Fleiri myndir frá Guðrúnu Ólafsdóttur íbúa í Grafarvogi - m.a. töfrar frá Seyðisfirði
Guðrún Ólafsdóttir, íbúi í Grafarvogi - sem sendi okkur frábærar myndir af hinum sterku rauðu norðurljósum eftir kvöldmat í gærkvöldi og sem við birtum við góðar undirtektir lesenda - setti inn fleiri myndir af ljósasjóinu inn á samfélagsmiðlana undir miðnætti og meðal annars myndir sem hún fékk sendar frá Seyðisfirði.
Undur og stórmerki á himnum - svo sannarlega.
Hvílíkir galdrar með rauða litnum sem kom ógnarsterkur inn og við flest höfðum ekki séð áður í sjónarspili ljósa norðursins - og munum þó tímanna tvenna í þeim efnum.
Norðurljósin með sínum rauðleita blæ sáust víða um Norður-Evrópu í gærkvöld, til dæmis í Noregi og Hollandi.
Rauði liturinn var vegna kórónugoss að sögn Sævars Helga Bragasonar stjörnufræðings í samtali við Vísi - sem hann einnig er þekktur sem Stjörnu-Sævar. Sjá ennfremur FB-færslu hans í gærkvöldi.
„Horfðu til himins,“ segir í textanum. Hjá því var ekki komist í gærkvöldi. Töfrar náttúrunnar í himinhvolfinu á svona kvöldum eru engu líkir. - JGH

Frá Seyðisfirði í gærkvöldi. Magnþrungið. (Mynd frá Guðrúnu Ólafsdóttur)

Rauði liturinn í norðurljósunum vakti undrun allra. Í Grafarvogi í gærkvöldi. (Ljósmynd Guðrún Ólafsdóttir)

Ja, hérna, hvílíkir segulmagnaðir kraftar. Seyðisfjörður í gærkvöldi. (Mynd frá Guðrúnu Ólafsdóttur)

Í Gufuneskirkjugarði í gærkvöldi. (Ljósmynd Guðrún Ólafsdóttir)

Horft yfir Reykjanesskagann í gærkvöldi frá Skerjafirði. Rauð norðurljós. (Ljósmynd Helga B. Bjarnadóttir á FB)

