Collab á leið í 1.500 verslanir í Þýskalandi - er þegar í 590 verslunum í Danmörku
19. maí 2025
HLUTHAFASPJALLIÐ. COLLAB
er orðið sterkasta drykkjarvörumerkið á Íslandi og komið upp fyrir Kristal, Pepsí og Coca Cola. Ölgerðin hyggst hasla sér völl erlendis á næstu árum með Collab-drykkinn og verja um 1 milljarða króna í markaðssetningu sem dreifist á þrjú ár. Drykkurinn fæst þegar í 590 verslunum í Danmörku og fer á næstu vikum í um 1.500 verslanir í Þýskalandi.
Ölgerðin notaði um 70 tonn af kollageni á síðasta ári sem unnið var upp úr 7 þúsund tonnum af fiskroði.
Þetta kemur fram í spjalli okkar Sigurðar Más Jónssonar við Andra Þór Guðmundsson, forstjóra Ölgerðarinnar, í nýjasta hlaðvarpsþætti okkar á Brotkast.is, Hluthafaspjallinu. Sjá klippuna hér.
Ölgerðin hefur flutt út vatn um árabil, Iceland Spring, og skilar sá útflutningur hagnaði.
TÆKIFÆRIÐ HRÓPAR Á OKKUR
En það er Collab-drykkurinn sem Ölgerðin veðjar núna á í Danmörku og Þýskalandi og telur Andri Þór að fyrirtækið sé í slíku sóknarfæri í Norður-Þýskalandi að það væri allt að því galið að láta ekki á það reyna. „Tækifærið hrópar á okkur,“ segir Andri.
Þá horfir fyrirtækið sömuleiðis til Austurríkis og þar hafa 1.900 verslanir samþykkt að taka Collab-drykkinn inn.
1 MILLJARÐUR Í MARKAÐSSETNINGU
Til mikils er að vinna og því hefur Ölgerðin ákveðið að verja 1 milljarða króna í markaðssetningu á drykknum. „Við settum 300 milljónir í þetta á síðasta ári og ætlum að fjárfesta fyrir annað eins á þessu ári, eða fyrir um 350 milljónir. Og svo aftur á næsta ári. Þannig að þetta dreifist á þrjú ár,“ segir Andri.
„Collab er verðmætasta vörumerkið á drykkjavörumarkaðnum á Íslandi og komið upp fyrir Kristal, Pepsí og Coca Cola,“ segir Andri Þór.
VINNA OKKAR AÐ BÚA TIL EFTIRSPURNINA
„En þetta er mikil áskorun og björninn er ekki unninn þótt við séum komnir í hillurnar úti - þá tekur í raun vinnan við að búa til eftirspurnina og ná sölunni í gang. Þannig að þessu fylgir auðvitað veruleg áhætta - en við trúum mjög á þetta. Við höfum gert ítarlegar markaðsrannsóknir og vitum að Þjóðverjum líkar bragðið af drykknum og okkar er að fá þá til að kaupa hann,“ segir Andri Þór Guðmundsson. - JGH