Klúður við gatnamót Víkurvegar og Þúsaldar - auðvelt að laga til að liðka til fyrir umferðinni

29. september 2025

Það er ekki bara við Höfðabakkann sem augljóst klúður blasir við í umferðinni og mannvirkjum. Þannig má gera miklu betur við gatnamót Víkurvegar og Þúsaldar í Grafarholti.


Það hefur lengi vakið athygli hvað miklar tafir eru þegar ekið er niður Víkurveginn og beygt til hægri inn Þúsöldina. Þannig teppa tveir bílar sem bíða við ljósin - og ætla áfram inn Reynisveginn - alla umferð í Þúsöldina þar sem beygjuvasinn er svo nálægt gatnamótunum.


Þetta væri auðvelt að laga með því að lengja beygjuvasann eða koma með útskot fyrir hægri beygjuna mun ofar við Víkurveginn - færa þá gangbrautina aðeins til hægri.


Þannig má til dæmis sjá að ökumenn eru byrjaðir að aka yfir kantinn til að komast upp í Þúsöldina - og þá með tilheyrandi brölti og jafnvel skemmdum á bílum sínum.


Þetta sést á meðfylgjandi myndum sem dyggur lesandi vefmiðilsins sendi Grafarvogi.net vegna þessa máls.


Víða er hægt að liðka til fyrir umferð bíla án mikils tilkostnaðar - og hér er augljóst dæmi um það. - JGH

Hér má sjá hvernig óþreyjufullir ökumenn á leið inn Þúsöldina í Grafarholti aka yfir kantinn þar sem ekki þarf nema tvo bíla til - sem bíða við ljósin og eru á leiðinni inn Reynisveg - til að teppa alla umferð í Þúsöldina.

Þessi loftmynd sýnir stöðuna vel - ökumenn aka yfir kantinn þar sem ekki þarf nema tvo bíla til - sem bíða við ljósin á leið inn Reynisveg - til að teppa alla umferð inn í Þúsöldina.