Slökkviliðinu hefur verið send ábending um stóraukna hættu á sinubruna í Grafarvogi
Ýmsir Grafarvogsbúar hafa núna vaxandi áhyggjur af sinubruna vegna stefnu borgarinnar um að láta gras vaxa „viljandi villt“ í stórauknum mæli og hafa þessar áhyggjur meðal annars komið fram í athugasemdakerfum á FB.
Grafarvogur.net hefur heimildir fyrir því að Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hafi núna verið send formleg ábending um að sinubrunahætta sé raunveruleg.
Fram hefur komið í samtölum Grafarvogs.net við Grafarvogsbúa að íbúar við Sóleyjatún hafi orðið vitni að sinubruna á gamlárskvöld þegar flugeldar hafa kveikt í óslægðri sinu - en hús með timburklæðningum standa í aðeins 3 metra fjarlægð frá túninu. Óslegið grasið, sem verður að sinuflákum, sé því ekki lengur tilfinningamál heldur öryggismál í hugum íbúanna.

Grafarvogsbúar hafa áhyggjur af stóraukinni hættu af sinubrunum vegna stefnu borgarinnar um minnkandi slátt og að láta gras vaxa villt. Slökkviliðinu hefur nú verið send ábending um málið.
Það vakti mikla athygli þegar íbúar við Sóleyjatún tóku sig til sl. sumar og slógu svæðið fyrir norðan Rimaskóla og fyrir sunnan fjarskiptastöð Isavia. Þetta er þekkt og vinsælt útivistarsvæði í hverfinu.
Fram kom í samtali íbúa við Soleyjatún við Grafarvog.net sl. sumar að þeir hefðu áhyggjur af því að svæðið væri látið grotna viljandi niður til að réttlæta fyrirhuguð áform um þéttingu byggðar á þessu svæði. Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri borgarlands, mótmælti því í fjölmiðlum og sagði að til hefði staðið að slá túnið við Sóleyjarima síðsumars.
Það hefur hins vegar ekki verið gert og ekki stendur til að slá túnið við Sóleyarima þar sem slætti er lokið af hálfu borgarinnar í Grafarvogi.
Í skriflegu svari Hjalta Jóhannesar til Grafarvogs.net í byrjun síðustu viku staðfesti hann að slætti væri lokið í Grafarvogi og að slegið hefði verið þrisvar í sumar á þeim svæðum sem til stóð að slá.
Þá kom fram hjá Hjalta að fáir íbúar hefðu mótmælt tilraunverkefninu
„Viljandi villt“ sem kemur raunar á óvart miðað við hve margir Grafarvogsbúar virðast ósáttir við þessa stefnu og finnst hún tákn um metnaðarleysi, druslugang og almenna vanhirðu í borginni.
- JGH

Slökkviliðsmaður berst við sinubruna í Laugarnesinu. Vaxandi uggs gætir nú á meðal Grafarvogsbúar af sinuflókum víða í hverfinu vegna stefnu borgarinnar um minni slátt og minni umhirðu, þ.e. tilraunaverkefnið „Viljandi villt.“

Íbúar við Sóleyjarima mótmæltu sinnuleysi borgarinnar í slætti með því að slá sjálfir hið þekkta tún og stóra útivistarsvæði fyrir neðan fjarskipastöð Isavia í Rimahverfinu. Borgin ætlaði að slá síðsumars en ekkert hefur orðið úr því.

Raunveruleg eldhætta. Mörgum íbúum í Grafarvogi finnst hverfið ekki aðeins hafa verið illa hirt heldur séu víða að myndast sinuflákar sem sé stórhættulegur eldsmatur.

„Viljandi villt“. Ekki lengur tilfinningamál - að mati sumra íbúa - heldur hreint og klárt öryggismál vegna stóraukinnar hættu á að eldur berist í sinuna og sinueldar breiðist út í vetur og þegar líður á næsta vor.