Laga bryggjuna - verðlaunatillaga af „fríríki frumkvöðla“ í Gufunesi frá 2016 rifjuð upp

14. janúar 2026

Við sögðum frá því á dögunum að sjálfstæðismenn hefðu lagt það til í umhverfisráði að laga þyrfti gömlu bryggjuna í Gufunesi, sem þjónaði á sínum tíma Áburðarverksmiðjunni í áratugi, enda væri hún illa farin og hættuleg á köflum.


Bryggjan þjónar hins vegar hundruð dorgveiðimanna sem leggja leið sín út á hana til að stunda bryggjuveiði - ekki síst í kvöldsólinni á fallegum sumarkvöldum - og það þrátt fyrir að hún sé afgirt og bannað sé að fara út á hana. Auðvelt að smokra sér framhjá stálgrindverkinu.


Í ljósi þessa er athyglisvert fyrir Grafarvogsbúa að skoða verðlaunatillöguna frá 2016 þar sem arkitektar fóru á flug með glæsilega hafnaraðstöðu og litlar ferjur sem gengju úr Gufunesi yfir í gömlu höfnina í miðbænum.

Svona leit verðlaunatillagan út árið 2016 og gekk út á „fríríki frumkvöðla“. Síðan hefur margt breyst og meiri áhersla verið lögð á íbúðabyggð en þessi tillaga sýnist gera ráða fyrir.

„FRÍKRÍKI FRUMKVÖÐLA“

Við birtum hér brot úr frétt á visir.is   þegar sagt var frá tillögunni: Verðlaunatillaga í hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Gufunessvæðisins gerir ráð fyrir að svæðið verði einskonar „fríríki frumkvöðla.

Arkitektastofan jvantspijker + Felixx hreppti fyrstu verðlaun og í tillögu stofunnar segir að Gufunes eigi að verða eins konar ventill fyrir ungt fólk sem kýs grósku og borgarbrag í stað úthverfa. Í Gufunesi verður blönduð byggð fyrir íbúðir, smærri atvinnurekstur, skapandi iðnað, menningu, menntun, sýningar- og atburði, ferðamannaiðnað og sjálfbærar samgöngur að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar.“

Gamla Gufunesbryggjan var í eigu Faxaflóhafna en Reykjavíkurborg keypti hana um mitt ár 2015.

Gufunesbryggjan er gróðursæl og ljóst að flikka þarf verulega upp á hana áður en sýn arkitektana á hana frá 2016 getur orðið að veruleika. Sjá má glitta í efsta hlutann á grárri geymslu fyrir aftan skúturnar en það var hún sem varð eldsvoðanum að bráð fyrr í vikunni.

Þess má geta að fyrirtæki Baltasar Kormáks, RVK-studios, keypti um mitt ár 2016 fjórar fasteignir sem áður tilheyrðu Áburðarverksmiðjunni í Gufunes í þeim tilgangi að reisa kvikmyndaver á Gufunesi.

Í samningi borgarinnar við Baltasar fékk hann vilyrði fyrir 19.200 fermetra svæði austan við byggingarnar - en þar hefur fyrirtæki sem hann kemur að, Spilda ehf., staðið að byggingu 700 íbúða við Jöfursbás 5 og 7 fyrir tugi milljarða að markaðsvirði og setja þær svip sinn á núverandi íbúðabyggð í Gufunesi - en þess má geta að íbúðirnar við Jöfursbás 5 eru enn í smíðum. - JGH