Verið að rífa niður tankana við Sævarhöfða

21. ágúst 2025

NIÐURRIF! Verið er að rífa síðasta tankinn af þremur við Sævarhöfðann - gegnt Sorpu. Tankarnir hafa verið hluti af starfsemi Malbikunarstöðvarinnar Höfða.


Þessir tankar hafa ekki beint verið augnayndi en fyrir rúmum fimm árum kviknaði í einum þeirra og hefur klæðningin utan um hann borið þess merki síðan. Sjá frétt í Vísi um það mál þá. 


Malbikunarstöðin Höfði er í eigu Reykjavíkurborgar og Aflvaka. Í janúar árið 2022 var gert samkomulag við Höfða   um að stöðin flytti starfsemi sína vegna nýrrar framtíðarsýnar borgarinnar á þessu svæði og fékk fyrirtækið lóð við Álhellu í Hafnarfirði og hefur verið á báðum stöðum síðan - en skrifstofurnar eru við Sævarhöfðann.


Niðurrif tankanna núna er liður í að hreinsa svæðið sem sannast sagna er heldur óhrjálegt og er fyrir neðan nýju blokkirnar á Hamrinum á Ártúnshöfða - Eirhöfða - og fóru í sölu í byrjun árs. - JGH 

Síðasti tankurinn af þremur rifinn niður.

Eldur kviknaði í einum tankanna í apríl 2020.

Malbikunarstöðin Höfði er núna að mestu með starfsemi sína í Hafnarfirði.