Þotuliðið sem er við hlið þotuliðsins í kvikmyndaverinu í Gufunesi

24. júlí 2025

ÞOTULIÐ!  Það er tvenns konar þotulið í Gufunesi; þau hjá Reykjavík Jet Skis og stjörnunar í kvikmyndaverinu. Nokkur munur er jú á þessum liðum. Þegar okkur bar að garði stóð parið Gauti Guðmundsson og Agla Jóna Sigurðardóttir vaktina hjá Reykjavík Jet Skis í Gufunesi.


„Við bjóðum upp á sæþotuferðir undir leiðsögn út á Faxaflóa,“ segir Gauti. Foreldrar hans eru eigendur að Reykjavík Jet Skis, hjónin Guðmundur Guðjónsson og Íris Long.


„Við siglum út í Viðey, Lundey og að höfninni í miðbænum og leikum okkur í leiðinni. Þetta er vinsælt sport. Það eru mest Íslendingar sem nýta sér þetta en erlendir ferðamenn eru hérna í auknum mæli.“


Það var sumarið 2023 sem foreldrar hans byrjuðu með ferðirnar. „Við erum eingöngu að á sumrin, frá maí og út september.“


FJÓRIR BROTTFARATÍMAR Á DAG 

Hann segir að fjórar brottfarir sé á dag, kl. níu á morgnanna, eitt, fimm og átta á kvöldin. „Kvöldin eru mjög vinsæl, sérstaklega hjá Íslendingum. Það er oft logn hérna á kvöldin, sjórinn spegilsléttur og stórkostlegt sólsetur.“


Loks segir Gauti að minni fyrirtæki nýti sér þetta í kringum starfsmannaferðir og nokkuð sé um gæsun og steggjun. „Dagurinn byrjar þá oft hjá okkur því ekki er leyfilegt að hafa áfengi um hönd á þotunum. Við erum með sex þotur og getum því tekið allt að tólf manns í hverri ferð ef það eru tveir á hverri þotu.“  - JGH 

Agla Jóna Sigurðardóttir: Allir fá þurrgalla, flísgalla, björgunarvesti, skó og hanska.

Aðstaða Reykjavík Jet Skis er með miklum ágætum við gylltu ströndinni við Gufunesið.

Reykjavík Jet Skis. Hið eina sanna þotulið í Gufunesi.