyllt upp af mold og möl.
Hvers vegna í ósköpunum var það ekki nýtt sem beygjuakrein inn í Ártúnsholtið og nóta bene; höfð þarna áfram biðskylda? Það er svo augljóslega verið að búa til tafir.
Á Höfðabakkabrúnni sjálfri - þarna rétt fyrir neðan - er einmitt akreinin lengst til hægri beygjuakrein niður í bæ og hefur gefist vel. Að vísu er hún með ljós en það breytir því ekki að þessi akrein eykur mjög á flæðið í umferðinni yfir brúna. - JGH

Akreinin þarna lengst til hægri - beygjuakrein niður í bæ - hefur gefist mjög vel. Hvers vegna var ekki sami háttur hafður á við gatnamótin rétt fyrir ofan, þ.e. við Höfðabakkann og Bæjarhálsinn? Sérstök beygjuakrein inn í Ártúnsholtið.

Þessi beygjuakrein á Bíldshöfðanum inn á Höfðabakkann hefur svo sannarlega sannað gildi sitt. Þarna er biðskylda þótt umferðarþunginn sé miklu meira en á leiðinni inn í Ártúnsholtið frá Bæjarhálsinum.

Þarna stendur gamla biðskylduskiltið á leiðinni í Ártúnsholtið.

Göngustígurinn þarna meðfram er talsvert frá því rými sem hægt hefði verið að nýta fyrir sérstaka beygjuakrein inn í Ártúnsholtið.

Og hann beið og beið, segir ein af karakterum hans Ladda. Beðið og beðið við þessi gatnamót í rigningunni í dag. Röðin til hægri er á leiðinni inn á Bæjarhálsinn í Árbænum. Núna komast aðeins fjórir til fimm bílar í einu þar sem græna ljósið er svo stutt. Áður voru tvær beygjuakreinar og fjöldi bíla sem komst yfir í hvert sinn.