Ragnar bjó í Grafarvogi áður en hverfið var byggt - hann kom að „bombu ársins“ 1992
Ragnar Tómasson lögfræðingur sem lést sl. sunnudag, 28. september, 86 ára að aldri, var frumbyggi í Grafarvogi og bjó hér áður en borgin skipulagði hverfið. Grafaravogur var þá í rauninni bara sveit í nágrenni höfuðstaðarins. Heimili Ragnars í Grafarvogi nefndist Dofri og var lengi skráð við Vesturlandsveg - eða þar til árið 1997 að byggingarfulltrúi borgarinnar samþykkti að húseignin yrði skráð sem Dofri við Leiðhamra.
Grafarvogur.net vottar fjölskyldu Ragnars samúð sína en eiginkona Ragnars, Dagný Ólafía Gísladóttir, lést árið 2016.
Ragnar var um árabil einn af kunnustu lögmönnum innan viðskiptalífsins og kom að sölu og samruna ýmissa fyrirtækja.
Sú sala sem hann kom að og vakti eflaust mesta athygli var árið 1992 þegar Hakaupsfjölskyldan keypti öllum að óvörum helminginn í Bónus af þeim feðgum, Jóhannesi Jónssyni og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. En um þá sölu skrifaði undirritaður meðal annars fréttaskýringu í Frjálsa verslun á sínum tíma þar sem aðdragandi kaupanna var rakinn.

Fréttaskýring Frjálsrar verslunar um það þegar Ragnar kom að kaupum Hagkaupsfjölskyldunnar á helmingshlut í Bónusi árið 1992 en gífurleg samkeppni var á milli fyrirtækjanna og komu kaupin flatt upp á alla.
Halda má því fram að þessi kaup Hagkaupsfjölskyldunnar í Bónus fyrir tilstuðlan Ragnars hafi markað dýpri spor og haft meiri áhrif í verslunarsögu Íslendinga en menn grunaði 1992 því sex árum síðar, eða í júní árið 1998, féll enn stærri bomba þegar Bónusfeðgar keyptu Hagkaup af Hagkaupsfjöldunni með aðstoð Kaupþings og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Úr varð fyrirtækið Baugur sem skráð var á íslenskan hlutabrérfamarkað.
Ekki er vitað til að Ragnar hafi komið að þeirri hugmynd en vissulega var komið á samstarf þarna á milli sex árum áður.
Í þessum óvæntu kaupum á Hagkaupum var Kaupþing með 37,5% hlut, Fjárfestingarbanki atvinnulífsins 37,5% og Gaumur, félag Bónusfeðga, 25%.
Þessi viðskipti urðu upphafið að sögu Baugs Group.
Þá skal þess getið að Ragnar var mjög þekktur hestamaður og áhugamaður um hesta - og þekkti Þorgeir Jónsson, eða Geira í Gufunesi, bónda, hestamann og þá miklu þjóðsagnarpersónu þess tíma, mjög vel.
Útför Ragnars fer fram frá Grafarvogskirkju fimmtudaginn 16. október klukkan 13. - JGH

Ragnar Tómasson, f. 30. jan. 1939, d. 28. sept. 2025. Svo sannarlega frumbyggi í Grafarvoginum og með allra þekktustu lögmönnum innan viðskiptalífsins um árabil.