Það er fyllsta ástæða til að hrósa Trausta Tómassyni og borginni fyrir snör viðbrögð

8. júlí 2025

VEL GERT!  Það er fyllsta ástæða til að hrósa bæði Trausta Tómassyni fyrir að vekja athygli á því þegar óprúttið lið henti fallegum bekk út í sjó fyrir neðan göngustíginn í Hamrahverfinu í Grafarvogi og borginni sömuleiðis fyrir að bregðast fljótt og vel við og koma með nýjan bekk daginn eftir.


Þessi gönguleið er einhver magnaðasta gönguleiðin á höfuðborgarsvæðinu og dásamlegt fyrir okkur Grafarvogsbúa að ganga þarna um og njóta útsýnisins yfir sundin blá.


Trausti birti færslu á Facebook þar sem hann sagði að skemmdarverk hefðu verið unnið við göngustíginn.


„Einn bekkurinn kominn út í sjó. Viðkomandi sem gerðu þetta hafa þurft að drekka í sig kjark, en tómur ölkassi er þar sem bekkurinn var áður. Nú ættu þeir sem þetta gerðu að sjá sóma sinn í því að ná í bekkinn og koma honum á sinn stað.“


Ekki svo að skilja að borgin hafi átt þarna hlut að máli en hún brást fljótt og vel við og setti þarna nýjan bekk daginn eftir - sem Trausti vakti athygli á og hrósaði borginni fyrir.


Hrós á Trausta og borgina.


Við Grafarvogsbúar viljum hafa hverfið okkar fallegt og vel snyrt í umhirðu - sem og að umgengni sé til fyrirmyndar. - JGH

Sorglegt uppátæki.

Trausti birti þessa færslu á Facebook.

Nýr bekkur kominn á sinn stað daginn eftir og sem Trausti vakti athygli á með hrósfærslu á FB.