Þekktur arkitekt: Er skipulagið í Keldnalandi leit að fullkomnun en án veruleika?
Hinn þekkti arkitekt, Hilmar Þór Björnsson, skrifar athyglisverða grein á FB í gær um Keldnalandið og þá niðurstöðu sem fékkst úr samkeppni á skipulagi landsins (sjá hér) og birt var haustið 2023. Yfirskrift greinarinnar er hvort Keldnalandið sé „case study“ (þ.e. verkefni í kennslu) og hvort skipulagið sé leit að fullkomnun en án þess veruleika sem við Íslendingar búum við.
Miklar umræður urðu í gær eftir að sagt var frá því að í skipulagi Keldnalands væri þjarmað að einkabílnum til að vegur Borgarlínunnar yrði meiri. Gert væri ráð fyrir um 12 þúsund íbúum, 5.880 heimilum - en aðeins 2.230 bílastæðum. Stæðin verða þess utan ekki fyrir utan heimilin heldur í 8 samnýttum bílastæðahúsum. Stæði fyrir fatlaða verða leyfð fyrir utan íbúðir.
Hér kemur færsla Hilmars Þórs:
„Nú eru rétt tvö ár síðan niðurstaða fékkst úr samkeppni um skipulag á Keldnalandi. Fólk var almennt ánægt með niðurstöðuna og sérstaklega ásýnd skipulagsins.
Húsin voru, eins og í eldri hverfum Reykjavíkur, á vissan hátt ósamstæð, þau voru af mismunandi gerðum og hæðum. Það voru mismunandi þök á húsunum og efnisáferð með mismunandi hætti. Nokkurn vegin eins og við þekkjum í gömlu Reykjavík innan Hringbrautar.
Um var að ræða randbyggð en með öðrum hætti en á Valssvæðinu sem er með lokuðum innigörðum og skuggalegum götum.
Þarna var lagt upp með „mjúka borg“ (Soft City) í anda Jan Gehl, Gordon Cullen og David Sim. Þvert á hörðu borgina sem við þekkjum af þéttingarsvæðum á Hlíðarenda, Heklureit eða Vesturvin, svo dæmi sé tekið. Húsin voru grunn og með stuttum húsalengdum og ýmsum smáatriðum sem er forsenda fyrir góðu göngu umhverfi.
Þetta var góður grunnur til þess að vinna áfram og tengja núverandi veruleika.
„CASE STUDY“
Nú eru liðin tvö ár og ástandið i húsnæðismálum annað og verra en það var þegar úrslit samkeppninnar lá fyrir og skipulagið er enn í vinnslu og jafnvel fjarlægst veruleikanUm og tímalínan lengst verulega.
Ljóst er að skipulagið lítur til langrar og óvissrar framtíðar þegar horft er til samgangna. Þarna er gert ráð fyrir að eigöngu 32% noti einkabíl sem lagt er i bílastæðahúsum. Þetta samsvarar því að eitt bílastæðahús sé fyrir allt Hagahverfið. Þarna verða um sex þúsund atvinnutækifæri og 5.800 íbúðir sem aðeins 2.230 bifreiðastæði eiga að þjóna.
Og það verður allt að sjö mínútna gangur að bílastæðum hverfisins að heimilum fólks sem ibúar þurfa að ganga með innkaupapokana og barn á handleggnum. Svo maður nefni ekki hreyfihamlaða, aldraða eða pizzusendla.
Maður spyr sig hvort nú sé rétti tímin til þess að raungera þessa framtíðarsýn. Er þessi tillaga ekki of snemmt komin fram? Hentar hún þvi þjóðfélagi sem við kjósum okkur flest árið 2025? Hættum við að heimsækja aldrað ættingja? Hættum við að spila golf eða fara á skíði? Verða sunnudagsbíltúrar aflagðir og göngutúrar i Heiðmörk? Og hvað með sumarbústaðaferðir þar sem oft þarf mikinn farangur.
Og forsenda skipulagsins er að Borgarlínan verði komin i fullan rekstur áður en fólk flytur inn. Líklega er áratugur þar til Borgarlínan, verði komin i rekstur. Getum við beðið eftir því? Minnt er á að sala Keldnalandsins átti að fjármagna Borgarlínuna að mestu.
Þegar ég horfi á Keldnaskipulagið nú eftir tveggja ára vinnslu finnst mér það bera einkenni „Case Study“ eða skóla/kennsluefnis. Þarna er leitað að hinu fullkomna skipulagi en litið framhjá þeim veruleika sem blasir við þar sem strax þarf íbúðir sem fólk hefur efni á að kaupa.“ - JGH

VERULEIKAFIRRING. Keldnalandið. 12 þúsund íbúar. 5.880 heimili. 2.230 samnýtt bílastæði í 8 bílastæðahúsum. Engin stæði fyrir utan heimili. Umferð bíla lokuð á ýmsum götum í hverfinu. Bíleigendur þurfa að finna út hvort það séu laus stæði í bílastæðahúsunum. Verulegur gangur frá bílastæðahúsunum að heimilum - sem og að þremur stoppustöðvum borgarlínunnar sem allt skipulag hverfins virðist ganga út á.