Mogginn með þrettándann í Gufunesi á forsíðu - sjá ljóð eftir lækni um álfabrennu
Hún er stórglæsileg myndin af þrettándabrennunni í Gufunesi á forsíðu Morgunblaðsins í morgun en hinn kunni ljósmyndari Árni Sæberg tók myndina. Fjölmenni var við brennuna en býsna kalt var úti og vindurinn herti á kælingunni. Þetta var eina brennan í gær á þrettándanum í Reykjavík en í fyrra voru þær tvær; í Gufunesi í Grafarvogi og við Ægissíðuna.
Mikil umferð var á svæðinu þegar Grafarvogur.net fór þarna um í gær og verulegar umferðatafir á Gullinbrú og Strandvegi.
Fjöldi fólks lagði bílum sínum við Hallsveginn og gekk að brennunni sem var á Hamraflötum, vestanmegin við gamla Gufunesbæinn.

Gífurleg umferð var á svæðinu og náði umferðarhnúturinn upp að gatnamótunum við Olís við Gullinbrú - enda straumurinn í Grafarvoginn að þessu sinni þar sem þetta var eina brennan á höfuðborgarsvæðinu.
Þótt engir álfar hafa verið á þrettándabrennunni í gær langar mig til gamans að birta tvö fyrstu erindi ljóðsins Álfabrenna úr ljóðabók tengdaföður mín heitins, Brynleifs H. Steingrímssonar, en bókin kom út árið 1993 og nefnist Í ljósi dags.
Brynleifur var læknir og þess má geta að annar læknir, Guðmundur Bjarnason, myndskreytti bókina með skemmtilegum teikningum. Ánægjuleg samvinna tveggja lækna.
ÁLFABRENNA
Stari ég og stari blint,
stari í þig, bál.
Geta augu ei öðru sinnt,
þú ert mín eigin sál.
Lifir eins og löngun mín,
líka glatt og frítt,
frá þér ljós og leikur skín
um leiksvið bjart og hlýtt.
Stari ég og stari inn
í sterkan loga þinn.
Þú deyfir mig og dregur fast
sem dauðans augnakast.
Ég verð álfur, ungur, barn,
eigra um þitt hjarn,
legg svo upp í langa ferð,
að leiksopp þínum verð.
Brynleifur H. Steingrímsson læknir. Ljóðið var ort um áramótin 1969-1970. - JGH

Hér má sjá hóp erlendra ferðamanna sem vippuðu sér út út hópferðabíl við Strandaveginn og niður að brennunni.

Við upphaf brennunnar. Margt um manninn og bílum ekið að Skemmtigarðinum til að fylgjast með bálkestinum - ansi napurt úti.

Jólin kvödd með bombum, blysljósum og tertum í Hamrahverfinu í Grafarvogi í gærkvöldi.

Gufunesbrennan á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Mynd eftir Árna Sæberg.

Ljóðið Álfabrenna eftir Brynleif H. Steingrímsson er í ljóðabókinni Í ljósi dags sem kom út fyrir jólin 1993.


