Fjórar stúlkur í skáksveit Rimaskóla sem er á leið til Helsinki á Norðurlandamótið í skák
Fjórar stúlkur eru á meðal fimm keppenda í skáksveit Rimaskóla sem er á leiðinni til Helsinki í Finnlandi til að keppa á Norðurlandamóti barnaskólasveita í skák. Skáksveitin er Íslandsmeistari barnaskólasveita 2025 og hefur Rimaskóli unnið Norðurlandamótið í sex skipti, oftar en nokkur annar skóli á Norðulöndunum.
Þetta verður spennandi mót og óskar Grafarvogur.net okkar fólki úr Grafarvoginum alls hins besta á mótinu.
Skáksveit Rimaskóla skipa þau Tristan Fannar Jónsson, Emilía Embla B. Berglindardóttir, Sigrún Tara Sigurðardóttir, Emilía Sigurðardóttir og Tara Líf Ingadóttir .
Fjórar stúlkur eru í skáksveitinni og er það einsdæmi. Þjálfari krakkanna er Björn Ívar Karlsson, skákkennari skólans, en fararstjóri er Helgi Árnason, formaður Skákdeildar Fjölnis.
Þetta mun vera í 17. skipti sem skáksveit Rimaskóla vinnur sér þátttökurétt á Norðurlandamót barna-og grunnskólasveita.
Hópurinn flýgur til Finnlands á föstudagsmorgun 12. sept. Mótið verður haldið dagana 12. - 14. september í Helsinki, höfuðborg Finnlands.
Forseti Skáksambands Íslands, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, er hér með hinni öflugu skáksveit á meðfylgjandi mynd ásamt Helga Árnasyni fararstjóra. - JGH
ÖFLUG SKÁKSVEIT. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, forseti Skáksambands Íslands, og Helgi Árnason, formaður Skákdeildar Fjölnis og fararstjóri í ferðinni, með hinni öflugu skáksveit Rimaskóla. Talið frá vinstri: Jóhanna Björg, Sigrún Tara Sigurðardóttir, Emilía Embla B. Berglindardóttir, Tristan Fannar Jónsson og Helgi. Á myndina vantar Töru Líf Ingadóttur.