Lagt til að laga hina stórhættulegu Gufunesbryggju - kominn tími til

8. janúar 2026

Eitt af því sem vakti athygli - þegar Grafarvogur.net fjallaði sl. sumar um útivistarperluna og hið blómlega útilíf við gylltu ströndina fyrir neðan gömlu Áburðarverksmiðjuna og dorgveiði á gömlu bryggjuni - var hvað bryggjan er orðin hættuleg. Sjá fréttina hér um Gylltu ströndina í Gufunesi.


Raunar er það svo að það er bannað að fara út á bryggjuna og „öflugt“ hlið blasir við sem meinar fólki aðgang - en auðvelt er að smokra sér framhjá því með einbeittum vilja.


Þess vegna er ánægjulegt að sjálfstæðismenn hafi lagt fram tillögu á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, 3. des. sl., um úrbætur til að auka öryggi þeirra fjölmörgu sem fara út á bryggjuna til að veiða.


Tillagan hljóðar svona: „Lagt er til að ráðist verði í lagfæringar á Gufunesbryggju í því skyni að auka öryggi þeirra, sem um hana fara. Bryggjan er hættuleg á köflum, m.a. þarf að laga timburgólf hennar og fylla í holur og göt, sem skapa augljósa hættu. Jafnframt þarf að koma fyrir bjarghringi yst á bryggjunni.“


Á fundi ráðsins, 10. desember, var tillögunni vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar.


Vel til fundið og löngu kominn tími til að bæta úr öryggi fólks á bryggjunni. - JGH

Bryggjuveiði á gömlu bryggjunnni í Gufunesi - við gömlu Áburðarverksmiðjuna.

Þétt er setið á sumrin og dorgað.

Víða þarf að holufylla.

Gróður hefur breitt úr sér á trébryggjunni og fyrir vikið sjást hætturnar síður.