Ævintýri níu glæsilegra Center-hótela í miðbænum byrjaði með því að pabbi hans þurfti að gista í Reykjavík

20. janúar 2026

Hann er Grafarvogsbúi og hefur búið í Grafarvogi í fjörutíu ár. Flutti í Logafoldina fyrir fjörutíu árum, 1986. Heitir Kristófer Oliversson og kvæntur Svanfríði Jónsdóttur. Þau hjón eru einhverjir helstu hótelhaldarar landsins því þau eiga og reka Center-hótelkeðjuna í miðbæ Reykjavíkur. Alls níu hótel, hvert öðru glæsilegra, og á hótelkeðjan átta þeirra fasteigna sem hótelin eru rekin í.


Kristófer er forstjóri Center-hótelanna en hefur ennfremur verið formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu um árabil.


Við félagarnir Sigurður M. Jónsson fengum hann í hlaðvarpið okkar, Hluthafaspjall ritstjóranna, sl. föstudag en það er að finna á efnisveitunni Brotkast.is. Grafarvogur.net sýnir hér viðtalið við hann í heild sinni.


Í viðtalinu spyrjum við Kristófer m.a. að því hvernig hótelævintýri þeirra hjóna hafi byrjað árið 1994. Hann vann þá við ráðgjöf hjá PwC og eiginkonan, Svanfríður Jónsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur vann á Landspítalanum. En svo gerðist það að faðir hans, sem bjó uppi á Akranesi, en þar er Kristófer fæddur og alinn upp, fór á eftirlaun og seldi húsið sitt á Skaganum og úr varð að hann gisti í stuttan tíma á gistihúsinu á horni Flókagötu og Snorrabrautar á meðan hann leitaði sér að íbúð í Reykjavík.


Og, boltinn fór að rúlla - að hætti Skagamanna og Grafarvogsbúa. - JGH  

Grafarvogsbúinn og athafnamaðurinn, Kristófer Oliversson, eigandi og forstjóri Center-hótelanna í miðbæ Reykjavíkur, í stúdíóinu með okkur Sigurði Má Jónssyni í Hluthafaspjalli ritstjóranna á Brotkast.is sl. föstudag.