Blöðrur og íslenski fáninn á lofti og sungið hástöfum Gerum okkar besta í Kirkjuselinu í gær fyrir leikinn við Ungverja

21. janúar 2026
Íslenska landsliðið í handknattleik fékk heldur betur hvatningu í samveru eldri borgara í Kirkjuselinu í Spöng í gærdag fyrir leikinn við Ungverja - sem vannst svo um kvöldið í miklum spennuleik. 

Eftir helgistund og fyrirlestur, sem ég hélt um fjölmiðla og vefinn minn Grafaravogur.net, var brugðið á leik með blöðrur í fánalitunum og íslenska fánanun veifað óspart á sama tíma og sungið var Gerum okkar, gerum okkar besta, gamt lag handboltalandsliðsins eftir Valgeir Guðjónsson. 

Svona til að æfa jafnvægislistina líka - samhliða því að hvetja íslenska landsliðið - var ákveðið að halda öllum blöðrum eins lengi á lofti og kostur væri.

Enginn blaðra sprakk - ekki frekar en landsliðið sem hélt vel út í leiknum og hafði mikla orku gegn Ungverjunum. 

Skemmtilegt. - JGH 

Íslenska landsliðið í handknattleik fékk góðan stuðning í Kirkjuselinu við Spöng í gærdag.

Áfram Ísland. Mikil stemning í samveru eldri borgara og vel til fundið hjá prestunum að koma með blöðrur og íslenska fánann og spila lag Valgeirs Guðjónssonar Gerum okkar besta til að bæta í gleðina.

Allir vel peppaðir fyrir leiknum.

Boltaleikur framundan og blöðrur á lofti.

Snillingurinn Lára Bryndís Eggertsdóttir organisti og píanóleikari með meiru hafði í nógu að snúast við að gera blöðrurnar klárar fyrir mannskapinn.

Ég flutti smá fyrirlestur um fjölmiðla og fréttamiðilinn minn Grafarvogur.net í þessari samveru eldri borgara í gær. Miðað við handahreyfingar var þetta ef til vill meira í ætt við prédikun.

Ánægjulegt að fá tækifæri til segja nokkur orð um fjölmiðla og kynna Grafarvogur.net í samveru eldri borgara í Kirkjuselinu í gær.

Ég hitti þarna gamla skólasystur mína úr menntó, Guðlaugu Ólöfu Ólafsdóttur. Svolítið síðan frá útskrift - aðeins fimmtíu ár.