Ólga í Gufunesi. Íbúar segja lögreglu og stöðumælaverði fara reglulega í hverfið og sekta íbúa fyrir að leggja ólöglega

22. nóvember 2025

Það er óhætt að segja að pósturinn frá íbúa í Gufunesi sem settur var inn á FB-vefinn Íbúar í Grafarvogi hafi vakið athygli. Fyrirsögn hans var SKILABOÐ TIL REYKJAVÍKURBORGAR  og er hann stílaður sérstaklega á borgarfulltrúana Dóru Björt Guðjónsdóttur og Heiðu Björg Hilmisdóttur borgarstjóra. Sá sem sendir póstinn nýtir sér nafnleysi. 


Kvartað er yfir fáum bílastæðum og bent á að nægilegt rými sé til að bæta við stæðum og leysa vandann. Óvenjumargar færslur eru í athugasemdakerfinu við póstinn og tónninn í þeim á einn veg gagnvart meirihlutanum í borginni - og að Gufunesið sé dæmi um „bíllausan lífsstíl “ sem gangi ekki upp.


„GETIÐ KOMIÐ OG NÆLT YKKUR Í FLJÓTAN 700.000 KALL“

Íbúar, sem Grafarvogur.net hefur rætt við, segja að lögregla og stöðumælaverðir fari reglulega í hverfið og sekti eigendur bíla sem sjái ekki annan kost en að leggja ólöglega uppi á gangstéttum - og sé stæðið ekki afmarkað sem bílastæði þá sé það skilgreint sem gangstétt og þar með kemur sekt fyrir að leggja þar.


Sektin við að leggja ólöglega er 10 þús. krónur og segir meðal annars í fyrrnefndum skilaboðum til þeirra Dóru og Heiðu: „Síðast þegar ég taldi voru þetta um það bil 70 bílar sem voru lagðir ólöglega í Jöfursbás kl. 11 um kvöld þegar malarplanið við hliðinni á básunum var líka orðið troðfullt. Er planið að halda þessu óbreyttu þannig þið getið komið og nælt ykkur í fljótan 700.000 kall þegar ykkur hentar ?“

Fjölbýlishús Spildu (félags Baltasar Kormáks og fl.)  eru með bílakjöllurum - og bílastæði fyrir hverja íbúð en Spilda er með 700 íbúðir á svæðinu. (Mynd tekin sl. sumar).

ÍBÚÐIR SPILDU EHF. (BALTASAR KORMÁKUR OG FL.) MEÐ BÍLAKJALLARA

Það vekur líka athygli að bílastæðakjallarar eru undir þeim fjölbýlishúsum sem félagið Spilda ehf. reisir - en Baltasar Kormákur kvikmyndagerðarmaður kemur m.a. að því verkefni. Um er að ræða 700 íbúðir á vegum Spildu ehf. og í lýsingum á verkinu segir að bílastæði fylgi hverri íbúð. Það var árið 2021 sem Baltasar, Dagur B. Eggertsson og fleiri tóku fyrstu skóflustunguna að íbúðum Spildu ehf.

Fyrir utan Jöfursbás 11. Bílum lagt þar ólöglega á gangstétt. (Mynd tekin sl. sumar).

ÞORPIÐ BYGGÐI 137 ÍBÚÐIR VIÐ JÖFURSBÁS 11 - 60 BÍLASTÆÐI

Bílastæðavandinn blasir einn verst við íbúum í fjölbýlishúsunum við Jöfusrbás 11 sem Þorpið vistfélag byggði en um er að ræða 137 íbúðir og hófust framkvæmdir árið 2020 og fluttu fyrstu íbúar inn árið 2021. Þessar íbúðir voru auglýstar sem „bíllaus lífsstíll“ og í upphafi fylgdu aðeins 30 stæði þessum 137 íbúðum - eða 0,25 stæði á íbúð. Þeim var síðan fjölgað í 60 eftir beiðni íbúanna eða um 0,44 stæði á íbúð.


LÉLEGAR ALMENNINGSSAMGÖNGUR Í GUFUNES

Þessar íbúðir voru auglýstar á sínum tíma sem ódýrar íbúðir fyrir ungt fólk og að almenningssamgöngur yrðu góðar í Gufunesið. Íbúar telja að borgin hafi svikið þetta með góðar samgöngur - og raunar hefur mátt sjá í færslum á Íbúar í Grafarvogi að strætó gangi ekki að Jöfursbási 11 og að íbúar getið farið í leigubíl á vegum strætó á ákveðnum tímum dags upp að Spöng.


