Steinunn er afrekskona í golfi og á skíðum - og enn að safna medalíum
AFREKSKONA! Við sögðum frá því á dögunum að Steinunn Sæmundsdóttir hefði sigrað í flokki 65 ára og eldri í nýliðnu meistaramóti Golfklúbbs Reykjavíkur.
Ef til vill sakleysisleg frétt fyrir ýmsa en það er hins vegar fyllsta ástæða til að staldra við - hér fer þekkt og mikil afrekskona í golfi og á skíðum sem hefur keppt fyrir hönd Íslands í báðum greinum. Til að mynda keppt á skíðum á tvennum Vetrarólympíuleikum. Þá er hún drjúg í hestamennskunni líka.
Á upphafsmyndinni, sem hinn kunni ljósmyndari,
Einar Falur Ingólfsson tók, er hún að slá inn á flötina á 18. brautinni í Grafarholti árið 1988 þegar hún varð Íslandsmeistari í golfi eftir harða keppni við Karenu Sævarsdóttur, Golfklúbbi Suðurnesja. Steinunn varð einnig Íslandsmeistari tveimur árum áður, 1986.

Steinunn Sæmundsdóttir, hér fyrir miðju, tekur við verðlaunum sínum sem klúbbmeistari GR í flokki 65 ára og eldri. Hún er margfaldur sigurvegari í íþróttum og hefur m.a. keppt á skíðum á tvennum Ólympíuleikum fyrir hönd Íslands.
Steinunn lék sigurhringinn í nýafstöðnu meistaramóti á Korpunni en byrjaði mótið í Grafarholtinu. Morgunblaðið rifjaði það upp í skemmtilegri frétt í fyrra að Steinunn væri ekki óvön því að leika vel í Grafarholtinu en hún hefði verið mjög sigursæl á meistaramótum GR. Varð klúbbmeistari GR 1980, 81, 85, 86, 88, 89, 90.
„Þrátt fyrir þessi afrek er Steinunn samt sem áður þekktari fyrir afrek sín í skíðaíþróttinni og er tvöfaldur ólympíufari. Keppti hún bæði í Innsbruck 1976 og í Lake Placid 1980.
Hafnaði Steinunn í 16. sæti í svigi á Vetrarólympíuleikunum 1976 og var þá aðeins 15 ára gömul sem er magnað afrek. Enn þann dag í dag er það besti árangur íslenskrar konu í alpagreinum á Vetrarólympíuleikum,“ segir í upprifjun Moggans.
Afrekskona og sigurvegari í íþróttum. Til hamingju Steinunn með nýjustu medalíuna. - JGH

Steinunn vippar inn á flötina við 18. braut í Grafarholtinu til sigurs í Íslandsmótinu í golfi 1988. Klæðaburðurinn í golfinu hefur breyst talsvert frá þessum tíma - ekki satt? Tískan aðeins hástemmdari. En klúbbhúsið í Grafarholtinu heldur sínum stíl og hefur ekkert breyst.