Borgarfulltrúar ekki upplýstir um lykilgögn varðandi Höfðabakkann
Það er vert að vekja athygli á því að borgarfulltrúar voru ekki upplýstir um lykilgögn varðandi framkvæmdir við fimm gatnamót við Höfðabakkann - en Grafarvogur.net hefur verið í fremstu röð fjölmiðla við að upplýsa Grafarvogsbúa um þessar framkvæmdir.
Á meðal lykilgagna - sem leynt var fyrir borgarfulltrúunum - er greiningarskýrsla verkfræðistofunnar Cowi (áður Mannvit) en í henni kemur fram að sú leið sem valin var við gatnamót Höfðabakka og Bæjarháls myndi lengja biðraðir og ferðatíma.
Augljóslega er verið að þrengja að umferð bíla með þessum framkvæmdum en umferð gangandi og hjólandi eru í engu hlutfalli við hinn mikla þunga bílaumferðar á svæðinu. Höfðabakkinn er aðalumferðaræðin inn í Grafarvog.
Í Morgbunblaðinu sl. laugardag var frétt um svar Samgöngustofu við spurningu blaðsins varðandi slys við Höfðabakkann. Þess má geta að Ólafur Guðmundsson, Grafarvogsbúi og einn helsti umferðarsérfræðingur landsins, vann fyrir rúmum tíu dögum mikla úttekt fyrir Grafarvog.net um fjölda slysa við Höfðabakkann - og voru slys á gangandi og hjólandi sérstaklega skoðuð. Sjá þá stórfróðlegu úttekt hér.
Í frétt Morgunblaðsins segir að framkvæmdirnar við hin fimm gatnamót við Höfðabakka hafi verið teknar fyrir og samþykktar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 26. mars 2025 og voru lykilgögn ekki lögð fyrir ráðið, eins og skýrsla Cowi.

Frétt Morgunblaðsins sl. laugardag um framkvæmdirnar við fimm gatnamót við Höfðabakkann.
Morgunblaðið ræðir við Kjartan Magnússon, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, vegna fréttarinnar um slysatölur og þetta hafði hann að segja:
„Þetta sýnir hvað það var mikið óþurftarverk að loka þessum beygjuakreinum, vegna þess að það var ekkert beinlínis sem kallaði á að þeim yrði lokað.“
Hann bætir við að það sé sjálfsagt að gera gatnamótin öruggari fyrir þá fáu sem þar fara gangandi yfir og það sé hægt án þess að loka beygjuakreinum.
Hann gagnrýnir líka stjórnendur Reykjavíkurborgar fyrir að hafa ekki kynnt borgarfulltrúum skýrslu Cowi sem unnin var fyrir borgina fyrr en eftir að framkvæmdir hófust. - JGH

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur verið ötull við að gagnrýna framkvæmdirnar við Höfðabakka - sérstaklega gatnamótin við Höfðabakka og Bæjarháls.