900 metra langt þrætuepli. Tenging Hallsvegar við Vesturlandsveg eykur umferð í Grafarvoginn um 15 þús. bíla á dag

15. janúar 2026

Hún var athyglisverð greinin sem Friðjón Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, skrifaði í skoðanadálk Vísi í gær og ekki ólíklegt að þeir 900 metrar sem hann ræðir um verði að deilumáli - jafnvel meðal íbúa Grafarvogs; þótt flestir íbúar Grafarvogs hafi lýst verulegum áhyggjum af því að umferð um Hallsveg muni margfaldast við þessa framkvæmd en gert er ráð fyrir að um 12 til 15 þúsund bílar á dag munu bætast við umferðina inn í Grafarvoginn úr Grafarholti og Úlfarsárdal við framkvæmdina.


Greinin ber yfirskriftina: 900 metrar sem geta breytt Grafarvogi og segir Friðjón frá því að sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafi lagt fram tillögu í borgarstjórn á dögunum um að sleppt verði að tengja Hallsveg við Vesturlandsveg eins og aðalskipulag Reykjavíkur til 2040 gerir ráð fyrir. Hann segir að ætla megi að tengingin stórauki umferð bíla inn í Grafarvog um Hallsveginn að Sundabrautinni (eða göngunum) - og að það muni kljúfa hverfið í sundur.


Núverandi meirihluti vinsri flokkanna í borgarstjórn vísaði tillögunni frá.


Þetta er fróðleg og málefnaleg grein sem vert er að lesa og um framkvæmd sem snertir okkur Grafarvogsbúa og mun hafa veruleg áhrif á hverfið okkar. Við birtum hér tengil á greinina í Vísi jafnframt sem við birtum hana í heild sinni.

Þessi 150 metra malarspotti heitir jú víst líka Hallsvegur. Gert er ráð fyrir að gera meira úr honum og tengja hann við Vesturlandsveginn - sem mun hafa verulega áhrif á núverandi umferð í Grafarvogi.

HÉR KEMUR GREIN FRIÐJÓNS UM AÐ KLJÚFA EKKI GRAFARVOGINN MEÐ TENGINGUNNI

„Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040 er gert ráð fyrir að Hallsvegur verði framlengdur frá Grafarvogi að Vesturlandsvegi og skilgreindur sem tveggja akreina gata milli Vesturlandsvegar og Sundabrautar. Í aðalskipulaginu er þetta orðað skýrt: „Hallsvegur verður tveggja akreina gata frá Vesturlandsvegi að Sundabraut.“


Þessi setning skiptir máli vegna þess að hún sýnir að hér er stefnumótandi ákvörðun sem getur orðið að veruleika með stuttum fyrirvara, ef næstu skref í skipulagi verða tekin.


Allir þeir sem kunnugir eru staðháttum vita að Hallsvegur, sem liggur milli Folda og Húsahverfa annars vegar og Rimahverfis og Gufuneskirkjugarðs hinsvegar, liggur ekki upp á Vesturlandsveg. Þrátt fyrir að gert hafi verið ráð fyrir þeirri tengingu í aðalskipulagi Reykjavíkur í áraraðir. Enn á eftir að deiliskipuleggja þennan 900 metra bút sem vantar upp á, tenginguna sem myndi hleypa mikilli umferð beint inn í hverfið.


Tillaga Sjálfstæðisflokksins: Grafarvogur verði ekki klofinn í tvennt

Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn lagði til á síðasta borgarstjórnarfundi að þessi tenging yrði felld út úr aðalskipulagi og þannig yrði íbúum Grafarvogs gert ljóst að hverfið verði ekki klofið í tvennt. Engu breytir hvort Sundabraut verði í göngum eða á brú, Hallsvegur má ekki verða fljót umferðar sem klýfur Grafarvog.“

Á malarspottanum horft til vesturs eftir Hallsvegi. Flestir utanaðkomandi vita eflaust betur hvar Hallsvegurinn er þegar þeir heyra að hann er gatan við innkeyrsluna í Grafarvogskirkjugarð.

