Elín Pálsdóttir, eiginkona Vigfúsar Þórs, er látin

16. ágúst 2025

ANDLÁT.  Ein styrkasta stoð safnaðarfélagsins í Grafarvogssókn, Elín Pálsdóttir, eiginkona séra Vigfúsar Þórs Árnasonar, er látin. Fjölskylda hennar greinir frá þessu í dag á samfélagsmiðlum og með dánartilkynningu í Morgunblaðinu.


Grafarvogur.net vottar börnum og fjölskyldu Elínar innilegrar samúðar en séra Vigfús lést fyrr á þessu ári, hinn 28. febrúar sl.


Elín vann ómetanlegt starf fyrir sóknina og kirkjuna og var ásamt nokkrum konum fremst í flokki í Safnaðarfélaginu - ritari þess frá byrjun. Grafarvogskirkja á henni mikið að þakka.


Meðfylgjandi mynd er fengin úr bókinni Grafarvogssókn 25 ára sem Sigmundur Ó. Steinarsson skráði en undirritaður naut þess heiðurs að vera í ritnefnd bókarinnar og kynntist Elínu og störfum hennar vel í kirkjunni. Bókin kom út árið 2014 á 25 ára afmæli sóknarinnar.


Á opnunarmyndinni er Elín með dætrum sínum Björgu og Þórunni Huldu, frú Agnesi M. Sigurðardóttur, þáverandi biskupi Íslands, og eiginmanninum Vigfúsi Þór en hún var svo sannarlega stoð hans og stytta alla tíð.


Blessuð sé minning Elínar Pálsdóttur. - JGH

Fjölskylda Elínar greinir frá andláti hennar í Morgunblaðinu í dag.

Stjórn safnaðarfélagsins á 25 ára afmælisárinu, 2014. Elín fyrir miðju. Frá vinstri: Rósa Jónsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Bergþóra Valsdóttir formaður, Elín, Stefanía Baldursdóttir, Edda Jónsdóttir og Jónína Jóhannsdóttir.

Hugljúf mynd úr fjölskyldualbúminu af mömmu og pabba sem fjölskyldan birtir í dag en Vigfús Þór lést fyrir rúmum fimm mánuðum, 28. febrúar sl.

Fróðlegt viðtal var við Elínu í 25 ára afmælisriti Grafarvogssóknar. Hún vann ómetanlegt starf fyrir kirkjuna ásamt stórum hópi sjálboðaliða.