Svo virðist sem langflestir íbúa í hinum 137 íbúðum við Jöfursbás 11 séu komnir á eigin bíla þar sem þeir hafa gefist upp á samgönguleysinu. Það má líka spyrja sig að því hvort ungt fólk með börn þurfi ekki frekar tvo bíla en einn til að mæta hefðbundnum snúningum barnafólks. Í það minnsta rogast enginn með vörur úr Spönginni niður í Gufunes; um 20 mínútna gang, með börn með sér í hvernig veðri sem er.


Vissulega er sú spurning réttmæt hvort íbúar við Jöfursbás 11 - sem Þorpið vistfélag byggði og voru fyrstu íbúðirnar á svæðinu - hafi ekki vitað að hverju þeir gengju þegar þeir keyptu íbúðir auglýstar og tengdar við „bíllausan lífsstíl“. Á móti kemur að íbúarnir voru í góðri trú um góðar samgöngur borgarinnar í Gufunesið sem þeir segja að hafi brugðist.


GESTIR Í GUFUNESI SITJA LÍKA Í SÚPUNNI

Varðandi ferðir lögreglu seint á kvöldin í Gufunesið þá eru það ekki aðeins íbúarnir sem sitja í súpunni finni þeir sér stæði uppi á gangstétt heldur líka gestir sem heimsækja íbúana á svæðinu - og þá ekki bara við Jöfursbás 11 heldur líka Jöfursbás 5 og 7 sem Spilda ehf. (Baltasar og fl.) er með - þ.e. þær 700 íbúðir.


Alls verða í kringum 900 íbúðir í Gufunesi þegar framkvæmdum við þær síðustu verða kláraðar - og eru þá íbúðir við Jöfursbás 9 taldar með.  -JGH

Við Jöfursbás 11. Íbúarnir segja að nægilegt rými sé fyrir fleiri bílastæði. Sjá má gangstéttina (tröppurnar) sem þeir íbúar, sem fara leiðir sínar fótgangandi, nota - en þeir eru víst ekki margir. Kvartað hefur verið yfir því að borgin moki ekki tröppurnar þegar snjóar.

Mynd tekin fyrir utan Jöfursbás 7 og horft inn götuna. Algeng sjón. Lagt upp á gangstétt. Sjá má smáhýsin sem borgin kom fyrir við enda götunnar. Og til hægri við þau er malarstæði sem fyllist yfirleitt á nokkrum mínútum í lok vinnudags þegar íbúar koma heim.

Jöfursbás 11 er lengst til hægri á myndinni og Þorpið byggði. Alls 137 íbúðir. Í upphafi var gert ráð fyrir 30 bílastæðum en þeim var svo fjölgað í 60. Eða 0,44 stæði á íbúð. Borgaryfirvöld töluðu um bíllausan lífsstíl og að almenningssamgöngur yrðu góðar. Íbúar telja að borgin hafi svikið það loforð illilega.

Úr frétt RÚV þegar Dagur B. Eggertsson, Baltasar Kormákur og fl. tóku fyrstu skóflustunguna að 700 íbúðum Spildu. Bílastæði í bílakjöllurum fylgir þeim íbúðum og því ekki gert ráð fyrir bíllausum líffstíl þar á bæ.

Fyrir utan Jöfursbás 11. Þetta eru ekki afmörkuð bílastæði og því er verið að leggja ólöglega upp á gangstétt.

Jöfursbás 11 til vinstri sem Þorpið byggði og voru fyrstu íbúðirnar sem voru reistar í Gufunesi. Byrjað á þeim árið 2020 og fyrstu íbúarnir fluttu inn 2021. Þeir fengu svo þessa byggingu til hægri upp að sér í sumar. Komst raunar í fréttirnar um að þétt væri byggt og stutt væri á milli íbúða.

Þessar íbúðir eru á vegum Spildu ehf. (Félags Baltasar og fl.)

Íbúðabyggðin í Gufunesi. Spilda er með fjölbýlishúsin Jöfursbás 5 og 7. Þorpið byggði fjölbýlishúsin við Jöfursbás 11.

Færslan sem íbúi í Gufunesi setti inn á FB-síðuna Íbúar í Grafarvogi og hefur vakið mikla athygli. Fjölmargar fróðlegar athugasemdir fylgdu í kjölfarið. Það er mikið bílastæðavandamál í Gufunesi og að sögn íbúa hefur bæði lögregla og stöðumælaverðir lagt leið sína í Gufunesið og sektað íbúa sem leggja uppi á gangstétt. Sektin er 10 þús. kr.

Mörgum finnst léleg nýting á strætó og að oftar en ekki megi sjá þá tóma. Væri ekki ráð að þeir færu reglulega niður í Jöfursbása í Gufunesi. Þessir eru litlir og hentugir og færu létt með Jöfursbásana.