Hluthafaspjallið - bréfin í Íslandsbanka núna langt yfir genginu í útboðinu

28. júlí 2025

TAP RÍKISINS? Hversu marga milljarða tapaði ríkissjóður á sölu „gullgæsarinnar“? Við Sigurður Már Jónsson veltum sölunni á Íslandsbanka fyrir okkur í nýjasta HLUTHAFASPJALLI ritstjóranna á efnisveitunni Brotkast.is. Gengi bréfa í Íslandsbanka eru núna langt yfir því sem ríkisstjórnin seldi hlutinn á.


Ríkisstjórnin hefur hælt sér af því að hafa selt hlut ríkisins í Íslandsbanka á rúma 90 milljarða króna í vor eða á genginu 107 kr. En er ástæða fyrir ríkisstjórnina að fagna þessu verði fyrir hlutinn?


Í útboðinu voru bréfin seld verulega undir markaðsgenginu, sem var þá á bilinu 112 til 114, og hvað þá núna þegar gengi bréfa í bakanum er í 126 eða 18% yfir útboðsgenginu.


HINN SELDI HLUTUR HÆKKAÐ 16 MILLJARÐA

Virði hlutarins sem ríkið seldi á 90 milljarða hefur því hækkað um 16 milljarða á skömmum tíma og er núna um 106 milljarðar. Það getur svo sem lækkað á næstu mánuðum.


Til upprifjunar þá varð allt vitlaust þegar Bankasýslan sáluga seldi bréf í bankanum á genginu 117 og umboðsmaður Alþingis og ríkisendurskoðandi gerðu athugasemdir við aðferðafræðina á þeirri sölu - og ríkisendurskoðandi fjallaði líka um gengið í útboðinu.


Inga Sæland, formaður Flokks flokksins, kallaði Íslandsbanka lengi vel „gullgæsina“ og vildi ekki selja hlutinn.


Þess má geta að ríkissjóður hefur bókfært 10 milljarða tap vegna sölunnar. Um 40% (36 milljarðar) þeirra sem keyptu í útboði ríkisins eru búnir að selja hlut sinn og innleysa a.m.k. 3,6 milljarða hagnað á viðskiptunum. - JGH

Nokkur sátt var um að selja hlut ríkisins í Íslansbanka - en verðlagði ríkisstjórnin hlutinn allt of lágt?

Við Sigurður Már ræðum hina miklu hækkun á bréfum í Íslandsbanka eftir að ríkið seldi hlut sinn.