Áfram verða tvær beygjuakreinar til vinstri yfir á Vesturlandsveginn

21. ágúst 2025

HÖFÐABAKKABRÚIN.   Framkvæmdirnar á Höfðabakkabrúnni hafa fengið hár Grafarvogsbúa til að rísa undanfarna daga - en nóta bene; ekki af hrifningu heldur af áhyggjum um að verið sé að þrengja enn frekar að bílaumferðinni á þessum hvað fjölförnustu gatnamótum borgarinnar.


Eftir þeim upplýsingum sem Grafarvogur.net hefur aflað sér hjá eftirlitsaðila verksins þá verða tvær beygjuakreinar áfram á Höfðabakkabrúnni til vinstri niður í beygjuvasa að Vesturlandsvegi (en þar verða tvær akreinar að einni eins og verið hefur til þessa) - en mesti óttinn hefur um hvort  verið sé að „taka Bæjarhálsinn á þetta“ á brúnni.


ÁFRAM TVÆR BEYGJUAKREINAR


Þannig að þegar ekið er frá Gullinbrú upp Höfðabakkann og á Höfðabakkabrúna verður þetta að óbreytt - þrjár akreinar. 1) Lengst til vinstri; beygjuakrein til vinstri á Vesturlandsveginn. 2) Miðakreinin verður bæði beygjuakrein til vinstri á Vesturlandsveginn sem og áfram upp í Breiðholt. 3) Sú sem er lengst til hægri verður eingöngu fyrir hægribeygjuna niður í bæ.


Miðeyjan sem nú er afmörkuð - og myndin er af hér að framan - verður framlengd lítillega fyrir ný umferðarljós sem koma þar syðst á hana - og breikkuð eitthvað lítillega rétt í kringum nýju ljósin.


HÆGAGANGUR. Svæðið var afmarkað í byrjun vikunnar en lítið sem ekkert hefur verið unnið þarna síðan og tálmanir eingöngu til að tefja fyrir.


Eftir því sem Grafarvogur.net kemst næst munu tafir hafa orðið á afhendingu kantsteins en til stendur að vinna alla helgina við verkið. 


Hér má sjá kynningu borgarinnar á framkvæmdunum á öllum gatnamótum við Höfðabakkann, þ.e. við Stórhöfða, Dvergshöfða, Bíldshöfða og við umtalaðan Bæjarháls - JGH

Ný götuljós verða sett þarna fremst á miðeyjuna - að öðru leyti verður flæði umferðarinnar um brúna óbreytt. Það er ekki verið að „taka Bæjarhálsinn“ á þetta.

Miðeyjan var afmörkuð með tálmunum í byrjun vikunnar en síðan hefur ekkert verið að frétta og verkið tafist. Skv. upplýsingum Grafarvogs.net verður unnið hörðum höndum í verkinu um helgina.

Hvað verður gert?

1) Framkvæmdin felur í sér endurnýjun umferðarljósa á 5 gatnamótum á Höfðabakka, við Stórhöfða, Dvergshöfða, Bíldshöfða, Vesturlandsveg og Bæjarháls.
2) Einnig verða gerðar endurbætur m.t.t. umferðaröryggis á gatnamótunum.
3) Við Stórhöfða, Dvergshöfða og Bíldshöfða verða gerðar endurbætur á umferðarljósum og á gönguleiðum, miðeyjur á Höfðabakka breikkaðar og götulýsing bætt. (Hér fær Grafarvogur.net staðfest að um óverulega breikkun á miðeyjum sé að ræða nema rétt við gangbrautirnar.)
4) Á Höfðabakkabrú við Vesturlandsveg verða gerðar endurbætur á gönguleiðum og götulýsing bætt. Gálgastaurar umferðarljósa verða fjarlægðir og umferðarljósastaurar staðsettir á nýjum stöðum.

Austan megin á Höfðabakka eru vinstribeygjureinar aðskildar frá akreinum til norðurs með eyju. (Þetta er komið).

5) Við Bæjarháls verða gerðar endurbætur á umferðarljósum og á gönguleiðum, miðeyjur á Höfðabakka breikkaðar, hægribeygjuframhjáhlaup fjarlægð og götulýsing bætt.

6) Á hægribeygjuframhjáhlaup sem ekki verða með umferðarljósum verða settar malbikaðar upphækkanir. 

7) Gert er ráð fyrir að unnið sé við ein gatnamót í einu þó að möguleiki sé á að skörun verði á milli gatnamóta með einhverja verkhluta.