Tær snilld - hringt í opinbera stofnun

4. nóvember 2025

Ólafur Hauksson almannatengill lýsir því snilldarlega á FB-síðu sinni í dag hvernig það sé að hringja í opinbera stofnun.


Hringt í opinbera stofnun:

„Góðan dag, þú hefur náð sambandi við Aðalskrifstofu.

Athugið að símatalið er tekið upp til að tryggja gæði og áreiðanleika, en láttu þig ekki dreyma um að biðja okkur um að finna upptökuna ef á reynir.

Ef erindið er að tilkynna eldsvoða, hringdu þá í 112.

Ef erindið er að biðja um liðskiptiaðgerð, hringdu þá í 1700.

Ef erindið er að tala við starfsmann, þá er hann að vinna heima í dag.

Við vekjum athygli á því að allar upplýsingar um starfsemi okkar er að finna á vefsíðu stofnunarinnar, nema auðvitað símanúmerið.

Til að senda tölvupóst á tiltekinn starfsmann er netfangið stofnun@stofnun.is og sér millistjórnandi í þjónustuveri um að finna út hver af 288 starfsfmönnum okkar eigi að fá póstinn. Vegna annríkis og styttingar vinnuvikunnar eru tölvupóstar sendir á þriðjudegi ekki lesnir fyrr en á mánudegi í næstu viku þar á eftir.

Af persónuverndarástæðum eru engar upplýsingar á vefsíðunni um starfsmennina.

Vegna styttingar vinnuvikunnar er afgreiðslan opin frá 10.30 til 12.00. Þar sem starfsmenn í afgreiðslu eru að vinna heima þessa vikuna er afgreiðslan lokuð.

Af persónuverndarástæðum getum við ekki gefið upp hvar Aðalskrifstofan er til húsa.

Þér yrði nú gefið samband við þjónustufulltrúa ef hann væri ekki að vinna heima.

Veldu einn til að slíta samtalinu.

Eigðu góðan dag.“


Þetta er ekkert nema tær snilld.


Grátbroslegt. Skemmtilegt að lesa en grátlegt að þetta skuli vera svona. - JGH

Ólafur Hauksson almannatengill lýsir því af tærri snilld hvernig það sé að hringja í opinbera stofnun.