Engin leyfð bílastæði við íbúðir í Keldnalandi - íbúar eiga að nota átta samnýtt bílastæðahús
Mjög athyglisverð frétt er í Morgunblaðinu í dag um skipulag Keldnalands og hvernig þjarmað er að einkabílnum til að vegur Borgarlínunnar verði meiri. Gert er ráð fyrir um 12 þúsund íbúum í 5.880 íbúðum í Keldnalandi - en aðeins 2.230 bílastæðum. Þau verða að vísu ekki fyrir utan heimilin heldur í 8 samnýttum bílastæðahúsum. Stæði fyrir fatlaða verða leyfð fyrir utan íbúðir.
Þeir sem eiga bíla þurfa að síðan að finna út úr því í hvaða bílastæðahúsum eru laus stæði því húsin eru samnýtt af öllum í hverfinu. Samkvæmt skipulaginu mun um 62% heimila í hverfinu ekki geta átt bíl. Þá er gert ráð fyrir að um sex þúsund manns starfi innan Keldnalands.
Grafarvogur.net hefur margoft bent á varðandi mjög svo umdeilda þéttingu byggðar í Grafarvogi - sem íbúar hafa mótmælt kröftuglega - að gert er ráð fyrir um 20 þúsund manna byggð í Keldnalandi, á Ártúnsholti og við stækkun Bryggjuhverfisins. Þess utan eru mikil íbúðabyggð fyrirhuguð í landi Blikastaða sem er í Mosfellssveit.
Útilokað er annað en að umferð vegna þessara nýju hverfa stórauki umferð um Grafarvoginn.
En lítum hér betur á hina athyglisverðu frétt í Morgunblaðinu í morgun sem Andrés Magnússon blaðamaður skrifar.

„Minni vafi er um hvernig teppa skal bílaumferð. Hafa á „aðgengi að einkabílnum í meiri fjarlægð“ frá heimilum en tíðkast annars staðar og notast við „úrræði sem hægja á umferðinni.“
Frétt Morgunblaðsins í morgun: „Samkvæmt drögum að samgönguskipulagi fyrir nýtt blandað hverfi í Keldnalandi í Reykjavíkurborg er aðeins gert ráð fyrir 2.230 samnýttum stæðum í 12.000 manna hverfi. Þannig er gert er ráð fyrir að í hverfinu verði 5,4 íbúar á hvern fólksbíl, en á landsvísu eru 1,6 íbúar á hvern bíl.
SKAPA „SJÁLFBÆRT SAMGÖNGUKERFI“
Markmið skipulagsins eru sögð þau að skapa „sjálfbært samgöngukerfi“. Það á að gera með því að ýta undir notkun borgarlínu, reiðhjóla og tveggja jafnfljótra, stuðla að „einföldu hversdagslífi“, en letja fólk til bílferða. Borgarlínan á að ganga í gegnum mitt hverfið, en sú lota á ekki að koma fyrr en 2036 meðan hverfið ætti að öðru leyti að geta verið tilbúið um eða upp úr 2030.
Minni vafi er um hvernig teppa skal bílaumferð. Hafa á „aðgengi að einkabílnum í meiri fjarlægð“ frá heimilum en tíðkast annars staðar og notast við „úrræði sem hægja á umferðinni“. Eða koma í veg fyrir hana, því að í drögunum segir að unnt sé „að tryggja árangursríka nýtingu á gatnasvæðinu með umferðarreglum sem banna akstur vélknúinna ökutækja“.
VERKTÖKUM SKYLT AÐ KAUPA BÍLASTÆÐI Í SÉRSTÖKUM BÍLASTÆÐAHÚSUM
Ekki verða leyfð bílastæði við íbúðarhús nema fyrir fatlað fólk. Verktökum verður hins vegar skylt að kaupa bílastæði í sérstökum „samgönguhúsum“ (bílastæðahúsum) hverfisins og selja bílastæðaréttinn sérstaklega til þeirra íbúa, sem það kjósa. Það er vel að merkja réttur til þess að leggja, ekki aðgangur að tilteknu stæði.
Stæði í samgönguhúsunum átta skulu öll samnýtt, svo að íbúar ganga ekki að stæðum vísum, en geta hins vegar þurft að ganga nokkurn spöl eftir því hvar laust stæði er að finna.
Bílaeign er að jafnaði meiri í úthverfunum, enda líklegra að íbúar þar þurfi að sækja vinnu eða þjónustu um lengri veg. Þar gætir vetrarveðra einnig í meiri mæli en í grónari hverfum.
ÞJARMAÐ AÐ EINKABÍLNUM
Markmiðið með samgönguhúsunum er hins vegar skýrt í drögunum: „Stærsti hvatinn fyrir því að hafa bílastæði miðlæg í umræddum samgönguhúsum er að gera aðrar samgönguleiðir enn eftirsóknarverðari í samanburði og til að ýta undir samnýtingu á þjónustu. Þessi lausn leiðir til þess að íbúar þurfa að ganga lengri vegalengd í bílastæðahúsin en ef bílarnir væru á einkabílastæðum.
Þetta hefur áhrif á það í huga fólks hversu þægilegur og eftirsóknarverður einkabíllinn er samanborið við aðra ferðamáta,“ segir að lokum í fréttinni. - JGH

Gert er ráð fyrir 5.880 íbúðum í Keldnalandi - en aðeins 2.230 bílastæðum sem verða ekki fyrir utan heimilin heldur í 8 samnýttum bílastæðahúsum. Þrjár borgarlínustöðvar verða í hverfinu en hún á að vera komin 2036 á meðan hverfið sjálft verður væntanlega uppbyggt í kringum 2030.
