Slökkvistöðin í Gufunesi- sem er ekki slökkvistöð - býður öllum í kaffi á morgun
Það verður nú svolítið forvitnilegt að fara í Gufunesið á morgun og fá sér kaffisopa. Slökkvistöðin, sem nóta bene er ekki einhver slökkvistöð á vegum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, býður í opið hús á morgun, laugardaginn 22. nóvember, frá kl. 12–16.
En hvað er þá Slökkvistöðin? Jú, hún er sjálfstætt sýningar- og viðburðarými fyrir arkitekta og áhugafólk um arkitektúr og rýmislist, til húsa í slökkvistöð fyrrum Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi.
„Við verðum í vinnustofunni í Gufnesi, í gömlu Áburðarverksmiðjunni, að vinna og dytta að, en viljum gjarnan að fólk komi, þiggi kaffi eða te, ræði við okkur um starfsemina og láti sér líða vel,“ segir Óskar Örn Arnórsson arkitekt.
„Sérstaklega erum við spennt að fá fólk úr Gufunesi og Grafarvogi — okkur langar að kynna nágrönnum okkar starfsemina. Og auðvitað eru allir velkomnir.“
Óskar Örn segir ennfremur að það verði opið hús
í öðrum rýmum hússins og hægt að ganga um og kynna sér starfsemi listhússins að Gufunesvegi 40.
- JGH

Slökkvistöðin er sjálfstætt sýningar- og viðburðarými fyrir arkitekta og áhugafólk um arkitektúr og rýmislist, til húsa í slökkvistöð fyrrum Áburðarverksmiðju ríkisins.

Slökkvistöðin er ekki hefðbundin slökkvistöð á vegum Slökkviliðsins, heldur listhús arkitekta, og býður upp á kaffisopa á morgun, laugardag. Það verður heitt á könnunni, tíu dropar en engin buna, eins og einhverjir kynnu að halda miðað við nafnið á sýningarsalnum.


