Gyllta ströndin í Gufunesi er falin perla

28. júlí 2025

FALIN PERLA!   Gyllta sandströndin í Gufunesi er svo sannarlega falin perla þar sem allt iðar yfirleitt af lífi seinni partinn á daginn - svo ekki sé talað um á góðviðrisdögum.

 

Sæþotur; Brynja Dögg með gufubaðið sitt Kríu sem slegið hefur í gegn; fjöldi dorgveiðimanna á gömlu Gufunesbryggjunni, (sem vel að merkja bannað er að fara út á); dyttað að skútum á þurru landi; fleiri gufur og síðast en ekki síst sjóað fólk í sjóbaði.


Við höfum flutt fréttir að undanförnu af hinu iðandi mannlífi þarna. Sjá hér og hér.


Það mætti svo sannarlega laga vegaslóðann meðfram kvikmyndaverinu Reykjavík Studios, gömlu áburðarverksmiðjunni, niður að hinni földu perlu; hann er aðeins of holóttur - það er aðeins of mörg göt á þessum osti, eins og sagði í auglýsingunni. En enginn lætur það svo sem á sig fá.


Þær eru margar perlurnar í Grafarvoginum - en þessi er svolítið falin á bak við gömlu Marshall-aðstoðina; gömlu ábyrðarverksmiðjuna.  - JGH 

Skútur á þurru landi í Gufunesi í kvöldsólinni.

Brynja Dögg Friðriksdóttir við Kríuna sína - hið vinsæla gufubað sem hefur slegið í gegn.

Reykjavík Jet Skies bjóða upp á sæþotuferðir fjórum sinnum á dag um sundin blá.

Gamla bryggjan í Gufunesi má muna sinn fífil fegurri.

Dorgveiði á gömlu Gufunesbryggjunni er vinsælt sport og þar getur verið stutt á milli stanga á kvöldin.

Systkinin Sara Rós og Garðar Halldórsbörn í dorgveiðinni með stórkostlegt sjávarútsýni á bak við sig. Sara Rós að koma með bróður sínum í fyrsta sinn á kæjann.

Útsýnið maður minn í logninu og kvöldkyrrðinni í Gufunesi.

Gyllta sandströndin í Gufunesi. Sjóbað og sæþotur.