Stórfróðleg umfjöllun um Amaroq og viðtal vð Eld forstjóra félagsins í Hluthafaspjallinu

2. október 2025

HLUTHAFASPJALL ritstjóranna. Eldur Ólafsson, forstjóri og stofnandi Amaroq, mætti í Hluthafaspjall ritstjóranna, hlaðvarps okkar Sigurðar Más Jónssonar, að þessu sinni.


Námuvinnslufyrirtækið Amaroq hefur nú verið þrjú ár í kauphöllinni og er án efa eitt af mest spennandi og um leið óvenjulegustu félögum kauphallarinnar. Jarðfræðingurinn Eldur fer í þættinum yfir upphaf félagsins og hvað varð til þess að hann fór inn í Grænland en áður átti hann áhugaverðan feril þar sem hann kom að jarðhitauppbyggingu í Kína.


Eldur segir í viðtalinu við Sigurð Má að gríðarleg tækifæri á Grænlandi og ef rétt sé haldið á spilum sé þar að finna eitt stærsta tækifæri íslensks viðskiptalífs. Á Grænlandi séu að skapast mörg tækifæri til að taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem er framundan þar.


Landið er nú í hringiðu alþjóðlegrar athygli en náttúruauðlindir landsins eru miklar og ónýttar. Eldur fer yfir rekstur og framtíðarsýn félagsins en hann segir það vel fjármagnað og með traustan hluthafahóp. Námugröftur á Grænlandi kallar á mikla innviðauppbyggingu þar í landi og Amaroq er í einstakri stöðu til að stýra því.  - JGH