Smánarblettir borgarinnar - grastopparnir víða að nálgast 50 cm. við vegkantana
SMÁNARBLETTUR Á BORGINNI. Óslegnir grasbalar við gangstéttir og vegkanta í Grafarvogi eru orðnir að smánarblettum borgarinnar. Það sem meira er; grastopparnir við vegkanta eru víða að nálgast 50 cm – hálfan metra.
Grafarvogur.net hefur áður vakið athygli á að það virðist borginni algerlega ofvaxið að þjónusta Grafarvogsbúa með sóma og slá ofvaxna grasbala við gangstéttir og vegkanta.
Ég gerði mér það að leik í kvöld að mæla hæðina á stærstu stráunum og setti niður hálfs metra skóhorn til viðmiðunar. Það var toppað.
ÞAÐ VAR Í ÁGÚST AÐ ÁLIÐNUM SLÆTTI...
Með sama áframhaldi endar þetta á því að lagið um Kötu verður sungið um nýju borgarstýrurnar – þær voru að koma af engjunum heim; það var í ágúst að áliðnum slætti...
En svona án gríns; þetta hirðuleysi og getuleysi borgarinnar í slættinum er til háborinnar skammar og er því miður birtingarmynd þess að margt annað sé ekki í lagi við stjórn borgarinnar! - JGH

Þarna leyndist plastafata í grasinu við vegkantinn en hún mátti sín lítils blessunin.

...það var í ágúst að áliðnum slætti.