SUNDABRAUT OG NÝ TENGING: UMFERÐIN GÆTI MARGFALDAST

„Í umræðum um fyrirhugaða Sundabraut hafa íbúar Grafarvogs lýst verulegum áhyggjum af því að umferð um Hallsveg muni margfaldast. Í forathugun að samgöngugreiningu sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg fyrir hið nýja Hallahverfi í Úlfarsárdal er gert ráð fyrir því að allt að 12 þúsund bílar á dag muni í framtíðinni nýta vegspottan, þessa 900 metra sem eiga að liggja frá Vesturlandsvegi að gatnamótum Víkurvegar og Hallsvegar. Svo eiga þessir bílar að hríslast um Grafarvoginn og helmingur þeirra mun hverfa þar til að kemur að hinum enda Hallsvegar, við Strandveg. Þá fjölgar þeim aftur, verða 15 þúsund og tengjast Sundabraut. Það má sjá á myndinni hér að neðan.“

Á þessari mynd er gert ráð fyrir stóraukinni umferð, 12 til 15 þúsund bílum, inn í Grafarvoginn að Sundabrautinni eða Sundagöngum, hvort heldur sem verður.

HALLLSVEGUR Á EKKI AÐ VERA STOFNVEGUR

„Það er ekki nauðsynlegt að tengja Grafarvog við Vesturlandsveg með þessum hætti. Núverandi umferðartölur sýna að Hallsvegur er þegar töluvert nýttur innan hverfisins. Áætlanir og gögn benda til þess að þúsundir bíla aka um veginn daglega. Í umræðum um tillögu okkar borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins kom fram að um 6.000 bílar aka daglega á kaflanum milli Langarima og Strandvegar, og um 4.000 bílar á sólarhring fara Hallsveg að Víkurvegi.


Talningar sem finna má á Borgarvefsjá undirstrika að Hallsvegur þjónar nú þegar mikilvægu hlutverki fyrir Grafarvog, en er ekki hannaður sem stofnæð fyrir gegnumstreymi umferðar utan úr hverfinu.


Áhrifin snúa ekki aðeins að umferðarþunga heldur einnig að öryggi og lífsgæðum. Hallsvegur liggur í nánum tengslum við skóla- og íþróttasvæði og er í raun hluti af daglegum ferðavenjum barna og fjölskyldna. Íbúar hafa bent á að börn fari yfir Hallsveg til að komast í skóla og að Grafarvogslaug og íþróttasvæði Fjölnis liggi sunnan hans, með umferð barna yfir götuna vegna sund- og íþróttastarfs. Þetta er kjarni málsins: aukin bílaumferð mun grafa undan umferðaröryggi barna og ungmenna, skerða hverfisgæði og auka hljóðmengun.

ÓSAMRÆMI VIÐ MARKMIÐ AÐALSKIPULAGS 2040

Þetta er jafnframt spurning um samræmi við markmið aðalskipulags Reykjavíkur 2040. Aðalskipulagið leggur áherslu á mannvænleg borgarrými, lýðheilsu og vistvænar samgöngur. Þar er stefnt að því að draga úr bílaumferð, styðja við göngu, hjólreiðar og almenningssamgöngur, og verja gróin hverfi gegn óþarfa gegnumstreymisumferð. Í því ljósi er erfitt að réttlæta að halda inni tengingu sem líkleg er til að auka gegnumstreymi umferðar um íbúahverfi.


TILLÖGUNNI VÍSAÐ FRÁ, ÓVISSAN LIFIR

Þess vegna lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram tillögu í borgarstjórn um að fella framlengingu Hallsvegar að Vesturlandsvegi út úr aðalskipulaginu. Tillögunni var vísað frá af meirihluta vinstri flokkanna, sem voru vonbrigði. Meirihlutanum fannst ótímabært að sýna Grafarvogsbúum að Grafarvogurinn verður ekki klofinn. Með þeirri ákvörðun er verið að halda inni áformum sem geta haft veruleg áhrif á Grafarvog. Afstaða meirihlutans, Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalista, Flokks fólksins og Vinstri grænna eykur óvissu og viðheldur skipulagsstefnu sem gengur gegn hagsmunum íbúa Grafarvogs.“

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Aðeins tvær akgreinar. Hér þarf eitthvað að gera ef Hallsvegur á að verða stofnbraut í Grafarvogi en núverandi vegur er ekki hannaður sem stofnæð fyrir gegnumstreymi umferðar utan úr hverfinu.