Til hamingju: Haraldur Franklín og Ásdís Rafnar klúbbmeistarar hjá GR

13. júlí 2025

TIL HAMINGU. Haraldur Franklín Magnús og Ásdís Rafnar Steingrímsdóttir  urðu klúbbmeistarar í karla- og kvennaflokki í GR í gær eftir æsispennandi lokaumferð en bráðabana þurfti til að knýja fram úrslit í báðum flokkunum. 


Haraldur Franklín hafði nokkuð örugga forystu fyrir lokadaginn eða 6 högg á Sigurð Bjarka Blumenstein. En Sigurður Bjarki gerði sér lítið fyrir og vann þennan mun upp á lokahringnum sem spilaður var á Korpu (Sjónum/Ánni) og lék lokahringinn á 64 höggum eða á 8 höggum undir pari sem er með hreinum ólíkindum. Haraldur lékk lokahringinn á 1 höggi undir pari.


Það þurfti síðan 3 holur í bráðabana til að skera úr um úrslitin og þar hafði Haraldur betur.


Hin stórefnilega Ásdís Rafnar Steingrímsdóttir var 3 höggum á eftir Þóru Sigríði Sveinsdóttur fyrir lokaumferðina. En Ásdís vann þetta forskot upp og enduðu þær jafnar og efstar. Bráðabana þurfti því til og í honum vann Ásdís Rafnar. 


Grafarvogur.net óskar sigurvegurunum í öllum flokkum í meistararamóti GR síðustu daga innilega til hamingju með árangurinn. 


Vel gert og til hamingju GR-ingar með vel heppnað meistaramót.  - JGH


(Bestu þakkir fyrir myndirnar GR-ingar).

Klúbbmeistarar GR í meistaraflokki karla og kvenna. Ásdís Rafnar Steingrímsdóttir og Haraldur Franklín Magnús.

Drottningin í þriðja sæti. Hin gamalreynda Ragnhildur Sigurðardóttir varð í þriðja sæti og hér má sjá hvar hún óskar Ásdísi Rafnar til hamingu með sigurinn. Þóra Sigríður Sveinsdóttir er lengst til hægri.

Sigurður Bjarki Blumenstein gerði sér lítið fyrir og lék lokahringinn á Korpunni á 8 höggum undir pari og jafnaði við Harald Franklín. Hann tapaði síðan í bráðabana en til þess þurfti þrjár holur.

Fjölmenni var á lokahófinu á Korpunni í gær - og ekki skemmdi veðrið fyrir gleðinni.

Metalíuhafar í öllum keppnisflokkum stilltu sér að sjálfsögðu upp á lokahófinu.

Gísli Guðni Hall, formaður GR, og Elín Sveinsdóttir, varaformaður GR, afhentu verðlaunin.

Gamla kempan Steinunn Sæmundsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í golfi og á skíðum, sigraði í flokki kvenna 65 ára og eldri (forgjöf 0 til 20,5). Laufey Valgerður Oddsdóttir varð í öðru sæti og Olga Lísa Garðarsdóttir í því þriðja. Frá vinstri: Elín Sveinsdóttir, Olga Lísa, Steinunn, Laufey Valgerður og Gísli Guðni Hall.