Stöplarnir fyrir möstrin: Fyrsta stóriðjan á Íslandi var í Grafarvogi
FYRSTA STÓRIÐJAN. Frétt okkar um stöplana sem eru sitt hvorum megin í Grafarvogi – og sem margir Grafarvogsbúar hafa furðað sig á – hefur vakið athygli en stöplarnir héldu uppi möstrum fyrir rafmagnslínur sem fluttu rafmagn í Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi. Verksmiðjan tók til starfa árið 1954 og var hluti af Marshall-aðstoðinni við Íslendinga.
Grafarvogshverfið á sér því sína stóriðjusögu. Áburðarverksmiðjan í Gufunesi var fyrsta stóriðjan á Íslandi. Íslenskar verksmiðjur snerust fram að því bara í kringum sjávarfang - og yljuðu landanum með peningalykt.

Fréttin um stöplana undir möstrin fyrir rafmagnslínurnar sem lágu í Áburðarverksmiðjuna vakti athygli og var mikið lesin. Meira kemur til; Grafarvogshverfið var í raun vettvangur fyrstu alvöru stóriðjunnar á Íslandi. Við segjum hér þá sögu.
AFLIÐ KOM FRÁ ÍRAFOSSI Í SOGINU
En Áburðarverksmiðjan í Gufunesi var langþráð stóriðja sem nýtti orku fallvatnanna. Afl fossanna – það er að segja Írafoss í Soginu – sem knúði vélar og umbreytti efnum í eftirsótta vöru; stóriðja drifin áfram með rafmagni.
„Brauð veitir sonum, móðurmoldin frjóa,“ spáði Hannes Hafstein í aldamótakvæði sínu. En til að svo mætti verða þurfti áburð, tilbúinn áburð. Túnáburð. Fyrsta vörumerkið frá hinni nýju stóriðju í Gufunesi var: Kjarni – Köfnunarefnisáburðurinn Kjarni!
GUL GUFA Á GÓÐVIÐRISDÖGUM
Köfnunarefni, vetni og ammoníak varð til í verksmiðjunni í Gufunesi og stundum steig gul gufa þar upp úr strompum á góðviðrisdögum. En áður varð að flytja allt þetta inn. Núna varð þjóðin sjálfri sér nóg um þessar efnalegu forsendur lífsgæða.
Þannig er Grafarvogshverfið tengt upphafi nýrra tíma á Íslandi. Endalaust nýir tímar.
Íslenskir verkamenn fengu vinnu í alvöru stóriðju. Togarajaxlar, sem voru orðnir lúnir á að stíga ölduna á Halanum, stóðu nú stoltir og hlóðu verðmætri vöru á bretti til að tryggja mjólkurmat og kjöt fyrir landsmenn.

Baltasar Kormákur keypti húsnæði verksmiðjunnar og rekur þar kvikmyndaver - Reykjavik Studios - en kvikmyndaframleiðsla gæti orðið stóriðja framtíðarinnar á Íslandi.
MARSHALL-ÁÆTLUNIN
Og að sjálfsögðu var slík framkvæmd sem þessi stórpólitísk, já heimspólitísk. Ekkert minna. Fé til byggingar á þessu undraverki kom frá Ameríku. Bandaríkjamenn fjármögnuðu Marshall-áætlunina til endurreisnar Evrópu eftir hörmungar stríðsins og yfirvofandi fátækt.
Stríðið gerði að vísu syni Íslands ríka – en landsmenn þurftu engu að síður á stuðningi að halda til að forðast freistingar sovét-kommanna í Köldu stríði eftirstríðsáranna. Framfarir, atvinna og velmegun.
MENGUN OG HEILSUVÁ – FRAMLEIÐSLU HÆTT 2002
En svo fór íbúðabyggð í nýju Grafarvogshverfi að þrengja að verksmiðjunni. Sprengingar urðu við framleiðslu á ammoníaki. Mengun og heilsuvá varð til þess að samið var um að hætta framleiðslu árið 2002 og loka í áföngum. Borgin tók við landinu og skipulagði uppá nýtt.
Þá var liðin um hálf öld frá stofnun verksmiðjunnar, önnur stóriðja tekin við og Áburðarverksmiðjan í Gufunesi bara eins og smáiðja í samanburði við hinar stóru málmbræðslur - og eftir því gamaldags.
Nafli alheimsins?
Nei, en Grafarvogshverfið á sína stóriðjusögu sem á rætur í heimspólitík Kalda stríðsins. – GK/JGH

Verksmiðjan var vígð og tók til starfa árið 1954.

Bryggja Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi gegndi miklu hlutverki á sínum tíma. Núna er hún helst notuð af dorgveiðimönnum. Raunar er bannað að fara út á hana.