Dóra Björt kaupir parhús í Grafarvogi - og með bílskúr og stóru bílaplani

10. október 2025

Hugsanlega er Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi og oddviti Pírata, að mildast varðandi hinn bíllausa lífsstíl sem hún hefur barist svo fyrir. Smartland Morgunblaðsins  sagði frá því í vikunni að hún hefði keypt glæsilegt parhús í Grafarvogi og því fylgdi góður bílskúr og fyrir utan húsið væri stórt bílaplan.


Er ekki bara fyllsta ástæða til að bjóða Dóru Björt velkomna í Grafarvoginn og vonandi öðlast hún meiri skilning á mikilvægi bílsins fyrir fjölskyldufólk í önn dagsins? Ólafur Egilsson leikari hefur nefnt bílinn „úlpu Íslendingsins“


Hér má sjá svar mitt  í Vísi hinn 3. júní í sumar við grein Dóru Bjartar á sama vettvangi þar sem hún fjallaði um mikilvægi þéttingu byggðar í Grafarvogi. 


Núverandi meirihluti í borgarstjórn hefur lagt mikla áherslu á bíllausan lífsstíl og er með áform um að Keldnalandið verði fyrir aðra en bíleigendur. 


Í hugmyndum meirihlutans er gert ráð fyrir 12 þúsund íbúum, 5.880 heimilum og 2.230 bílastæðum. En nóta bene; bílastæðin verða ekki fyrir utan heimilin heldur þurfa þeir íbúar sem eiga bíl að samnýta 8 bílastæðahús í Keldnalandinu og ganga þaðan til síns heima. (Sjá hér frétt Grafarvogur.net)    


Ennfremur er gert ráð fyrir að takmarka umferð bíla um götur Keldnalandshverfisins sem mest. Þá er gert ráð fyrir að 6 þús. manns vinni í hverfinu en fáir vita hins vegar hvar þeir eiga að leggja bílum sínum.


Keldnalandið gengur allt út á borgarlínuna - og sala á lóðum þar eiga að fjármagna hana að hluta. 


Hinn þekkti arkitekt, Hilmar Þór Björnsson, skrifaði nýlega á Facebook þar sem hann orðaði það svo að skipulagið í Keldnalandi væri einhvers konar „case study“ (námsverkefni í skóla) þar sem leitað væri að fullkomnun en án alls raunveruleika.   - JGH 

Hér má sjá svar mitt við grein Dóru í Vísi fyrr í sumar, eða 3. júní sl.