Hluthafaspjallið í teikningu Aðalsteins Jörgensen

9. október 2025

HLUTHAFASPJALL ritstjóranna. Hún er skemmtileg teikningin sem Aðalsteinn Jörgensen bridgesnillingur gaf félaga mínum í Hluthafaspjalli ritstjóranna, Sigurður Má Jónssyni, í afmælisgjöf. Að sjálfsögðu notuðum við þessa mynd þegar við sögðum frá nýjasta þætti okkar  á samfélagsmiðlunum. Í seinni hluta þáttarins kom góður gestur í heimsókn, Helgi Vífil Júlíusson, hlutabréfagreinandi hjá IFS/Reitun.

 

Á meðal þess sem við Siguður Már ræddum um var þetta:

1. Verður hausthækkunin í Kauphöllinni að þessu sinni?


2. Amaroq fær byr í seglinn og félagið er að verða lykill að námagreftri á Grænlandi.


3. Verð á gulli er komið yfir 4 þús. dollara únsan.


4. Óbreyttir stýriextir; 7,5% í 4,2% verðbólgu.


5. Neikvæður hagvöxtur sl. 4 ársfjórðunga af síðustu 7 ársfjórðungum.


6. Ætti frekar að tala um kulnun atvinnulífsins fremur en kólnun því bjartsýni stjórnenda innan atvinnulífsins hefur hrunið frá því ríkisstjórnin tók við?


7. Gengi hlutabréfa Íslandsbanka og Skaga hefur ekkert breyst þótt viðræður um samruna standi yfir.


8. Seðlabanki og Fjármálaráðuneyti hafa ekki gengið í sömu átt að undanförnu en nú er gefið í skyn að leiðir liggi frekar saman. Er það vegna óbreyttra stýrivaxta og aukinnar skattheimtu ríkisstjórnarinnar - og það á meðan nánast enginn hagvöxtur hefur verið frá síðasta ársfjórðungi 2023? Það ríkir stagflation (stöðnun en á sama tíma verðbólga).


9. Oculus er að snarhækka með auknum líkum á milljarða dollara tekjum. Jafnframt aukast líkur á að stórir sjóðir og fjárfestar sýni fyrirtækinu áhuga - meðal annars með yfirtöku.


10. Bandaríski markaðurinn í hæstu hæðum og það vekur athygli að verð á gulli og hlutabréfum eru á sama tíma að toppa. Sífellt fleiri farnir að tala um froðu og að verðfall geti orðið á næstunni. Eru gervigreindin og nýleg vaxtalækkun ofmetin?


11. Það var skrítið að reglugerð Eyjólfs Ármannssonar innviðarráðherra eftir fall Play væri afturvirk.


12. Umræður um tap lífeyrissjóða vegna Play eru að því leyti sérstakar að gengi bréfa í félaginu var löngu fallið og sjóðirnar búnir að afskrifa hluti sína í félaginu.


Svo var auðvitað gaman að félagi minn og vinur, Sigurður Már, fengi þessa stórskemmtilegu teikningu í afmælisgjöf þar sem hlaðvarpið okkar kemur ánægjulega við sögu.  - JGH