Útlit fyrir að hægist enn á umferðinni um gatnamót Strandvegar og Rimaflatar

27. janúar 2026

Verið er að setja upp beygjuljós við gatnamót Strandvegar, Rimaflatar og Gufunesvegar - einhver fjölförnustu gatnamótin í Grafarvogi en þarna eru oft miklar umferðartafir á annatímum og svakalegur hægagangur í umferðinni.


Ekki hefur Grafarvogur.net upplýsingar um árekstrartíðni við þessi gatnamót en því verður ekki á móti mælt að beygjuljós auka væntanlega öryggið þarna þarna þegar umferðin er hvað mest.


Grafarvogur.net hefur hins vegar bent á að gera verið eitthvað róttækt til að liðka til fyrir umferð við þessi gatnamót vegna hins mikla umferðarþunga. En taki menn eftir því að í tillögum meirihlutans í borginni um þéttingu byggðar frá því sl. vor var hins vegar gert ráð fyrir að þrengja meira að þessum gatnamótum þannig að erfiðara yrði um vik að ráðast í umfangsmiklar betrumbætur með öflugum umferðarmannvirkjum.


Enn á íbúum í Gufunesi eftir að fjölga til muna og ekki minnkar það álagið á þessi gatnamót.  - JGH

Hún er oft erfið umferðin við þessi gatnamót. Enn mun hægjast á umferðinni þarna þegar beygjuljósum verður bætt við til að auka á öryggið við að taka vinstri-beygjuna af Strandveginum úr suðri niður í Gufunesið - og vinstri beygjuna inn á Rimaflötina úr norðri.

Þarna getur verið hröð umferð úr norðri (hvíti jeppinn) sem eykur hættuna á að beygja hér til vinstri niður í Gufuneshverfið.

Grafarvogur.net hefur nokkrum sinnum bent á að mikilvægt sé að liðka til fyrir umferðinni við þessi gatnamót með róttækum betrumbótum og öflugum umferðarmannvirkjum. Stefna borgarinnar hefur hins vegar verið að þrengja að gatnamótunum og viti menn að fyrir ofan rauða umferðarljósið (norðan við það) átti að troða niður einbýlishúsi m.v. þéttingartillögur frá því sl. vor - og til hægri, fyrir ofan bensínstöðina og Gullnesti, átti að byggja raðahús nánast ofan í Rimaflötinni. Á meðan er erfiðara um vik að liðka til með nýjum umferðarmannvirkjum og greiða úr umferð við þessi gatnamót.